SiggiSiggiBangBang

La muerte

Sep
08

Nú er ég búinn að eiga heima á Spáni síðan í október á síðasta ári. Ég bý í litlu krúttlegu þorpi þar sem meðalaldurinn er 80 ár. Hér keppist fólk við að deyja. Þegar einhver deyr, er þartilgerðum bíl með gjallarhorni á þakinu keyrt um þröngar götur þorpsins og andlátið tilkynnt. Tilkynningin er eitthvað á þessa leið: “Senjór Gómez er dauður, hann var svo og svo gamall og bjó við þessa götu númer þetta og verður jarðaður í eftirmiðdaginn. Svona er lífið. Bla bla bla. Adios.” Svo gefur bílstjórinn á dánartilkynningarbílnum í og spólar yfir í næstu götu þar sem andlátið er endurtekið. Það eru nokkrir karlar hérna í götunni sem sitja fyrir framan hýbýli sín og bíða þess að heyra sína eigin dánartilkynningu. Konurnar hafa engan tíma í þessháttar hangs, þær eru of uppteknar af því að halda ÖLLU gangandi. Þær hníga oftast niður í miðri matseld eða á leiðinni frá markaðnum klyfjaðar innkaupapokum. Þær eru svakalegar! Ég held annars að sé prýðilegt að deyja á Spáni.

Veflókar Comments Off on La muerte