SiggiSiggiBangBang

Á síðustu stundu

Apr
26

Eins og oftast þegar ég og konan mín ferðumst flugleiðis erum við á síðustu stundu. Við erum bara tvö, engin börn með í för. Við erum á óskilgreindum flugvelli í Asíu. Við erum komin inn fyrir öryggið og hlaupum í átt að hliðinu þar sem gengið er inn í vélina. Við erum ekki alveg sammála um hvert við eigum að fara. Lea vill halda áfram á sömu hæð en ég vil taka rúllustiga sem liggur upp á aðra hæð. Úr verður að ég fer upp rúllustigann en Lea heldur áfram. Ég tefst en þegar ég kem að hliðinu er Lea ekki þar og tel ég víst að hún sé komin um borð í vélina. Ég bölva henni fyrir að fara inn á undan mér, sýni passann og farmiðann og geng um borð. Ég fæ mér sæti. Sætið hennar Leu er autt og hún er hvergi sjáanleg. Hugsanlega er hún á klósettinu? Einhverjar mínútur líða þar til ég átta mig á að hún er ekki um borð. Hurðinni á vélinni er lokað og vélin byrjar að hreyfast. Ég er að fara í þessa ferð einn og Lea varð eftir.

Veflókar Comments Off on Á síðustu stundu

Mín fyrstu kynni af feminisma.

Jun
29

Hér á árum áður starfaði ég á spítala. Í einhverju rapportinu sat ég með konunum og grafalvarleg mál voru rædd sundur og saman; hafði Guðmundur gert púpú eða Sigríður pissað, ef Guðmundur gerir ekki púpú í dag þurfum við að beita þartilgerðum bellibrögðum til að lokka púpú út í dagsljósið. Ein konan sem vann á vaktinni við að færa inn mikilvæg gögn um sjúklingana var ólétt og komin langt á leið og talið barst að meðgöngunni. Hún trúði okkur fyrir því að hún væri orðin alveg ófær um að stunda kynlíf með ástmanni sínum. Yfirhjúkrunarkonan, sem var frekar feitlagin og ákaflega skoðanaföst hreytti þá út úr sér reiðilega: “HANN GETUR BARA RUNKAÐ SÉR!” Ég man ennþá hvernig hvernig undirhakan hennar dúaði upp og niður meðan hún hvæsti þessi orð. Með þessum orðum var fundinum slitið og mál til komið að ganga á herbergin og drífa fólk fram í morgunmat, hvort sem það vildi það eður ei. Eftir á að hyggja tel ég að þarna hafi ég ákveðið að gerast feministi.

Veflókar Comments Off on Mín fyrstu kynni af feminisma.

Handaleysi

Dec
16

Ég hef undanfarið ár, eftir að ég flutti til borgarinnar, fundið fyrir óþægilegri tilfinningu af þeirri tegund sem flestir myndu halda út af fyrir sig af hræðslu við að vera álitnir geðbilaðir. Ég er hinsvegar lítið þjakaður af þeim ótta. Sýn mín á lífið hefur aðeins orðið fjarstæðukenndari eftir því sem ég hef orðið eldri. Alveg öfugt við það sem ég hélt þegar ég var milli tvítugs og þrítugs. Ég hélt að eftir því sem ég yrði eldri yrði lífið hornréttara ef svo má að orði komast, en þess í stað er það eða sýn mín á það orðin afbakaðri.

Mér finnst ég reyndar skilja lífið betur tilfinningalega ef ég les súrealískar bókmenntir eða horfi á kvikmyndir sem teljast einkennilegar og fjarstæðukenndar. Þar í uppáhaldi er Charlie Kaufmann, David Cronenberg og að sjálfsögðu David Lynch. Ég einnig efast orðið um öll þessi akademísku hugtök og sjúkdómsheiti sem notuð eru til að útskýra fáranleika lífssins. Heimurinn fyrir mér er óraunverulegri, eða raunverulegri núna en hann var. Ég hef ekki enn komist að því hvort er. Hvað er eðlilegt og hvað er óeðlilegt? Eðlilegt samkvæmt hvaða skilgreiningum? Þetta er allt eitthvað sem einhverjir menn, hugsanlega sjálfir kolklikkaðir, ákváðu. Hvað um það. Víkur nú aftur að þeirri tilfinningu sem ég vil hér með skjalfesta. Við skulum svo sjá hvað gerist á næstu árum. Kannski gerist ekki neitt, en ef eitthvað gerist þá er áhugaverðara að hafa það skjalfest og þá með tilheyrandi timestamp.

Skrifað 16. desember 2012, klukkan 17:53: Ég hef á tilfinningunni að síðar á lífsleið minni eigi ég eftir að missa annaðhvort aðra höndina eða báðar!

Síðan ég flutti til borgarinnar hafa augu mín ítrekað logið að mér og fólk sem ég er í þann veginn að mæta virðist handalaust. Fólk sem er í raun með allar sínar hendur og putta og jafnvel fleiri en náttúran gerir ráð fyrir, kemur mér fyrir sjónir handalaust og þá kemur yfir mig þessi skrýtna óþægilega tilfinning. Þetta fólk er yfirleitt kannski í 5-10 metra fjarlægð frá mér og er að ganga gegnt mér. Svo þegar ég mæti því og sé að hendur og puttar eru á sínum stað slær á þessa tilfinningu og ég afgreiði upplifunina sem skekkju í skynjun minni.

Annars eru allir á mínu heimili bara komnir í fyrirtaks jóla- og hátíðarskap. Búinn að láta hendur standa fram úr ermum, bakaði sörur og núna næst eru það piparkökur.

Flamenco dauðans

Jul
07

Fyrir 12 árum síðan stoppaði ég inntöku á hugbreytandi efnum sökum smávægilegra vandræða þeim tengdum. Þrátt fyrir það hef ég síður en svo hætt að gera mig að fífli í public. Það er ómetanlegt að fá að upplifa með fullri meðvitund hversu mikill fábjáni maður getur verið.

Fyrr í þessum mánuði fékk ég í heimsókn til mín mjög kæra vinkonu og til að hafa ofan af fyrir henni tók ég hana með mér ásamt annarri vinkonu minni til að sjá Flamenco dans á litlum stað sem heitir Cafe Del Duende. Ég hafði áður farið á þennan stað og var þá að sjá Flamenco í fyrsta skipti á ævinni. Ég var þá í för með heimamönnum sem sögðu mér að þessi staður væri ekki þekktur fyrir einhvern túristaflamenco heldur væri þarna fluttur hinn eini og sanni Flamenco, eða Flamenco auténtico. Sá flutningur hafði gríðarleg áhrif á mitt kórazón. Þrátt fyrir að skilja ekki alveg textann, skynjaði ég í gegnum sönginn og dansinn, ástina og sorgina. Hið mannlega ástand.

Við settumst við borð til hliðar við sviðið. Á borðinu var blóm sem ég gaf engan sérstakan gaum. Fyrir miðjum staðnum voru þéttvaxnar konur með afar vel nærðum börnum sínum. Þau voru búin að setja saman 2-3 smáborð og búin að dekka þau með allskonar skyndibitamat sem þau tróðu í andlitið á sér meðan Flamenco-inn var fluttur. Ég heyrði ekki betur en þau töluðu þýsku. Í fyrirlitningu, fullur af einhverju ímynduðu menningarsnobbi, leit ég á þau og hugsaði þeim þegjandi þörfina. En hvað þau eru ófín! Sitjandi hérna á einum fínasta Flamenco stað í allri Valencíuborg gúffandi í sig ruslfæði. Aumingja Flamenco listafólkið sem neyðist til að kasta perlum sínum fyrir þessi SVÍN.

Flamenco flutningurinn var magnþrungnari en í fyrra skiptið. Söngvarinn sagði söguna af þrautagöngu mannsins, erfiðleikum hans í samskiptum við sína heittelskuðu og á meðan dönsuðu karl og kona með miklum tilþrifum. Þvílík upplifun. Þvílíkur taktur. Ég gaut augunum í átt að græðgisfullu þjóðverjunum sem voru rétt í þann mund að klára frönsku kartöflurnar. Þau horfðu tómum augum á Flamenco dansarana og skildu ekki neitt í neinu. Menningarlausa pakk! Ég hnussaði innan í mér af vandlætingu.

Dansinum lauk og salurinn klappaði og klappaði. Ég klappaði og hreifst, ölvaður af gleði og sorg. Blómin flugu á sviðið frá nærliggjandi borðum. Ég áttaði mig þá á hvers vegna það lá blóm á borðinu, greip það og kastaði því. Eitthvað hef ég verið fucktarded í hendinni minni því í staðinn fyrir að lenda fyrir fótum listamannanna, lenti blómið beint í hausnum á karlkyns dansaranum sem leit umsvifalaust í áttina að mér með hatur í augunum. “Voy a matarte!” – öskraði hann á mig með allri sinni tilveru. Ég ætla að drepa þig! Ó mig auman hvað ég er mikið fífl. Ég vildi að jörðin gleypti mig. “Svona gleyptu mig jörð!” grenjaði ég í gólfið. Flamenco dansarinn sópaði upp blómunum og gerði sig líklegan til að kasta þeim í mig á leið sinni af sviðinu. “Ó hann ætlar að troða þessum blómum í öndunarfærin á mér!” gargaði ég. En hann strunsaði fram hjá mér.

Svona náði ég að eyðileggja einn þann flottasta Flamenco flutning sem fluttur hefur verið í allri Valencíuborg. Ekki skyndibitaétandi þjóðverjarnir eða taktlausu bretarnir, heldur ég, hinn fágaði listunnandi. Síðar um kvöldið, lamaður af sorg, náði ég tali af Flamenco dansaranum og bað hann afsökunar: “Perdóname, yo soy torpe!” Hann sagðist ekkert reiður, en ég trúi honum ekki.

Einhversstaðar hérna í Valencíuborg er Flamenco dansari sem hatar mig.

10 ráð til að hætta að hata

Jun
05

Helstu sérfræðingar í andlegum málum geta verið sammála um að hatur kemur verst niður á þeim sem hatar. Ekki er gott að hata, ekki nema að viðkomandi sé fokking fábjáni, þá er það í lagi. Undanfarnar vikur hef ég hatað heil reiðinnar býsn. Ég hef þrætt internetið og hatað og hatað. Ein besta remedían við hatri, þegar hatrið kraumar í mér eins og í djúpsteikingarpotti, er að fara tildæmis á vefsíðuna dv.is, velja mér þar frétt af handahófi og skrifa athugasemd sem gerir öllum grein fyrir hversu mikill snillingur ég er og hversu miklir fávitar allir aðrir eru. Ég kalla þetta tímamótaathugasemdir, og ég vinn að því að skrifa þær rétt eins og doktorsnemi vinnur að doktorsritgerð. Með því að gera þetta líður mér aðeins betur í sálinni minni. Það kveiknar lítið ljós innra með mér og það hlær og hlakkar í mér. Þetta reynist líka vera ein besta leiðin til að létta á þrýstingnum í höfuðkúpunni, þrýstingnum sem verður til þegar maður er búinn að hata yfir sig.

Í ört vaxandi róstursömu samfélagi er erfitt að hata ekki. Ég vakna tildæmis léttur í lundu á hverjum morgni blístrandi lítinn lagstúf. Eftir að renna í gegnum stöðuuppfærslur á facebook er mér ljóst að heimurinn er fullur af allskonar drasli sem er beinlínis nauðsynlegt að hata og hneykslast yfir. Þetta hatar sig ekki sjálft! Í dag var tildæmis yndislegur dagur fyrir hatara. Einhver aumur öryggisvörður var filmaður þar sem hann var að kasta manni á dyr. Andskotans krípið. Hann snappar í beinni útsendingu. Aldrei færi ég að snappa svona. Skiptir einu þó ég væri í hans aðstæðum, ég færi ekki að missa kúlið svona gersamlega.

Nú og svo í gær eða fyrradag hataði ég Stöð 2 svo mikið. Djöfulsins aumingjarnir. Hvað er að þessum spyrjendum. Algerir hálfvitar. Ég væri ekki svona mikill hálfviti.

Í síðustu viku hataðist ég út í Grétu júróvisjón söngvara. Hvað er eiginlega að henni. Afhverju barðist hún ekki fyrir mannréttindum Bakubúa. Ég hefði sko lesið yfirlýsingu á fréttamannafundi og sagt öllum til dauðans djöfulsins syndarinnar. Já, það hefði ég sko gert.

Það líður ekki sá dagur sem ekki er hægt að finna einhvern eða eitthvað til að hata.

Það er hinsvegar alveg andstætt minni trú að hata. Ég trúi á ástina og kærleikann. Því hata ég að hata.

Veflókar Comments Off on 10 ráð til að hætta að hata

Vegur ástarinnar

May
28

Ég er svo nær alveg hættur að skrifa um vangaveltur mínar, nema þá á Facebook. Það er dapurlegt, sérstaklega þar sem ég er nokkuð viss um að Facebook verði ekki til eftir nokkur ár. Hvað verður þá um allt gúmmilaðið sem fólk keppist við að setja þar inn?

Ég byrjaði að skrifa blúbb 2002, og þó ég hafi lítið skrifað hér síðustu 2 árin, eru skrif mín þar á undan ágætis heimild um hvað ég var að hugsa og gera.

Megnið af mínum skrifum fjalla beint eða óbeint um þá tilvistarkreppu sem ég hef verið í síðan ég man eftir mér. Nú er ekki svo að skilja að ástæðan fyrir dræmum skrifum sé sú að ég sé búinn að finna ótakmarkaða uppsprettu af friði og kærleik og að í sálu minni sé ekki lengur pláss fyrir hatur, hégóma eða dauðaóskir gagnvart fótgangandi fólki sem ekki tekur tillit til súperhlaupara sem þarf að komast hratt og örugglega leiðar sinnar. Það er ekki svo.

Ég mun því halda áfram að skrifa um yfirburði mína á andlega sviðinu. Hvernig ég leysi úr málum af sérstakri yfirvegun og sanngirni öðrum til eftirbreytni. Í framtíðinni verður þetta blogg uppflettirit fyrir þá sem vilja ganga veg ástarinnar.

Mig dreymdi einkennilegan draum

Feb
11

Í nótt dreymdi mig einkennilegan draum. Mig dreymdi að ég gæti tekið af mér typpið og notað það sem barefli. Í draumnum var það töluvert stærra en það er í raunveruleikanum og á litinn eins og rautt bjúga. Ég man að ég otaði því að einhverjum sem ég átti sökótt við og hótaði honum öllu illu. “Nú lem ég þig fanturinn þinn!” gargaði ég og gerði mig líklegan til að berja á honum. Viðkomandi hrökklaðist í burtu. Þegar ég var orðinn einn reyndi ég að festa typpið á mig aftur, en það gekk brösulega. Ég gaufaði með það í klofinu á mér og vonaðist til að það skyti rótum, en allt kom fyrir ekki. Ég man ég hugsaði með sjálfum mér að líklega þyrfti ég að fara á spítala til að láta sauma það aftur mig – mikið hvað það yrði nú neyðarlegt. Svo vaknaði ég.

Ég velti fyrir mér hvort þessi draumur tengist þeirri hugsun minni að kynhvötin flækist fyrir og jafnvel eyðileggi samskipti fólks. Hvernig tengsl manna á milli væru ef kynfærin væru á bak og burt. Þar sem fleiri en einn koma saman liggur alltaf í loftinu sá möguleiki að njugga saman kynfærum. Mikið væri gaman að vera laus undan þessu.

Tortímandinn

Jan
29

Ég hef lengi velt því fyrir mér hvers vegna Tortímandinn, úr samnefndri kvikmynd, birtir sjálfum sér textaupplýsingar á ensku? Í hvaða tilfellum þurfa tölvur að lesa upplýsingar af sínum eigin skjá? Er þá ekki nóg að skjóta hann í augun? Þá getur hann ekki lengur unnið úr upplýsingum, leitað í gagnagrunni, gúgglað, osfrv. Er öllum nema mér sama um þetta?

Skallameðal

Sep
23

Nýjasta nýtt í vísindunum er byltingarkennt meðal sem læknar einn þann ógeðslegasta kvilla sem þjakað getur karlmann: Alopecia – en það er stigvaxandi hárlos sem veldur með tíð og tíma skalla sem dregur viðkomandi félagslega til dauða. Sem er gott! Því enginn vill hafa neitt saman við mann með skalla að sælda. Þeir eru ógeðslegir og svo þjakaðir af minnimáttarkennd að það er ekki verandi í félagi við þá.

Ég var rétt rúmlega 23 ára þegar ég var orðinn það þunnhærður að ég ákvað eftir bollaleggingar við þáverandi vini(ég veit ekkert hvað varð um þetta fólk) að raka á mér hausinn. Þetta hefur verið um 1993 og þá var enginn alveg sköllóttur nema Bubbi Morthens og Terry Savalas. (Jú, kemur heim og saman – Terry Savalas lék með hinum brosgleiða Ernest Borgnine í áður nefndri mynd: The Dirty Dozen, eða Tylft af drulluháleistum eins og hún heitir á íslensku.) Á sama tíma missti ég u.þ.b 20 kíló, þannig að sögusagnir um eyðni og krabbamein voru óumflýjanlegar.

Karlmenn sem hingað til hafa verið svo ólukkulegir að fá skalla langt fyrir aldur fram þurfa ekki lengur að gráta í koddann sinn og loka sig af frá umheiminum því þetta hræðilega vandamál hefur verið leyst af færustu vísindamönnum heimsins. Og ekki nóg með það. Menn eins og ég sem komnir eru á gamalsaldur geta nú loksins farið að láta sjá sig á mannamótum. Því þetta meðal virkar ekki eingöngu á menn á byrjunarstigi, heldur líka á þá sem eru fyrir lifandi löngu orðnir sköllóttir. Þess verður því ekki langt að bíða þar til skallagripir sem til þessa hafa einvörðungu sést læðast meðfram veggjum sköllóttir og ógeðslegir, sjáist nú sprangandi hnakkakertir og borubrattir um göturnar, með kellingar upp á arminn, sveipaðir þykku fallegu hári sem nær langt niður á rass.

Svo deyjum við.

Paul Simon, öldrun og dauði

Sep
16

Það snerti fíngerða strengi í mínu kórazóni að sjá myndband af Paul Simon flytja Sounds of Silence í New York 11. september síðastliðinn. Ekki þó vegna þess að athöfnin væri svo tilfinningarþungin og lagið svo fallegt, heldur vegna þess að Paul Simon sem eitt sinn var svo huggulegur og aðlaðandi er orðinn gamall og hrumur hálfútbrunninn kall. Hann hljómar líka eins og hann lítur út. Að eldast er andskotans tík. Ég sé öldrun hvert sem ég lít. Ég man ekki eftir að hafa verið svona upptekinn af öldrun þegar ég var á þrítugsaldri. En nú þegar ég sjálfur er orðinn rúmlega fertugur og síðustu 10 ár hafa liðið svo ægilega hratt – hugsa ég varla um annað en hrörnun og dauða.

Ég hef aldrei þótt sérstaklega myndarlegur, eða í það góðu formi að stúlkur eltust við mig til að nota mig til kynlífsiðkana. Ég er því ekkert sérstaklega viðkvæmur fyrir því að eldast og verða ljótari. En mér er umhugað um heilsuna mína. Ég geri ráð fyrir að kaldhæðni lífssins sjái til þess að ég þurfi að ganga þess jörð miklu lengur en ég kæri mig um. Ég ætla því reyna að eldast vel og minnka líkurnar á því að ég eigi eftir að veikjast þegar ég eldist.

Samkvæmt almennu áliti fólks þykir eðlilegt að veikjast samhliða því að eldast. En ég er ekki svo viss. Eftir að hafa kynnt mér málið rækilega sýnist mér ég ekki þurfa að veikjast og þjást frekar en ég vil. Með því að temja mér heilbrigðan lífsstíl trúi ég að ég geti spornað við hrörnun og lifað ævintýralífi þar til ég drukkna í sjóslysi eða hrapa fram af kletti. Ég hleyp daglega, borða hollan mat og reyni eftir fremsta megni að hugsa fallegar hugsanir. Það vona ég að verði til þess að ég þurfi ekki í ellinni aðstoð við að hafa hægðir. Ef fólk aðeins vissi hversu mikill munaður það er.

Veflókar Comments Off on Paul Simon, öldrun og dauði

La muerte

Sep
08

Nú er ég búinn að eiga heima á Spáni síðan í október á síðasta ári. Ég bý í litlu krúttlegu þorpi þar sem meðalaldurinn er 80 ár. Hér keppist fólk við að deyja. Þegar einhver deyr, er þartilgerðum bíl með gjallarhorni á þakinu keyrt um þröngar götur þorpsins og andlátið tilkynnt. Tilkynningin er eitthvað á þessa leið: “Senjór Gómez er dauður, hann var svo og svo gamall og bjó við þessa götu númer þetta og verður jarðaður í eftirmiðdaginn. Svona er lífið. Bla bla bla. Adios.” Svo gefur bílstjórinn á dánartilkynningarbílnum í og spólar yfir í næstu götu þar sem andlátið er endurtekið. Það eru nokkrir karlar hérna í götunni sem sitja fyrir framan hýbýli sín og bíða þess að heyra sína eigin dánartilkynningu. Konurnar hafa engan tíma í þessháttar hangs, þær eru of uppteknar af því að halda ÖLLU gangandi. Þær hníga oftast niður í miðri matseld eða á leiðinni frá markaðnum klyfjaðar innkaupapokum. Þær eru svakalegar! Ég held annars að sé prýðilegt að deyja á Spáni.

Veflókar Comments Off on La muerte

Leirmunir unnir úr dauðum mönnum

Sep
05

Alltaf er maðurinn að búa til bissness. Nú er hægt að fá leirmuni unna úr jarðneskum leifum látinna ættingja. Langflestir vilja eðlilega láta búa til úr sér styttu af Maríu mey eða Jesúm Krist. Eitthvað hátíðlegt. Það get ég skilið. Ég sjálfur vil að úr mér verði steyptur engill með hendurnar greiptar upp til himins. Ég hef líka verið svo ægilega mikill engill í lifanda lífi – því er englastytta vel við hæfi. En það er langt þangað til. Ég á eftir að vera hér miklu lengur en ég kæri mig um. Ég hef hinsvegar samið við aldraðan föður minn að fá að leira úr honum kaffikrús. Þá get ég minnst hans í hvert skipti sem ég fæ mér kaffi. Ég heyrði ekki betur en hann tæki ljómandi vel í hugmyndina.