Barbarella

Jane Fonda var mjög kynþokkafull sem Barbarella í samnefndri mynd.
Þegar ég var í kringum ellefu ára aldurinn var ég mikill áhugamaður um kvikmyndir. Ekki bara áhugamaður heldur heltekinn lúði. Á meðan bekkjarfélagar mínir styttu sér stundir með að sniffa lím á skiptistöðinni í Kópavogi, eyddi ég öllum mínum stundum í að sinna þessu áhugamáli mínu. Ég tók upp kvikmyndir á super 8, klippti, setti hljóð saman við og lék allskyns barbabrellur.

Ég var tíður gestur í Kvikmyndamarkaðnum efst á Klapparstíg. Þar átti ég vinkonu sem hét Emelía. Hún var að mínu viti ein sú svalasta manneskja sem ég hafði komist í kynni við. Til að iðka pólítískt réttmælgi, þá tel ég öruggast að segja að hún átti afrísk-amerískan mann og litla gullfallega dóttur sem ég man ekki hvað hét. Dóttur þeirra passaði ég margoft. Í Kvikmyndamarkaðnum ól ég manninn hvenær sem færi gafst. Ég tók að mér að lagfæra slitnar myndir. Þetta voru yfirleitt kvikmyndir sem höfðu flækst í sýningarvélunum, beyglast eða brotnað úr sporunum á þeim. Oftar en ekki voru brunagöt í ramma og ramma, sem þótti æskilegt að fjarlægja. Kvikmyndirnar tók ég með mér heim í tonnavís og klippti ég í burtu skemmdirnar, límdi þær og skilaði aftur í búðina. Ég var félítill svo þetta var kjörin leið fyrir mig til að sjá nánast allar myndirnar sem til voru í leigunni. Eftir þessum leiðum sá ég tildæmis Barbarella, Taxi Driver, The Godfather, Jaws, The Deep, Close Encounters Of The Third Kind og heila dopíu af japönskum skrímslamyndum.

Ég átti Elmo st 180 sýningarvél, sem var alltaf biluð. Samt keypti ég hana nýja fyrir svo til aleigu mína. Ég hafði lengi safnað mér fyrir henni. Ég bar út 3 blöð í tveimur hverfum til að ég gæti keypt þennan dýrgrip. Í mínum huga var allt heimsins prjál lítilvægilegt í samanburði við að eignast þessa vél.
Tímarnir breyttust og myndabandaæðið tók við. Ég hélt samt sem áður tryggð og trausti við 8mm filmurnar. Ég pantaði mér myndir frá Bretlandi. Derrann hét fyrirtækið sem seldi þær. Ég átti orðið fyrirmyndarsafn af 8mm kvikmyndum. Núna í dag veit ég ekki hvað varð af þeim.
Hvar eru filmurnar mínar fínu eiginlega?
Hvar eru bernskuár mín?
Hvar er lífið?

2 thoughts on “Barbarella”

  1. well just popping in noticing the new women and the old and the new links
    nice to see ann now figures as a first image on your page….
    baci

Comments are closed.