Ég bý ennþá í rassaboru 101 Reykjavík. Ég er u.þ.b 100 skref í burtu frá Laugavegi 17, þar sem ég bjó í 4 ár. Laugavegur er þekktur útlendingum undir nafninu Puke Street. Í rassaboru Reykjavíkur býr fólk, sem finnst gott að setja í sig áfengi og eiturlyf. Þetta fólk klárar misskemmtilega vinnuviku, og til að slaka á þá drekkur það sig í ómegin. Ég hef ekki úr háum söðli að detta hvað þetta snertir. Ég tók virkan þátt í “menningarlífi” rassaboru 101 Reykjavíkur. Ég var upp á mitt allra besta 1998, þegar Klapparstígurinn skartaði þrjá af glæsilegustu drykkjubúllum landsins. Grand Rokk, Bíóbarinn og gamli góði 22, en þar sat ég öllum stundum með Þormóði við hringborð dauðans.
Þó svo ég sæti með Þormóði heilu og hálfu kvöldin, þá skildi ég ekki eitt einasta orð sem hann sagði. Jú, fyrripart kvölds náði ég að ráða í eina og eina setningu sem Móði lét út úr sér. En þegar fór að halla undir miðnætti, varð ég að láta mér duga þægilega nærveru hans. Móði var með ríka réttlætiskennd og alveg sérstaklega aumingjagóður, sem var meginástæðan fyrir því að ég fékk að sitja við hringborð dauðans.
Ég sjálfur hef ekki drukkið áfengi, eða étið gúmmilaði í næstum 7 ár. Mér er skítsama þó fólk drekki. Ég hef enga skoðun á því. Mér er skítsama, svo lengi sem ég þarf ekki að eiga félag við ofurölvi fólk, og svo fremi sem fylleríin haldi ekki fyrir mér vöku. Því er reyndar ekki að heilsa í rassaboru 101 Reykjavíkur. Hér eru haldin gillerí langt fram á nótt. Þá undantekningalaust hefni ég mín snemma að morgni, með klarinettuleik eða spilun á eftirlætis tónlist minni. Það vekur lukku.
Ég hef ekki í kjölfarið á því að breyta um lífstíl, orðið sjálfkrýndur handhafi sannleikans. Ég hef enga hugmynd um, hvers vegna við erum stödd hérna, eða tilhvers í andskotanum við lifum þessu lífi. Ef ég hef orðið uppvís af léttleika, eða ég hefi gefið mig út fyrir að vera lukkulegur, þá er það vegna þess að ég hef komist á þá skoðun að lífið er sýrður og jafnframt sjúkur brandari. Ég uni mér best, þegar mér finnst tilveran hlægileg.
Mér finnst tildæmis fyndið þegar krýndir handhafar hins heilaga sannleiks, þykjast geta útskýrt þessa tilveru með óyggjandi rökum. Sannleikurinn verandi að einhver smiðsauli hafi fæðst einhvern tímann í einhverri rassaboru í miðausturlöndum fyrir tveimur millenium, gefið sig út fyrir að vera sonur Guðs, og verið Hemma Gunn hress. Frá mínum bæjardyrum séð, örlagahelvítis vitleysa(Ætti ég að undirstrika “frá mínum bæjardyrum séð”?). Vitleysan er ekki bundin við þennan mannræfil sem fæddist(eða ekki) fyrir 2000 árum, því til er fólk sem stendur vörð um allskonar vitleysu. “Ég hef verið óhamingjusöm frá blautu barnsbeini, alveg þangað til ég fór í mína fyrstu ristilskolun, þá var eins og losnaði um óhamingjuna!” gæti einhver fín frú í vesturbænum sagt. “Hveiti og sykurneysla var mig lifandi að drepa, nú hef ég hætt, og mér hefur aldrei liðið eins vel og núna!” og manneskjan trúir því að hún sé kominn með skip sitt í höfn, eftir að hafa siglt í lífssins ólgusjó. Ef að hún er komin með skip sitt í höfn og búin að finna svar við lífsgátunni, gæti hún ekki alltént eins lagst út af og drepist bara. Ég meina hvað er eftir að gera? Hvað er hægt að gera þegar maður er kominn heim í hlað. Hvað í ósköpunum gæti gerst í næsta kapítula. Ekki neitt. Jú, hún getur setið á kaffihúsum og sagt öllum til syndanna sem eru að úða í sig hveiti og sékur.
Ég ætti ríkisdollar fyrir hvert það skipti sem ég hef heyrt: “Eftir að ég fór að ……….!”
Jæja, ég má ekki vera að þessu, ég þarf að taka glútenfríar brauðbollur úr ofninum. Eftir að ég tók út glúten, þá ……………….!