SiggiSiggiBangBang

Khaled Hosseini

Nov
25

Ég gerði tilraun til að horfa á tvær kvikmyndir í kvöld. Kyrrlátt kvöld í einstaklega gefandi félagsskap. Sú hin fyrri var The Black Dahlia. Ég sem alin var upp í dalíublómabeði suður í rassgati, átti kannski von á að þessi mynd höfðaði að einhverju leiti til mín, en því fór fjarri. Ég entist í heilar tíu mínutur yfir henni, þá var ég búinn að afgreiða hana sem óþolandi rusl.
Ég hér á árum áður, þegar lífið var mun betra en það er nú á dögum, var ég sérstaklega hrifinn af Brian DePalma. Hann á myndir sem ég elska, eins og Raising Cain með John Lithgow, The Fury, Carrie, og síðast en ekki síst Scarface. En nú er hann ömurlegur leikstjóri, sem býr til ömurlegar myndir. Skelfilegt er hvernig fer fyrir hæfileikaríku fólki.

Talandi um hæfileikaríkt fólk, þá ætla ég að vona svo sannarlega að eftirlætið mitt hann Darren Aronofsky, kúki ekki í buxurnar með nýjustu mynd sinni The Fountain, en hann gerði einmitt garðinn frægan með myndum eins og Pi og Requiem For A Dream.

Seinni myndin sem ég reyndi við var nýjasta mynd Almodovar Volver, ég gafst upp á henni eftir 30 mínútur, ekki það að mér hafi fundist hún óbærilega leiðinlega, meira það að meðfylgjandi enskur skýringatexti, var götóttur og lélegur.

Ég hef því látið af kvikmyndaglápi þetta kvöldið og ætla þar af leiðandi að gleyma stað og stund með hjálp bókarinnar The Kite Runner. Hún er um tvo vini sem alast upp í Afganistan á þeim tíma sem að viðbjóðslegir Rússar ráðast þar inn. Þetta er erfið, en jafnframt mjög hjartnæm bók um andstyggð mannskepnunnar. Þessi bók hefur vakið áhuga minn á múslimum og togstreitu þeirra í gegnum söguna.

Grátbroslegt mannkynið

Nov
23

Það er eitthvað alveg sérstaklega kynþokkafullt við þessar vísindaskáldsögur sem voru kvikmyndaðar á áttunda áratugnum. Hér gefur að líta Jenny Agutter, ekkert smá hot sem Jessica 6 í myndinni Logan’s run. Myndin gerist í fjarlægri framtíð, þar sem hámarksaldri er haldið í 30 árum til að sporna við offjölgun. Á 30 ára afmælisdeginum er viðkomandi svo sprengdur upp á þartilgerðri samkomu. Snyrtileg og jafnframt skemmtileg afþreying það.

Ég er kominn yfir þennan leyfilega hámarksaldur. Heilum sex árum, meira að segja. Er ég að þroskast eitthvað í takt við aldurinn? Það er milljón dollara spurningin. Stundum leyfi ég mér að efast.

Jenny Agutter er orðin eldgömul kelling. Pakkið sem var með mér í barnaskóla er samansafn af köllum og kellingum. Stúlkan sem ég var einu sinni brjálæðislega ástfanginn af, er orðin gömul bitur kelling. Hún telur það meira segja framför frá þeim tíma sem hún var ung, léttlynd og ævintýragjörn.

Ég get þó ekki annað en hlegið af þessu öllu saman. Enda grátbroslegt þetta líf. Ég get ekki beðið eftir því að sjá, hvað gerist í næsta kapítula.

Að lifa

Nov
20

Þrátt fyrir fögur fyrirheit um að snúa aldrei aftur til föðurhúsa, á ég miða með flugleiðavél norður í ballarhaf. Ég er búinn að lenda í mörgum ævintýrum hér í landi hinna frjálsu, þar sem smjör drýpur af hverju strái. Ég dvaldi megnið af þessum tíu dögum hjá alveg sérstaklega prýðilegu fólki í Memphis Tennessee. Kann ég þeim bestu þakkir fyrir að púkka upp á mig.

ME! Thanks for having me. You and your husband are adorable creatures.

Síðustu daga þessa ferðalags hef ég ferðast lítillega í norðrinu. Þar uppgögvaði ég að því fer svo fjarri að ég sé kominn yfir þá áráttu að gera hræðileg mistök. Það að leggja stund á að gera hryllileg mistök, er eitthvað sem ég gerði snemma að sérstöku áhugamáli og má segja að ég hafi hafið þetta tómstundargaman mitt upp á “akademískan level”, ef svo má að orði komast. Einhver skyldi ætla að hægt væri að læra af hryllilegum mistökum, en því er ekki þannig farið í mínu tilfelli. Því oftar sem ég brenni mig, því sólgnari verð ég í að leika mér að eldinum.
Svo fór ég að hugsa það í framhaldi af öllum þessum hræðilegu mistökum sem ég hef ástundað, að það að gera mistök, og jafnvel hræðileg mistök er kannski eitthvað sem er ekki svo hræðilegt, svona þegar öllu er á botninn hvolft. Þetta er niðurstaða sem ég kom niður á þegar ég keyrði Interstate 95 south, á leið minni til Baltimore. Ég gæti verið heima í hlaði að horfa á raunveruleikasjónvarp í stað þess að vera í fjarlægu landi að gera nokkur vel útilátin mistök. Og þegar ég hugsa það lengra í þessu samhengi, þá held ég taki nokkur prýðileg mistök, með tilheyrandi bömmerum fram yfir raunveruleikasjónvarpið. Því það kemur blóðinu á hreyfingu og minnir mannvesæld á borð við undirritaðan að hann er á lífi.

Porgy and Bess

Nov
08

Undanfarnar vikur er ég búinn að vera að sálast úr ógeðslegum leiðindum. Af þessum sökum ætla ég að fljúga til hennar Ameríku í morgun. Þar sem smjör drýpur af hverju strái og allir eru hressir. Svo ég ætla að leyfa mér að segja við alla sem hafa haft eitthvað af mér að segja að hoppa upp í rassgatið á sér, því ég kem aldrei aftur. Ég hef eytt meira eða minna síðustu 36 árum ævi minnar í þennan klakadröngul og þetta orðið alveg ríflega prýðilegt. Ég er farinn til Hollywood með klarinettinn minn. Þar sem listamenn á borð við undirritaðan hópast saman til syngja og tralla í óendanlegri sköpunargleði. Hér er mönnum af mínu sauðahúsi haldið niður af íhaldsömum sveitalúðum.

Ég er líka búinn að fá alla upp á móti mér hér í húsinu. En fátt er svo með öllu illt að ei boði gott, því ég hef í kjölfarið master-að að spila ‘summertime’ eftir George Gershwin úr kvékmyndinni Porgy og Bess. Porgy og Bess er kvikmynd sem breytti mínu lífi. Áður en ég sá hana var ég soldið dapur, en eftir að hafa rennt í gegnum hana þá langaði mig til að deyja. En það er sungið og trallað í henni, ó guð já, sungið og trallað, sungið og trallað. En nú ætla ég að safna óvinum í Memphis, ég var nefnilega að uppgögva alveg glænýja hálfnótu og sú uppgögvun opnar fyrir heilt safn af gömlum ættjarðarlögum.

Rúnar, láttu renna í heitt bað fyrir mig, I’m coming home.

Ég er þráhyggjusjúklingur

Nov
06

Ég hef stofnað Samtök Íslenskra Þráhyggjusjúklinga, eða SÍÞ. Við ætlum að hittast 2-3 í viku til að diskútera málin. Mér finnst kominn tími til að fólk geri sér grein fyrir að þetta er áþreifanlegt vandmál, sem þarf að leysa. Ég er númer eitt þráyggjusjúklingur og númer tvö manneskja.

Það er ýmislegt sem ég þarf að komast til botns í, eins og tildæmis afhverju Grétar Einarsson er hættur að heilsa mér út á götu. Var það eitthvað sem ég sagði? Eru það appelsínu buxurnar mínar? Hef ég fitnað? Er ég out?

Er einhver nákominn þér þráhyggjusjúklingur?

Skelfileg örlög

Nov
04

Í bók sem ég var að enda við að lesa, eru menn sem setja sig upp á móti ríkisstjórninni sendir í útlegð til Íslands. Sú tilhugsun er nóg til að fleiri milljónir manna halda sér á mottunni og lifa eftir reglum samfélagsins.

Þetta mætti kannski nota á þá sem heiminum stendur ógn af.

útferð

Oct
31

Það er ekki hægt að vera mikið meira 101, en að pissa yfir samnemendur sína í listrænum tilgangi. Það er ekki hægt að kalla sjálfan sig listamann að mér virðist án þess að handfjatla annað hvort kúk eða piss í listsköpun.
Þegar ég vann hjá hinu opinbera fékk ég að sjá video af manni upp í Heiðmörk, þar sem hann sprangaði um með einhverja gúmmí grímu, þar til hann staðnæmdist, gerði sér lítið fyrir, girti niður um sig og lét vaða þarna í grasið. Listunnendur sem voru viðstaddir þennan ófögnuð, klöppuðu af kátínu yfir þessu þrekvirki mannsandans. Bravó, bravó, þetta er svo magnað verk. Svo frumlegt. Kúkur og piss eru einmitt þau viðfangsefni sem hreyfa við fólki, og vekur það til umhugsunar um …… ég veit ekki hvað. Um gildi þess að eiga góðar hægðir. Eða að allir þurfa að kúka.

Finnst ég er svona menningarlegur þá þótti mér umfjöllun Milan Kundera um kúk í bókinni Óbærilegur léttleiki tilverunnar andskoti skemmtilegur. Öll þurfum við að fara á kamarinn, til að eiga þessa gæðastund með okkur sjálfum, en athæfið er eitthvað sem allir hafa orðið sammála um að þaga í hel. Rétt eins og um eitthvað tabú sé að ræða. Hann reyndar kallaði þetta kitch, sem er listrænn viðbjóður. Ekki að það þetta sé kannski orðið ákjósanlegt umræðuefni í fermingaveislum. En ég veit að elíta þessa samfélags, menn sem vega eitthvað í þessu þjóðfélagi hafa setið kvöldlangt á Kaffibrennslunni sálugu og rætt um gildi þess að eiga góðar hægðir.

My Latest Novel

Oct
30

Þrátt fyrir að ég hafi ekki til að bera akademíska þekkingu á tónlist, ætla ég að leyfa mér að mæla með hljómsveit frá Skotlandinu prýðilega, sem ber nafnið My Latest Novel. Í sumum lögunum er skoskur hreimur nokkuð áberandi. Söngurinn er dásamlegur. Ég gersamlega elska bönd sem skipa bæði kyn. Samsöngur beggja kyna, getur verið svo fullnægjandi, ef hann er vel lukkaður. Og þó ekki sé um samsöng að ræða, þá er það mín skoðun að það sé mikil búbót fyrir hljómsveitir þegar meðlimir eru af báðum kynum.

Ein af mínum uppáhaldshljómsveitum heitir Cursive, þar innanborðs var fallegur sellóleikari sem heitir Susan Cohen, nú er hún hætt og ekki er laust við að mér finnst bandið missa töluvert niður af aðlaðandi aðdráttarafli. Svona kannski aðeins kaldari tilfinning. Tónlistin þeirra hefur þó ekkert dalað, þrátt fyrir að blessuð stúlkan segði skilið við sveitina.

Ég er þá ekki endilega að tala um bakraddir heldur heldur meira hljómsveitir sem hafa til að bera tvo til þrjá aðalsöngvara. Eins og The Arcade Fire. Þar er samsöngurinn alveg sérstaklega vel úr garði gjörður. Ég held ég hafi hreint og beint tárast af gleði þegar ég heyrði fyrst í þeirri grúppu.

Flóttasleginn

Oct
29

Það gerist að þrátt fyrir einlægan vilja mannskepnunnar til að vera hress og kát, að henni takist það engan veginn. Því hefur verið þannig farið hjá mér þá viku sem er brátt að renna sitt skeið á enda, að það virðist ekki skipta máli hversu margar Hemma Gunn möntrur ég hef kyrjað, mér hefur síður en svo tekist ætlunarverk mitt. Það kann að hljóma einkennilega að maður af mínu kaliberi, sem sagt hefur skilið við félagasamtökin, leitist við að ná sömu markmiðum og sett eru þar innan veggja.

En fari það í grábölvað. Ég vildi óska að ég gæti sungið og dansað dægrin löng.

Nick Cave

Oct
24

Ég var staddur á kaffihúsi snemma í morgun, þegar ég fyrirhitti Nick nokkurn Cave. Ég gerði mér lítið fyrir og pissaði bara í buxurnar mínar appelsínugulu. Þetta var ósköp vandræðalegt því ég var í beinni sjónlínu við meistarann. Sök sér hefði ég verið í gallabuxunum mínum, en að pissa í appelsínugular buxur er frekar áberandi. Óheppilegt atvik af þessari stærðargráðu fór ekki framhjá jafn athugulum manni og Nick Cave. Hann starði á mig. Mér leið eins og fórnarlambi Stagger Lee, en tók þá ákvörðun að láta þetta samt sem áður ekkert á mig fá, heldur pantaði mér kokhraustur einn einfaldan kaffi latte í götumáli.

Ég var mikill aðdáandi Nick Cave hér á árum áður. Ég man þá tíð að það rúmuðust aðeins þrír listamenn í mínu hjarta, Nick Cave, Polly Jean Harvey og Tom minn Waits. Eitthvað hefur þetta breyst í seinni tíð.
Ég var tildæmis staðráðinn í að sjá bæði Nick Cave og Tom Waits á tónleikum, og eftir það mætti gróðursetja mig. Ég hef í þrígang séð Nick Cave á tónleikum, en Tom Waits hef ég aldrei séð.

Hvað segir maður við Nick Cave, þegar maður hittir hann á kaffihúsi. Er við hæfi að kasta á hann kveðju og tilkynna honum það að hann standi augliti til auglitis við einn af hans stærstu aðdáendum.
Nei, þess vegna er best bara að pissa í buxurnar. Það er áhrifarík og örugg leið til að festa sjálfan sig í minni átrúnaðargoðsins. Hver gleymir manni sem gerir sér lítið fyrir og pissar í brækurnar. Enginn. Nákvæmlega enginn.

ÉG LEITAÐI BLÁRRA BLÓMA

Oct
23

Ég leitaði blárra blóma
að binda þér dálítinn sveig
en fölleit kom nóttin og frostið kalt,
á fegurstu blöðin beit.

En ég gat ei handsamað heldur
þá hljóma sem flögruðu um mig,
því það voru allt saman orðlausir draumar
um ástina, vorið og þig.

En bráðum fer sumar að sunnan
og syngur þér öll þau ljóð
sem ég hefði kosið að kveða þér einn
um kvöldin sólbjört og hljóð.

Það varpar á veg þinn rósum
og vakir við rúmið þitt.
Og leggur hólátt að hjarta þínu
nýtasta blómið sitt.

Ég veit ég öfunda vorið
sem vekur þig sérhvern dag.
Sem syngur þér kvæði
og kveður þig með kossi hvert sólarlag.

Þó get ég annað en glaðst við
hvern geisla er á veg þinn skín.
Og óskaðasöngur, ástir og rósir
sé alla tíð saga þín.

Svenni

Oct
21

Í nótt hitti ég fyrir í draumi gamlan vin minn sem andaðist fyrir tveimur árum síðan. Hann var alveg sérstaklega kjaftfor og alveg ævintýralega skemmtilegur. Við unnum saman hjá Kópavogsbæ, fyrir ríflega hálfum öðrum áratug síðan.

Í draumnum hafði ég neyðst til að fara vinna þar aftur, vegna þess að viðskiptalífið hafði ekki borið þann ávöxt sem ég áætlaði. Ég var á leiðinni í kaffi á fyrsta vinnudeginum mínum og var búinn að kasta kveðju á nokkra sem ég kannaðist við frá fornu fari.

Inn á kaffistofu sá ég meistarann sitja í appelsínugulum heilgalla. Hann var niðursokkinn í að segja þeim er þar voru svaðilsögur, þegar ég staðnæmdist beint fyrir framan hann. “Nei, hver andskotinn, ert þetta þú kvikindið þitt?”, sagði hann þegar hann varð mín var. Hann var að reykja Rosa Danica vindil, sem var eftirlætið hans. “Ég hélt þú værir steindauður!”, sagði ég og réði mér varla fyrir kátinu yfir að fá að hitta hann aftur. “Hver í andskotanum laug því í þig?”, það skríkti í honum. Ég fór að útskýra það fyrir honum hver hefði sagt mér frá því að hann væri allur. “Nei, ég er ekki dauður eitt né neitt”, sagði hann og hló kröftuglega, þangað til hann fór að hósta.

Klukkan var orðin rúmlega 10 að morgni og ég vaknaði skælbrosandi.

Orð eins og bekenna, heilgalli, samsorta, stútkunta, legáti og drulluháleistur, eru orð sem hann Sveinn vinur minn kenndi mér að nota í bæði leik og starfi.