SiggiSiggiBangBang

Tom Waits og Woody Allen

Aug
22

Ég ætlaði að skrifa veflók um það hversu ömurlegur ég er í mannlegum samskiptum, en svo þegar ég fór hugsa þetta aðeins lengra, komst ég að því með sjálfum mér að annar hver veflókur sem ég skrifa er annað hvort um það hversu ömurlegur ég er, eða hversu ömurlegur ég er í mannlegum samskiptum. Í ljósi þess ákvað ég að skrifa ekkert um sjálfan mig heldur tala um það hversu æðislegir Tom Waits og Woody Allen eru. Ég er einmitt búinn að vera að hlusta á þá báða undanfarna viku, mér og fröken Sigríði til sérstakrar skemmtunar. Portkonan að venju ber ekkert skynbragð á tónlist, enda er hún frummanneskja, en henni finnst þó Woody og Tom prýðilegir. Woody Allen spilar á klarinett og gerir það af mikilli prýði. Ég hef áhuga á því þessa daganna að festa fé í klarinett. Ég ætla að tala um það í u.þ.b 3 vikur, en hugsanlega kem ég ekki til með að gera neitt í því. Ég er einnig um þessar mundir að tala um að ég sé á leiðinni í Ashtanga jóga hjá Ingibjörgu Stefáns. Ég er búinn að tala um að flytja til útlanda síðustu 9 ár. Ætli ég láti einhvern tímann verða af því.

Fallega og flotta fólkið

Aug
21

Ég og fröken Sigríður, sem er landsfræg bryggjubredda stundum saman viðskipti í hjarta Reykjavíkurborgar. Við leggjum allan okkar metnað í að vera flott og kúl. Ímynd okkar út á við skiptir höfuðmáli. Þegar ímynd sem þessi er byggð upp eða viðhaldið er gott að einangra sín samskipti við fólk sem jafn kúl og flott og við teljum okkur vera. Við að sama skapi reynum að forðast aukvisa sem kunna ekki að klæða sig og froðufellir þegar það tjáir sig. Að klæðast sama klæðnaði 2 daga í röð er gersamlega óásættanlegt. Það er ekki bara óásættanlegt, heldur einfaldlega ömurlegt. Það ber merki um lélega sjálfsvirðingu og léleg sjálfsvirðing er eitthvað sem á heima inn á stofnunum án undantekninga. Þetta kann að hljóma eins og hroki, en ég tel að það sé betra að leggja spilin á borðið, þó ekki nema til þess að forðast það að þurfa að eiga viðskipti við fólk sem er ömurlegt.

Á meðfylgjandi mynd má sjá undirritaðan þar sem hann er á leiðinni á viðskiptafund. Hann er rétt í þann veginn að fara að rukka margar milljónir. Hann kann að punta sig í takt við aðstæður. Takið sérstaklega eftir því hversu hundrað og einn hann er til útlits. Þessum manni verður vel tekið og honum greiddar milljónir án nokkurra véfenginga. Þessi maður er síður en svo ömurlegur. Hann er hornsteinn þeirrar ímyndar sem ég hef fjallað um í þessum veflók.

At the end of the day

Aug
18
[MEDIA=152]
Galloway on Lebanon

Barbarella

Aug
17

Jane Fonda var mjög kynþokkafull sem Barbarella í samnefndri mynd.
Þegar ég var í kringum ellefu ára aldurinn var ég mikill áhugamaður um kvikmyndir. Ekki bara áhugamaður heldur heltekinn lúði. Á meðan bekkjarfélagar mínir styttu sér stundir með að sniffa lím á skiptistöðinni í Kópavogi, eyddi ég öllum mínum stundum í að sinna þessu áhugamáli mínu. Ég tók upp kvikmyndir á super 8, klippti, setti hljóð saman við og lék allskyns barbabrellur.

Ég var tíður gestur í Kvikmyndamarkaðnum efst á Klapparstíg. Þar átti ég vinkonu sem hét Emelía. Hún var að mínu viti ein sú svalasta manneskja sem ég hafði komist í kynni við. Til að iðka pólítískt réttmælgi, þá tel ég öruggast að segja að hún átti afrísk-amerískan mann og litla gullfallega dóttur sem ég man ekki hvað hét. Dóttur þeirra passaði ég margoft. Í Kvikmyndamarkaðnum ól ég manninn hvenær sem færi gafst. Ég tók að mér að lagfæra slitnar myndir. Þetta voru yfirleitt kvikmyndir sem höfðu flækst í sýningarvélunum, beyglast eða brotnað úr sporunum á þeim. Oftar en ekki voru brunagöt í ramma og ramma, sem þótti æskilegt að fjarlægja. Kvikmyndirnar tók ég með mér heim í tonnavís og klippti ég í burtu skemmdirnar, límdi þær og skilaði aftur í búðina. Ég var félítill svo þetta var kjörin leið fyrir mig til að sjá nánast allar myndirnar sem til voru í leigunni. Eftir þessum leiðum sá ég tildæmis Barbarella, Taxi Driver, The Godfather, Jaws, The Deep, Close Encounters Of The Third Kind og heila dopíu af japönskum skrímslamyndum.

Ég átti Elmo st 180 sýningarvél, sem var alltaf biluð. Samt keypti ég hana nýja fyrir svo til aleigu mína. Ég hafði lengi safnað mér fyrir henni. Ég bar út 3 blöð í tveimur hverfum til að ég gæti keypt þennan dýrgrip. Í mínum huga var allt heimsins prjál lítilvægilegt í samanburði við að eignast þessa vél.
Tímarnir breyttust og myndabandaæðið tók við. Ég hélt samt sem áður tryggð og trausti við 8mm filmurnar. Ég pantaði mér myndir frá Bretlandi. Derrann hét fyrirtækið sem seldi þær. Ég átti orðið fyrirmyndarsafn af 8mm kvikmyndum. Núna í dag veit ég ekki hvað varð af þeim.
Hvar eru filmurnar mínar fínu eiginlega?
Hvar eru bernskuár mín?
Hvar er lífið?

Hersluhringur

Aug
14

Ég hef áður skrifað pistla um sanna karlmennsku. Ég hef einnig tíundað hvernig er æskilegt að haga sínum samskiptum í karlaheimi. Ég hef hinsvegar verið eilítið afskiptur í þessum heimi. Það vill nefnilega svo óheppilega til að í gegnum lífstíð mína hef ég aldrei í raun átt karlkyns vini sem tala fjálglega um neðri byggðir og hvernig skal bera sig að þegar á hólminn er komið. Þetta er að mínu viti galli í nauðsynlegu þroskaferli. Ég er á því að ég hafi verið svikinn, eða ég hafi svikið sjálfan mig. Stundum er munurinn þar á milli, mér mjög óljós.

Þegar ég stundaði líkamsrækt í vonlausri tilraun til að koma karlmennsku minni á kopp, þá fékk ég í kaupbæti að hlusta á samræður kynbræðra minna í búningsklefanum. Hvað gerðist helgina sem leið. Hversu mörgum tjellingum var landað osfrv. Mér þótti þetta afar merkilegt. Þetta voru vel stæltir strákar, oftar en ekki með træbal tattú og smá lit á kroppnum. Þeir voru uppfullir af sjálfsöryggi. Heimurinn var þeirra, en ég var aðeins áhorfandi.

Um helgina sem leið, sökum vinnu minnar í hörðum heimi viðskipta átti ég mjög óvanaleg samskipti við tvo karlmenn. Á einhverjum tímapunkti upphófust mjög innilegar samræður um hvernig væri að nota hinn svokallaða “cock ring” eða “arab strap”. Ég leitaði af íslenskri þýðingu sem notuð er yfir þetta áhald ástarlífssins, og komst að því að “cock ring” er kallaður “hersluhringur” á svellköldu móðurmálinu.

Einhver kann að halda að ég jafn illa áttaður og ég er, hafi fyllst hneykslan og viðbjóði yfir útlistun þessara manna, en því fór fjarri. Ég hinsvegar varð sorgmæddur í hjarta mínu, yfir því að eiga ekki alvöru karlmenni fyrir vini, sem gætu leitt mig í gegnum neðri byggðir svo ég geti borið höfuðið hátt eins og guðs barni sæmir, hamingjusamur, glaður og frjáls. Þeir vinir sem ég hef sópað að mér eru ekkert nema djöfuls teprur, sem ræða ekki um neitt sem skiptir raun og veru máli.

Já, það er heilsdagsvinna að vera ömurlegur. Það get ég sagt fullur af sjálfsöryggi.

Mótherjinn

Aug
13

Ég hef sagt sjálfum mér stríð á hendur. Ég hef í hyggju að spara engu til að vinna þetta stríð. Þessi barátta á sér hið arabíska heiti Jihad. Þegar talað er um Jihad nú á dögum er átt við heilagt stríð Múslima gegn vestrænum heimi, eða vestrænum gildum, en þessi skilningur heimsbyggðarinnar er togaður og teygður, svo ég orði það pent.

Jihad á við um hina innri báráttu sem er álitið að hver maður þurfi að heyja. Jihad er staðfesta mannskepnunnar í að breyta rétt, þó sér í lagi þar sem aðstæður eru henni sjálfri ekki hagkvæmar.

Síðustu mánuði hef ég legið í lestri á andlegum fræðiritum úr ýmsum áttum. Ég fann sjálfan mig knúinn til að reyna að betrumbæta mig í andlegum skilningi. Einfaldlega til að komast af í þjökuðum heimi. Ég hef það upp úr einu af þessu ritum að hið viðurstyggilega egó verður að deyja. Egóið eða mótherjinn eins og hann er kallaður í einum af þessum fræðum, er voldugur og bíræfinn andskoti. Mótherjinn er sá hinn sami og reynir með öllum tiltækum ráðum að knésetja manneskjuna með því að telja henni í trú um að hún sé ömurleg eða of mikið fyrirtak til að geta gengið meðal meðbræðra sinna. Mótherjinn framleiðir ótta, vænisýki, feimni, angist, óöryggi, sjálfumgleði, hégóma og þunglyndi, ásamt líkamlegum sjúkdómum sem eru oftar en ekki uppskera þess hvernig sálarlífi manneskjan lifir.

Til að drepa mótherjann er svo ég vísi beint í eina skrudduna sem ég hef verið að lesa, áhrifaríkast að klæða sig upp í trúðsbúning og gera sjálfan sig hressilega að fífli. Því meiri sem niðurlægingin er, því meiri er afraksturinn. Það kann að vera að þessi skrif mín hljómi einkennilega, og að undirritaður sé gersamlega að missa tökin á lífi utan félagasamtakanna, en ég get fullyrt að ég hef aldrei verið betur með á nótunum.

Hemma Gunn verðlaunin

Aug
11

Ég sat á kaffihúsi um daginn með hórunni henni fröken Sigríði. Við vorum í góðum fíling að ræða ýmiskonar viðskiptaklæki þegar maður nokkur kom aðvífandi. Honum var mikið niðri fyrir þegar hann beindi máli sínu að mér. Hann sagði eitthvað á þessa leið, ég ætla vona að ég hafi þetta rétt eftir.

Hann sagði: “Jæja, alltaf í boltanum?”. Ég missti andlitið og rétt meðan pússlaði sjálfum mér saman, reyndi ég að átta mig á því hvaðan ég þekkti þennan mann. Hvergi í mínum lífræna gagnagrunni fann ég samstæður við þennan mann.
“Já, Hemmi minn!” sagði hann og hló æðinsgengilega. “Er hann að gera gys að mér” hugsaði ég með sjálfum mér.

Í flestum aðstæðum geri ég sjálfkrafa ráð fyrir því að fólk sé að reyna að hafa mig að fífli. Það að ganga bara út frá því vísu að fólk sé að hæðast að mér finnst mér langöruggasta nálgunin. Ég er þá alltaf tilbúinn í átök og ef það er ekki verið að hæðast að mér, þá kemur það mér þægilega á óvart.
Taki hver þetta til sín og geri að sínu. Ég er bara hér á þessari jörð til að koma að gagni.

Þennan dag var í appelsínugulu buxunum mínu fínu sem ég keypti út í Mílanó í voða fínni búð. Þegar ég klæðist þessum buxum fæ ég oftar en ekki þá spurningu hvort ég sé hommi og í tilfelli þessa manns sem sýndi mér þennan yfirgengilega áhuga, varð ég alls ekki fyrir vonbrigðum.
“Ertu hommi?” spurði hann. Ég svaraði því til að það færi nú algerlega eftir því hver spyrði. Hann þagnaði og um stund taldi ég mig vera búinn að snúa á hann. Er sem ég hélt hann ætlaði annaðhvort að kýla mig eða hafa sjálfan sig á brott reif hann upp smokkapakka, sem hann var nýbúinn að festa fé í. Hann tilkynnti mér að þetta væru rifflaðir smokkar, sem væri sérstaklega gaman að nota í hommakynlífi. Fröken Sigríður, sem elskar allt sem er andstyggilegt skríkti af einskærri kátínu. Meiri urðu samskipti míns og þessa manns ekki.
Hann kann að hafa furðað sig á því að ég færi ekki bara rakleiðis niður á fjórar og beraði á mér óæðri endann, en ég get fullvissað hvern þann sem les þessar línur að ef það á fyrir mér að liggja að sænga með karlmanni, þá þarf eitthvað aðeins meira til að koma mér á löpp, heldur en Hemma Gunn frasar og ókeypis rifflaðir smokkar. Kallið mig pempíu en ég tel mig vera laganna megin í afstöðu mína til þessa máls.

Baghdad Burning

Aug
09

Baghdad Burning

25 ára gömul stúlka, búsett í Baghdad er ábyrg fyrir áhrifaríkasta vefleiðara sem ég hef lesið frá upphafi þessa fyrirbæris. Hún hræðist að vakna á morgnanna því þá berast henni oftar en ekki fréttir af fólki sem látist hefur í nágrenni hennar. Fólk sem hún jafnvel þekkir og stendur henni nær. Í einni færslu missti hún vin sinn, sem var þrátt fyrir ástandið, vongóður, kátur og upplífgandi fyrir alla sem hann þekktu. Henni bárust email frá honum eftir að hann lést, og um stundarsakir kom henni til hugar að hann væri kannski ekki dáinn og tilkynningin um andlát hans hefðu verið mistök, þegar hún athugaði dagsetningarnar betur, komst hún á raun um að þau voru dagsett deginum áður, fyrir dauðsfallið.

Þetta fær mig til að hugsa. Mannanna hégómlega prjál. Sér í lagi hérlendis. Hér á Íslandi keppast allir við að steypa sér í skuldir, til að byggja upp ímynd sem þeir upplifa að geri þeim kleift að arka um göturnar borubrattir. Ímynd sem þegar öllu er á botninn hvolft skiptir engu máli, því hún varla fylgir viðkomandi eftir yfir móðuna miklu. Þeir hinsvegar sem ekki hafa ráð á að steypa sér í hégómlegar skuldir, kvarta sárann yfir því að geta ekki steypt sér í skuldir eins og hinir sem að þeim virðast hafa stóra og reisulega sjálfsvirðingu.

Ég er enginn eftirbátur hvað þetta snertir. Ég er stútfullur af hégóma. Er í sífellu með miklar áhyggjur af því hvort ég er of feitur eða hvernig afkoma mín kemur til með að vera, osfrv. Ég veit ekki hversu gott ég hef það. Ég hef það nefnilega alveg djöfulli gott. Ég hef satt best að segja aldrei búið við meira öryggi. Ekki nema þegar ég var polli heima í Löngubrekku. Ég hef aldrei verið betri til heilsunnar. Ég hef aldrei verið betur áttaðri á því hvar ég stend og hvert ég vill fara.

Samt sem áður, leyfi ég mér það að grenja yfir smæstu atriðum. Ó, ég er svo einmana. Ó, ég er svo feitur. Ó, ég er svo asnalegur.

Til helvítis með þetta. Ég hef það fínt. Ég þarf ekki að hafa áhyggjur af því að það fólk sem mér þykir vænt um sé sprengt í loft upp í tilgangslausu stríði.

Landsamband riðla

Aug
06

Ég fór með rangt mál í síðustu færslu. 50FOOTWAVE er ein af þeim hljómsveitum sem Kristin Hersh er í. Fyrsta albúm þeirra heitir “Free Music”.

Ég skemmti mér alveg prýðilega á tónleikum Throwing Muses. Ég kann Fóstradamus enn og aftur þakkir fyrir. Það var gaman að sjá hana Kristin Hersh. Hún er stórglæsileg, komin á fimmtugsaldur. Ég hef meira fylgst með sóloferli hennar og á mér þann draum að sjá hana spila sóló. En það var heljarinnar kraftur í Throwing Muses og undirritaður dillaði sér fram og aftur eins og oft þykir við hæfi á tónleikum sem þessum.

Eftir tónleikana fór ég á kaffihús með félögum mínum. Ég fékk þá til að uppfræða mig um hvernig koma eigi kvenfólki til. Það vill svo óskemmtilega til að ég kann engan veginn að stíga í vænginn við konur. Mig er farið að gruna að bein tengsl séu milli þess hversu ömurlegur ég er og hversu illa mér gengur að ganga í augun á kvenfólki. Þessir félagar mínir hafa verið sæmdir heiðursverðlaunum samnorrænna samtaka riðla. Þeir gátu þar af leiðandi sagt mér hvernig ég kæmi breddum til, en það er nafngift sem þeir nota yfir konur. Ég er þessum félögum mínum ævintýralega þakklátur fyrir að sjá aumur á mér. Það stendur ritað í Kabbalah að þráin til að gefa af sér skjóti sjálfum dauðanum ref fyrir rass. Hafa félagar mínir svo sannarlega skilað af sér góðu dagsverki í þágu mannkyns.

Throwing Muses

Aug
04

Þess ber að geta að nýjasta plata Throwing Muses er hægt að ná í frítt á alnetinu prýðilega. Hún heitir 50FOOTWAVE og hana er hægt að ná í innanlands hér.

Það vill einmitt svo skemmtilega til að ég ætla að fara annað kvöld og sjá hana Kristin mína Hersh. Hún er ekki neinn aukvisi né er hún eftirbátur. Hún er frumkvöðull þeirra kvenmanna sem yfirgefa ekki heimili sitt án þess að vera búin dúkahníf, ef ske kynni að þær þyrftu að koma sjálfum sér fyrir kattarnet. Þetta er þankagangur sem mér þykir afskaplega hagkvæmur. Hver veit hvað kemur upp í hita og þunga dagsins, maður gæti jú þurft að kúpla sig endanlega út og er þá ekki gott að vera með dúkahníf í buddunni. Konur af þessu tagi hafa haft einstaka hæfileika til að koma undirrituðum til. Það er eitthvað innra með mér sem fer rakleiðis í gang. Hjarta mitt tekur kipp og ég vill óður og uppvægur umfaðma viðkomandi að mér, í óendanlegri áður óþekktri hamingju.

Leiðinlegar bókmenntir

Aug
02

Mér leiðist skelfilega þessa daganna. Ég yfirleitt uni mér vel í félagi við sjálfan mig. Það kann engri undrun að sæta. Ég í mínum eigin félagsskap er hress og opinn í alla enda. Ég syng, dansa og dásama það að vera til. Núna hinsvegar leiðist mér. Ég þarf að velta því fyrir mér hvernig ég get drepið tímann þangað til ég hverf á vit ævintýra í draumaheiminum mínum prýðilega.

Þegar ég upplifi vökuna sem helber leiðindi, dreymir mig oft mjög hressilega. Mig dreymir að ég sé leyniþjónustumaður í fjarlægum löndum, með allt á tæru. Ég þarf að leysa afar flókin verkefni sem ég einn er fær um. Í þessum draumum sem eiga að bæta mér upp helvítis leiðindin sem ég upplifi yfir hábjartan daginn, tekst mér yfirleitt að ná betri stjórn atburðarásinni, en ef um venjulega draum væri að ræða. Mér gengur að sama skapi allt eftir sem ég reyni í draumnum. Ég er umvafinn kvenfólki og manneskjum sem vilja ólmar eiga mig sem trúnaðarvin. Líf mitt öðlast að einhverju leiti fullnægju sem ég missi af meðan ég þarf að halda mér vakandi.

Hversu mikið ætli sé að marka draumfarir. Ég oftar en ekki hef dreymt að tennurnar séu að detta úr mér. Samkvæmt andlegum fræðiritum sem ég hef gluggað í, þá er manni uppálagt að skoða gang sinn sérstaklega vel ef maður missir tennurnar í draumi.

Í einhverju fræðibókmenntum sem ku vera álíka leiðinleg aflestrar og Mein Kampf eftir Adolf Hitler, er línan “Hver er ég til að segja, að guð sé ekki til?”. Hver tengslin milli þeirrar línu og draumfara er, veit ég ekki. Mér fannst ég bara þurfa að koma því áleiðis að leiðinlegri bók hef ég ekki hálfpartinn lesið, heldur en málgagn félagasamtakanna. Tilhvers ég þurfti að koma því áleiðis, er mér alger ráðgáta.

Guð, draumfarir. Ætli niðurstaða mín sé ekki sú að ég þegar mér leiðist daglegt amstur, þá þarf ég mikið á því að halda að tileinka mér þankagang sem slítur mig frá öllu því sem ég tel að skipti máli í heimi hér og finni mér líf í andlegum heimi, fjarri tísku og eril mannfólksins.

Kjölturakkar

Jul
29

Mér er það minnistætt, hérna endur fyrir löngu. Á þeim tíma þegar lífið var í svart hvítu og allt var mun betra en það er núna. Þegar ég var hluti af heild. Þegar ég réri ekki einn fleyi mínu í lífsins ólgusjó. Þegar mér var vel tekið sem manni á uppleið í samtökum iðnaðarins.

Mér er það hugleikið þegar ég sat þessa fundi. Ég get ekki fyrir mitt litla líf sagt að mér hafi fundist ég vera vel staðsettur í lífinu. Og þegar ég hugsa þetta aðeins lengra, þá hef ég kannski aldrei verið vel staðsettur hvar í andskotanum sem ég hef verið.

Ég hef prufað að vera innan um mjög ólíka menningarhópa. Þegar ég var í gyðingalandi í hebreskuskóla með amerískum gyðingum, þá gekk allt út á það að vera gyðingur. EKki er ég gyðingur. Samt sat ég þarna með gyðingum í einhverjum gyðingaskóla, að rembast við að samhæfa með fólki sem átti sér allt annan bakgrunn en ég. Ég gaf mig ekki út fyrir að vera gyðingur. Ég var þarna staddur til að læra hebresku. Ég var hugfanginn af landi og þjóð og vildi vita meira út á hvað þetta gekk. Ég veit samt ekki nákvæmlega hvers vegna. Það er margt í mínu lífi sem ég kann enga skilgreiningu á.

Þegar óhjákvæmilega ég neyddist til að starfa hjá akademíunni, fann ég satt best að segja aldrei fyrir því að ég væri kominn heim í hlað. Eins og ég segi, ég sat þarna bara einungis vegna þess að ég hafði ekki neinar betri hugmyndir um það hvað ég ætti að gera í þeirri stöðu sem ég hafði svo sannarlega komið sjálfum mér í. Hvernig sem það útleggst. Þá á seinni kafla lífshlaups míns, hafði ég allar þær upplýsingar sem ég þurfti til að taka betri stefnu í lífinu. Samt sem áður kaus ég meðvitað/ómeðvitað að halda áfram að haga mér eins djöfuls fífl.

Mér hefur ekki fundist mér vera upphefð í því að kalla mig meðlim í félagasamtökunum. Ég hef aldrei verið hress. Ég hef ekki verið álitinn stuðbolti, hvar svo í andskotanum sem ég hef verið niðurkominn. Ég get ómögulega fengið það af mér að gelta og ýlfra yfir því þegar einhver segir eitthvað sem allir eiga (einungis vegna þess að þeir stunda sömu samkomu) að samhæfa með.

Jú, ég veit hvernig í pottinn er búið. Ég veit hvers kyns er. Það eitt og sér gerir það ekki sjálfkrafa að verkum að ég hugsi og tækli allt sem ég þarf að takast á við á sama máta og allir hjá félagasamtökunum. Ég sé engan sérstakan mun á þessu og öðrum hópum þar sem öllum mannlegum tilfinningum er safnað saman í einn sarp, sem er meðhöndlaður á einn ákveðinn máta sem virkar fyrir alla sem gelta og ýlfra í hvert skipti sem einhver segir eitthvað sem 90% af mannkyni gæti þess vegna samhæft með.

Skiptir það mig máli hvort einhver sem les þetta skilji hvað ég er nákvæmlega að tala um. Nei, nákvæmlega engu. Ég skrifa þessa veflóka undir rassgatið á mér mér mér. Mér er fokk off sama hvað hverjum finnst um það. Ég man að um páskana tók sig einhver til úr samtökum iðnaðarins og skeit í athugasemdakerfið mitt fína og prýðilega, vegna þess að viðkomandi tók færsluna persónulega til sín. Ég fæ ekki skilið hvers vegna. Það kann að þykja fínt að setja sig á stall innan félagasamtakanna sem andans maður, vafra svo um vefinn og svívirða aðra fyrir það að vera ekki jafn andlegir og viðkomandi. Ég get sagt það strax, að frekar vill ég bara skíta í buxurnar heldur en að öðlast þau andlegu forréttindi.