SiggiSiggiBangBang

Mistök dagsins

Apr
08

Í kvöld laumaðist ég út úr húsi, sem ég reyndar geri ógjarnan. Af þessu tilefni fór ég með druslunni henni fröken Sigríði og hinum glæsilega unga herramanni Zeranico í bíóhús að sjá prýðismyndina V for Vendetta. Zeranico var afskaplega vel til hafður, íklæddur sjakkett og bol sem mér fannst alveg sérstaklega eitthvað 101. Sigríður var að sama skapi uppábúin í föstudagsgallanum tilbúin til stórræða. Ég hinsvegar finn það sterkt með sjálfum mér að ég þarf fyrr en seinna að uppfæra í wardróbinu mínu, sem er fyrir löngu úr sér gengið og jafnvel til háborinnar skammar. Ég sem hef haldið út vel til vönduðu matarræði síðan um áramót, ákvað að ekki er hægt að fara í bíóhús án þess að festa fé í Coca Cola og poppkorni. Ég get svosem ekki séð að ég hafi haft mikla slæmsku af, og er ekki laust við að ég sé allur hinn hressasti. Er myndinni lauk var til staðar áður óþekkt stærðargráða af gleði sem varð þess valdandi að við brunum leið sem liggur niður á Kaffibrundsluna svokölluðu. Ég hefði betur látið það vera, því þar var fullt af fólki sem ég neyddist til að eiga samskipti við.

This Divided State

Apr
05

Í tilefni þess að ég er að fara til U and S of the A, ekki á næsta laugardag heldur þarnæsta horfði ég á heimildarmyndina This Divided State sem gerist í mormónaríkinu Utah. Myndin gerist fyrir forsetakosningarnar í samfélagi þar sem 75% ábúendur eru mormónar og pólitískt hlutfall eru 12 repúbblar á móti 1 frjálslyndum. Tveir fulltrúar í nemendaráði háskóla sem telur 25.000 nemendur, – ákveða að fá Michael Moore til að koma sem pólítískan fyrirlesara. Það skiptir engum togum. Hinir “picket fence Jesú hinna síðari daga heilugu elskendur” missa gersamlega glóruna og þegar líður á myndina verður mér það ljóst að maðurinn sama hvaða nafni hann nefnir sig er viðbjóðslega þenkjandi dýr. Þessir tveir hugrökku ungu menn sem hafa sinnt sinni trúboðsskyldu er þegar líður á uppákomuna hótað lífláti og limlestingum af sannkristnum kirkjufélögum sem álíta sem svo að herra Moore sem ég þekki af góðu einu sé anti- amerískur offitusjúklingur(hið síðarnefnda er reyndar ekki alveg út í hött). Þeir láta þó engan bilbug á sér finna, heldur herða frekar róðurinn til að verja stjórnarskránna. Þetta er mjög merkileg mynd sem ég get mælt með við þá sem hafa gaman að fólki sem er gersamlega út á túni í mótsögn við sjálft sig. Ég verð að viðurkenna að ég spenntist oft upp yfir helvítis vitleysunni í repúblíkönunum. Andskotans fífl eru þeir nú. Fer mér afskaplega vel að alhæfa og útlista mig svo sem mann með opinn huga.

Fóstradamus!!! Þetta er mynd fyrir þig.

Deepak Chopra

Apr
04

Ég hafði gott eitt í hyggju er ég lagði af stað til læknisins, en það var eins og við manninn mælt að um leið og ég hóf samtal okkar sá ég mér ekki annað fært en að tilkynna honum það að ég hefði enga trú á stéttinni. Ég get ekki mælt með þessari nálgun og ég hefði satt best að segja mátt vera með aðeins meiri meðvitund en að fara gjamma einskisverðar skoðanir mínar á þessari raunastundu. Hann brást illa við og í sekúndubrot hélt ég að hann ætlaði að hjóla í mig. Eftir að ræða ítarlega heilsufar mitt fram og tilbaka um víðan völl, komumst við að þeirri niðurstöðu að betra væri að gera nákvæmlega ekkert í þessu. Ég spurði hann hvort ekki væri hægt að hafa áhrif á ónæmiskerfið með einum eða öðrum hætti. Hann talaði um óhefðbundnar aðferðir sem vísindin kynnu enga skýringu á og þar sem hann væri maður vísindanna gæti hann ekki gefið mér þessháttar ráð. Reyndar þegar ég fer að hugsa þetta aðeins betur, þá átti ég ekki við hvort hægt væri að hugleiða í sig sterkari brynju gagnvart vírussýkingum og annarri viðurstyggð, heldur var ég meira að hugsa um hvort hvítlaukssnafsinn minn eða fræbblasúpa gæti ekki stuðlað að betri heilsu. Ég drap stemmninguna með því að spyrja hann þá hvort ekki væri þá best fyrir mig að lesa Deepak Chopra frá A-Ö, en það var einmitt á þeirri stundu sem læknirinn áttaði sig á að hann var með fokking fávita inn á kontór hjá sér. Hann kvaddi og bað mig vel að lifa. Ég verð að segja að þrátt fyrir ótrúlegt getuleysi mitt í mannlegum samskiptum þá var þetta afskaplega frískandi heimsókn.

10 dagar í Memphis

Apr
04

12 dagar í viðurstyggilegum veikindum og 10 dagar í ferð mína til Memphis. Það er ekki laust við að ég sé gráti nær af sorg yfir þessum veikindum sem eru nú farin að menga þá hugarró sem ég bý við að öllu jöfnu. Ég hef ekki prufað að garga, en ég hef heyrt vel af því látið. Ég hef þó ekki setið auðum höndum frekar en fyrri daginn og er ég nú búinn að þróa nýja tegund af heilsusnafs sem er alveg sérstakt eintak af viðbjóði. Eitt skot samanstendur af 1-2 sítrónum eða ferskum sítrónusafa, 5 rif af hvítlauk, 3 únsur af ólífuolíu og 1/4 úr teskeið af Cayaenne pipar. Þessu er síðan skellt í blandara eða matvinnsluvél og látið gutla í minnst 5 mínútur. Best er að teyga drykkinn í skömmtum, en súpa af vatnsglasi á milli. Það er svolítil kúnst að halda þessu svo öllu niðri, en vel þess virði. Síðan ég byrjaði á þessu, finnst mér ég allur vera að hressast, en þó ekki nóg svo ég hef pantað mér tíma hjá lækni. Ég hef ENGA trúa á heimilislæknum í svona málum, en ég læt mig hafa það, þá kannski sérstaklega vegna þess að ég finn hjá mér taumlausa löngun til að væla í einhverjum, þó svo að viðkomandi fái borgað fyrir greiðann og þarf að þola viðbjóðslega hvítlauksfýluna af mér sem ég er orðinn gersamlega ónæmur fyrir.

Húsið á sléttunni

Apr
03

Þá er mál til komið að verða sér út um öll season af Húsinu á sléttunni. Þetta sjónvarpsefni ólst ég upp með og ekki hægt að neita því að ég hafi orðið að betri manni fyrir vikið. Húsið á sléttunni telur 8 season sem erum u.þ.b. 160 klukkustundir af hreinræktaðri gamaldags gúddí gúddí góðmennsku. Hver man ekki eftir byrjunarlaginu sem hljómar einhvern meginn á þessa leið, dadadaraaa dadaraaa dadararar didddirí dirídír. Ég finn það strax þegar ég raula þetta að ég færist allur í aukanna. Og í húsinu á sléttunni fara ekki kúrekarnir öllum að óvörum að setja skökulinn á sér í óæðri endann á hvorum öðrum eins og tíðkast í bíómyndum í forkastanlegum nútímanum. Guð hvað ég vildi að ég væri kominn aftur heim í Löngubrekkuna, sestur fyrir framan sjónvarpið klukkan fjögur á sunnudagseftirmiðdegi með væna súkkulaðiköku sem mamma bakaði, þá var sko prýðilegt að vera til. Núna, pfffff. Guð sé oss næstur. Ég vona að niðurhal á alnetinu verði til þess að Hollywood iðnaðurinn leggist gersamlega af. Mér satt best að segja gæti ekki staðið meira á sama. Það er svo mikið framleitt af ógeðslegu drasli að það er bara gott mál ef þessi iðnaður riðar til falls. Ég segi enn og aftur: “Death to Videodrome, long live the new flesh”.

Jazz eða Blues

Apr
01

Það eru reginmistök að draga þá ályktun að ef einhver kann að meta Billie Holiday, hafi sá hinn sami gaman að blús. Billie Holiday stendur alveg ein og sér hvað skilgreiningu snertir. Uppáhaldslögin mín að þessu sinni eru án efa lögin Strange fruit og Nice work if you can get it sem er alveg sérstakt eintak af mikilli snilld. Velviljaður lánaði mér einmitt blús safnið sitt sem samanstendur af fjórum diskum vitandi af áhuga mínum á fröken Holiday, en ég verð að segja að fæst, ef þá nokkuð höfðar til mín úr því safni. Ég hef ekki enn hlustað á Ellu Fitzgerald. Ég hef satt best að segja látið þetta allt saman eiga sig. Ég hef nefnilega í gegnum lífstíð mína ekki kunnað að meta nokkurn skapaðan hlut sem verður vinsæll af sótsvörtum almúganum. Billie Holiday þótti afskaplega fín hjá Cafe hressó liðinu hérna í den og það var nóg til að ég gaf henni ekki áhlustun fyrr nú á gamalsaldri. Það að taka þennan pólinn í hæðina gefur mér enn og aftur færi á að aðgreina mig frá fjöldanum, þannig að þegar öllu er á botninn hvolft get ég ekki átt samskipti við nokkurn mann. Núna hinsvegar, í ellinni eru þessar kreddur að deyja hver af annarri og ég geri fastlega ráð fyrir því að ég verði orðinn sómasamlegur svona cirka about um sextugt. Ég get vart beðið.

Nef frá nebba læknar kvebba

Apr
01

Ég hef undanfarna viku í veikindum mínum endurskrifað þetta blog sustem. Fyrir þá sem hafa gaman af tæknimáli þá er þessi vefur forritaður í Python. Hann var og hefur lengst af verið skrifaður í PHP, en nú er ég kominn á þá skoðun að það sé ömurlegt og þessvegna skuli allt sem snýr að scripting tungumálum vera gert í Python. Þess ber að geta að google notar að megninu til Python og ekki eru google ömurlegt, ólíkt tildæmis visir.is sem er alveg sérstakt eintak af viðbjóði. Þessi vefur ólíkt áður notar núna plaintext skjöl í stað MySQL gagnagrunns. Ég hef verið í talsverðan tíma að prufa eitthvað annað en hefðbundið SQL og bjó mér til mína eigin aðferð til að aðgreina einstaka efnisþætti í textaskjölum, svosem ekkert merkilegt, hefði kannski bara verið mun betur með það settur að læra á allt python XML safnið, en ég fann ekki hjá mér löngun til þess. Nú, hvað sem tækniatriðum líður þá hef ég fært Pétur Geir vin minn inn í þetta kerfi og bloggar hann nú á því. Ég undir kvöldið skrifaði inn eilítinn viðauka sem ég stal frá bre , hafðu þökk fyrir kæri bre, alveg prýðishugmynd, ef ekki bara æðinsgengin. Fítusinn kallar hann “Í dag fyrir einhverjum árum” og má sjá hann neðst í dagbókinni hans. Nú svo líður og bíður. Er ég skoða þennan viðauka, hjá Pétri átta ég mig á því hversu verðmætt það er að halda úti bloggi. Hann hefur gert þetta sleitulaust í u.þ.b 4 ár. Nánast í hverri færslu hjá honum má finna blog sem heyra undir sömu dagsetningu á öðru ári. Þetta er skemmtilegt og ég mæli með því að fólk renni í gegnum þetta. Ég hinsvegar ætla að halda þessu áfram. Ég hef nokkrum sinnum hætt, en ávalt byrjað að gjamma aftur.

Ég er að verða brjálaður á þessu

Mar
30

Nú er ég búinn að vera með viðurbjóðinslega flensu í næstum viku og finnst mér orðið mál að þessu linni. Mér finnst reyndar ágætt að þurfa ekki að mæta í vinnuna vegna veikinda en ég er gersamlega að missa mig yfir þessu. Ég brá mér þó út í dag til að kaupa mér lífrænt ræktaðar heilsuhnetur. Ég heimtaði lausn minna mála og mátti hafa mig allan við til að festa ekki fé í minnst 10 sortum af vítamínum og rúmlega 5 kílóum af fræbblum. Ég lét mér nægja að kaupa rauðrófusafa og engifersöl. Engiferölið er máttlaus tilraun til þess eins að létta mína lund. Ég þoli illa að vera veikur og ég er alltof oft veikur. Mér finnst þetta vera svindl og ég satt best að segja stóð í þeirri meiningu að ég ætti ekki eftir að verða svona oft veikur á lífsævi minni. Ef að þú lesandi góður lumar á góðri remedíu til að styrkja ónæmiskerfi líkamans sittu þá endilega ekki á þeim upplýsingum.

Linda litla Blair

Mar
29

Ég hef reynt eftir fremsta megni undanfarna mánuði að ala sjálfan mig á kærleik og yndislegheitum. Ég hef komist að því á grýttum vegi lífs míns að það leikur gersamlega allt í höndunum á mér ef ég er léttur í lund og jákvæður. Það er óhjákvæmilega fylgifiskur þess að reyna að haga sér eins og maður að vera ekki sí oní æ að þrasa, tuða, fussa, skyrpa, hrækja og ekki nota skrúfjárn fyrir sleikjó. Stundum hinsvegar ræð ég engan veginn við mig og ég fer að bölsótast út í allt og alla. Mér líður þá ósköp svipað henni Lindu litlu Blair sem átti í afskaplegum erfiðleikum vegna þess að hún var haldin illum anda. Linda litla Blair, þessi með stóru brjóstin! Ég sat á kaffihúsi um daginn með viðurstyggilegri portkonunni henni fröken Sigríði. Þar við borðið hjá okkur sátu 2-3 “herramenn”. Ég var í hæstu hæðum og var að rifna úr jákvæðni og sérstakri væntumþykju gagnvart heiminum og öllu cosmósinu. Mér fannst vera vorhret í lofti og fuglaflensusöngur hvarvetna og ég hafði orð á þessu við mjög dræmar undirtektir. Einhver sem ég kann ekki að nafngreina hóf upp raust sína og það var engu líkara en hann hefði opnað pandóruboxið og sturtað því yfir hausinn á mér. Það má segja að ég hafi misst þarna niður sjálfið mitt sem ég var búinn að rækta af svo mikilli natni. Mér fannst þessi maður hafa sigrað mig í neikvæðni. Hann sagði að það væri ekkert andskotans vorhret í lofti og það ætti eftir að kólna og gera viðurstyggilegan vetur aftur. Það sem verra er, er að hann hafði rétt fyrir sér, því annan eins viðbjóð og þann kulda sem hefur herjað á hýbýli mín undanfarnar 2 vikur, hef ég ekki upplifað í allan andskotans vetur.

Með unglingabólu á nefinu.

Mar
28

Þetta er hún Amy Goodman eins og áður hefur komið fram. Hún er alveg prýðilegt uppátæki. Hún er stólpípumeðvituð. Við vitum það sem aðhyllumst heilsu, trefjahægðir og reglubundna hreyfingu að um leið og manneskja hefur náð stólpípumeðvitund að þá geti hún fyrst farið að tala digurbarkalega á fundi hjá félagasamtökunum. Þetta er alveg sérstaklega áberandi og það er mér sönn ánægja að vera farinn að taka eftir þessu í mínu dagfarsprúða fari. Fólk sem leggur allt sitt í það að lifa heilsusamlegu lífi er yfir höfuð hamingjusamara, hressara og meira successful en þið hin sem að eru ömurleg. Amy þessi elska ber það með sér að hún hefur landað nokkrum stólpípum. Hún er ein af þessum konum sem kæra sig kollótta um það hvort það sé farið að sjást í gráu hárin eður ei. Fólk eins og Amy( og ég )notar heldur ekki snyrtivörur frá vondu fyrirtækjunum. Málar sig ekki en vaskar sig stöku sinnum upp úr grænsápu. Kyrjar og stundar jóga, helst ashtanga jóga því annað jóga er bara fyrir aumingja. Þrátt fyrir heilsusamlegt líf tekst mér að hirða upp hverja þá umgangspest sem þrífst á þessum ógeðslega kletti sem við dirfumst að kalla land.

Kvikmyndir

Mar
27

Það gerist æ oftar þegar
ég reyni að horfa á bíómyndir að ég endist ekki myndina á enda. Ég hugsa að þetta sé bein afleiðing þess að ég henti sjónvarpinu mínu á haugana fyrir rúmum fjórum vikum síðan. Ég hef þó einstaka sinnum verið inn á heimilum þar sem sjónvarpið er í gangi og mér finnst það athyglinnar vert hversu stutta stund það tekur mig, þar til ég er farinn að fylgjast með nánast hvaða rusli sem er af miklum ákafa. Ég er því kominn á þá skoðun að sjónvarpskassar eru frá andskotanum
sjálfum. Ég horfi hinsvegar ennþá á fréttatíma RUV, en læt NFStuð fréttastöðina alveg í friði, enda sérhæfa þeir sig í neikvæðri æsifréttamennsku. Fréttamennsku sem fær mann til að missa
algerlega trúnna á mannkyninu. Umfjöllun um fólk þar sem allir eru illa innrættir og engum gengur gott eitt til. Nóg um það, hef skrifað áður blog um NFStuð. Myndirnar sem ég hef reynt við eru Separate Lies og Where the truth lies . Ég hef satt best að segja ekkert um þessar myndir að segja nema það að þeir eru báðar tvær alveg sérstaklega niðurdrepandi. Sú hin fyrri fjallar um framhjáld konu bresks kaupsýslumanns.

Mannfýlan kemst að því að kerlingarhróið er að halda framhjá, en vill gera gott úr öllu, þangað til að konan og vel köttaða reiðhrossið eru nánast farinn að gera dodo fyrir framan hann.
Sjísus kræst. Afhverju fer manntruntan ekki bara frá sígraðri konu sinni, selur húsið og flyst til Madeira eða eitthvert, hann gerir sér allavega enga grein fyrir því að hann kemur ekki lifandi
frá þessu lífi. Halda í ótrúa kellingu, svo hann geti drepist bitur og ófullnægður.
Fuss og svei.
Sú hin seinni, er ömurleg sakamálasaga eða eitthvað. Kevin Bacon leikur gyðing í þessari mynd. Hugsunin um að einhver sem ber eftirnafn eins og Bacon leiki gyðing er ekkert minna en forkastanlegt. Nóg af dópi og lausgirtum gleðikellingum. Tilhvers? Afhverju er þetta
spennandi. Mér finnast einhver celeb, dópuð og drukkin ekkert skemmtilegt. Mér finnst reyndar dóp og drykkja alveg sérstaklega ömurlegt viðfangsefni.
Ég sé það best út um gluggann hjá mér um hverja einustu helgi hversu aðlaðandi það er. Prúðbúið fólk búið að míga í sig og geltandi eins og dverghundar.

Ástfanginn enn á ný

Mar
26

Það fór þó aldrei svo að ég skyldi ekki verða ástfanginn aftur og nýbúinn. Kvenkosturinn að þessu sinni er hún Amy mín Goodman. Hún er að mínu viti kynþokkafyllsta kona sem ég hef augu borið. Hún er starfar hjá útvarpsstöð sem heitir http://democracynow.org, sem berst fyrir heilbrigðum fréttaflutningi, þarna fyrir vestan Atlantshaf. Henni finnst gaman að ferðast. Ganga á fjöll. Drekka góð vín, en umfram allt að kúra upp í sófa með einhverjum sem henni þykir vænt um.

Veflókar Comments Off on Ástfanginn enn á ný