Ferilskrá misheppnaðra mannlegra samskipta

Fárveikur hafði ég mig til í gærkveldi, puntaði mig, setti á mig vellyktandi og fór nokkuð ringlaður í hausnum vegna hita, en fullur af góðum ásetningi á árshátíð akademíunnar. Nokkuð bætti ég við ferilskrá mína í misheppnuðum mannlegum samskiptum, en ég er alveg sérstaklega lélegur í froðusnakki og á í bölvuðum erfiðleikum með að gera mér upp einhvern áhuga á einhverju sem ég hef engan áhuga á.

Í eitt skiptið var ég spurður hvert mitt hlutverk væri innan akademíunnar og ég sem var í frekar góðum fíling að gantast í samstarfsfólki mínu, reyndi eftir fremsta megni að svara, en fann ekki neina löngun hið innra til að segja frá starfi mínu, sem mér finnst alveg sérstaklega óspennandi. Ok, ekki kannski óspennandi, en allavega ekki neitt sem ég nenni að tala um þegar ég lyfti mér á kreik.

Ég reyndi að gera röddina mína aðeins dýpri og bera mig svolítið mannalega. En hversu mikið sem ég reyndi að sýna spjallinu áhuga, uppskar ég ekki árangur sem erfiði, enda báru tilsvör mín þess merki: Jú, jú, við erum með fullt af tölvum, sagði ég og vonaði að svarið væri tæmandi og ég fengi frið til að halda áfram að haga mér eins og fífl. Ég varð ekki að ósk minni, og þurfti að halda áfram að rembast eins og rjúpan við staurinn, en að lokum sagði ég viðkomandi að vinna mín væri sérstaklega óspennandi og það væri í rauninni ekki mikið meira um það að segja. Gvuð sé oss næstur. Ég hefði átt að getað haldið þetta út og látið sem ég hefði áhuga, en mér var það lífsins ómögulegt.

En svo talaði ég við annan mann um lífið, tilveruna og fallvaltleika ástarinnar, og það var þá sem ég áttaði mig á að ég á miklu betri samskipti við homma og kvenfólk, en karlalega karla. Karlalegir karlar vilja tala um praktísk mál og mér dauðleiðast praktísk mál.

Þrátt fyrir háan hita og slæmsku, fékk ekkert mig stöðvað þegar hljómsveitin hóf spilerí. Ég bókstaflega rauk út á gólfið og dansaði eins og móðurríðari, þannig að svitinn bogaði af mér og draup á dansgólfið. Mikið ægilega er gaman að dansa. Enda mikilll ruþmi og melódía í mér.

Ég fór heim frekar snemma. Snýtti mér. Tók inn sýklalyf. Las síðan til að ganga fimm í morgun. Svona er lífið hjá hjartahreinum karlmanni á fertugsaldri.

5 thoughts on “Ferilskrá misheppnaðra mannlegra samskipta”

  1. Ágúst og Mörður eru reyndar mjög karlalegir finnst mér. Ég sá ekki betur en að þú plummaðir þig mjög vel. Nema kannski þegar Mörður fór að tala um böllinn á sér. Þá fórstu í flækju.

  2. Er það dæmigert umræðuefni á karlmannamótum?

    Ég minnist þess ekki að hafa bryddað upp á æxlunarfærunum á sjálfri mér öðrum til skemmtunar. En ég viðurkenni fúslega að vera tiltölulega einhverf í fjölmenni…

  3. Siggi minn, bloggaðu nú eða ég neyðist til að skilja eftir einhverja ömurlega athugasemd hérna.

Comments are closed.