Flippaðasti arinn í öllum Þingholtunum

Undirrituðum er umhugað um að hafa skæslegt heima hjá sér og á það til að eyða heilu og hálfu föstudagskvöldunum í að punta og gera fínt. Þetta föstudagskvöld var ekkert frábrugðið öðrum föstudagskvöldum og þrátt fyrir að blíðviðrið drægi aðeins úr framkvæmdagleðinni taldi ég rétt að vopnast ryksuginni og soga upp ló sem safnast hafði í einstaka hornum.

Ryksugan mín til tuttugu og tveggja ára af Hitachi gerð, er geymd fram á gangi, og þar sem ég opna hurðina til að ná í hana, mætir mér sterk brunalykt. Ég ákveð að bíða aðeins með að fá taugaáfall og opna út til að athuga hvaðan þessi lykt er ættuð. Sé ég þá að glóð rignir yfir húsið og virðist koma að sunnan.

Ég loka hurðinni í rólegheitunum og hugsa með sjálfum mér að ég þurfi þá andskotann ekkert að ryksuga því nú sé kveiknað í. Mér léttir svolítið við þetta, en ákveð að halda út í veðrið til að athuga hvort ég þurfi ekki að bjarga nokkrum konum og fáeinum börnum úr brennandi byggingunni. Ég hef mig til og stumra í hinn endann á húsinu og mæti þar nágrönnum mínum, sem ég hef reyndar aldrei áður hitt.

Ég spyr konuna hvort kveiknað sé í. Konan, sem ég hef grunaða um að spila Gvend á Eyrinni og Bjartmar Guðlaugsson þegar hún fær sér í aðra tánna, segir mér að ekki logi í húsinu, heldur sé arnininn á Hótel Holti flippaðasti arinn á öllu Íslandi, og úr honum gangi glóðirnar yfir allt hverfið. Ég með naumindum kemst aftur inn í íbúðina mína og tek til við að ryksuga.

Að öðrum málum.

Húsfundur á Óðinsgötu:
Fundinn sátu Sigurður Einarsson og Þórkatla köttur.
Helstu mál: Gosdrykkja og þá sérstaklega af þeirri tegund sem inniheldur aspartame. Önnur mál.

Var ákveðið að leggja blátt bann á alla neyslu gosdrykkja sem innihalda eiturefnið aspartame. Sigurður talaði um kosti og galla þess að vera alltaf að sötra gos. Hann sagði að aspartame gerði fólk snarvitlaust í skapinu og hefðu vænstu menn orðið að drepurum, við það eitt að drekka gos sem inniheldur þennan óþverra. Tillagan var samþykkt með öllum atkvæðum.

Þórkatla hafði orð á því að sér finndist að það ætti að vera grillaður kjúklingur úr Nóatúni í öll mál. Sú tillaga var felld, hótaði Þórkatla þá að láta sig hverfa í viku, eða jafnvel lengur. Fór þá Sigurður Einarsson næstum að gráta og lofaði að hér yrði ekki boðið upp á neitt annað en kjúkling úr Nóatúni.

Fundi slitið.

Svona er lífið í Þingholtunum.

10 thoughts on “Flippaðasti arinn í öllum Þingholtunum”

 1. Fékkstu ryksugu í fermingargjöf?

  Ég get lofað þér því að hún er orðin viðbjóðslega heilsuspillandi og ryður afturúr sér uppsafnaðri bakteríuflóru þegar hún þykist vera að aðstoða þig.

  Ég hef augastað á ryksugu sem er án poka – sem gerir hana bæði ódýrari í rekstri og hreinlegri. Maður skolar glæran tank sem ófögnuðurinn safnast í og þar að auki sleppur heimilishjálpin við að standa krókloppin úti við tunnu að endurskoða ryksugupoka í leita að ýmsu smádóti sem þær eiga til að graðga í sig.

  Ég er ekki að meina einhverja rándýra merkjaryksugu – heldur bara litla, rauða ryksugu sem ég sá í ELKO áa innan við 7000 IKR.

  Ryksugupokar eru næstum orðnir dýrari en sugurnar sjálfar. Ég fæ 4 poka í mína fyrir þúsundkallinn. Það gerir það að verkum að maður freistast til að brúka þá lengur en gott þykir.

  Aldrei dytti manni í hug að geyma uppsópið af gólfunum vikum saman og hrista reglulega upp í því, velgja það og dreifa því um híbýli sín undir því yfirskini að maður sé að snurfusa í kringum sig.

  Og svo erum við hissa á því að öndunarfærasjúkdómar leggist á smábörn sem skríða í hroðanum.

  Ég mæli með því að þú og Þórkatla fjárfestir í nýrri ryksugu – ég hef áhyggjur af brjóstholinu á ykkur báðum.

  Kannski var Þórkatla bara að koma úr bráðainnlögn á Vífilsstöðum?

 2. TIl að forðst misskilning er rétt að árétta það að heimilishjálpin hefur aldrei étið smámunina mína – þetta var klaufalega orðað.

 3. Sigurður varðandi þetta loforðu um kaupa Nóatúnshænsnin eru þetta frjáls hænsn eða innilokaðir skíthopparar með innilokunartilfinningu sem vita það að ekkert annað bíður þeirra en aumur KFC eða grillun í Nóatúni.

 4. Eins og að tyggja lakkrís sér í munni. Skrifin þín æsa hungur í meira og maður er allur snertur inni í sér. Eitthvað bólgnar í tilfinningunum og svellur, þetta blogg er þinn Boleró, kæri Ravel.

  Hraðar og hraðar renna augun yfir HTMLið uns maður springur og getur ekki meir og þarf að kommenta og þakka fyrir sig.

  Ég ætla út í sígó. Unaðslegt.

 5. Mikið langar mig í sígó, ég hef aldrei verið óhamingjusamari en eftir að ég hætti að reykja.

 6. Látt´ekki nokkurn mann´eyr´etta!!!!!!!

  Þetta er alþekkt rangminni – svipað veðurminnisglöpunum:

  ,,Það var alltaf gott veður þegar ég var lítill´´.

  Ef þú færir að svæla aftur – þá yrðirðu fyrst óhamingjusamur!

  Eins og Norman Mailer hefði sagt:
  ,,Klarinettleikarar reykja ekki!´´

Comments are closed.