Fortíðarþrá

[MEDIA=162]

Hvert okkar á sér tvífara einhversstaðar í heiminum sem deilir með okkur hugsunum og draumum. Mynd leikstjórans Krzysztof Kieslowski: La Double vie de Véronique, eða Tvöfalt líf Veroniku, er um líf Veroniku eftir að tvífari hennar deyr á sviði. Tónlist Zbigniew Preisner er svo guðdómleg að hann hlýtur að hafa fengið hana að láni úr annarri vídd. Þetta er, að mínu mati, eitt af áhrifameiri atriðum kvikmyndasögunnar. Ég sá myndina fyrir 15 árum síðan, í einu draumahúsinu mínu, með stúlku sem ég elskaði svo mikið að ég hélt um tíma að ást mín gengi að mér dauðum. Ég hugsa stundum ennþá til hennar, eins og greinilegt er á þessum pistli, og ekki alls fyrir löngu sá ég hana, þar sem hún sat á kaffihúsi og drakk kaffi. Ég var að labba Austurvöllinn á leið minni á bókasafnið. Við brostum vandræðalega til hvors annars . Ég íhugaði hvort ég ætti að stoppa og kasta á hana kveðju, en ákvað með sjálfum mér að ég hefði ekki neitt meira að segja.

2 thoughts on “Fortíðarþrá”

Comments are closed.