Heppilegt hjartaáfall

Það skýtur nokkuð skökku við að ég sé meðlimur í önfirska karlakórnum Fjallabræðrum. Fyrir það fyrsta, þá er ég ekki beint karlmannlegur, í annan stað er ég langt frá því að vera þessi hressa félagssálarmanngerð, í þriðja lagi ólst ég upp í Kópavoginum en ekki vestur á fjörðum. Oftast þegar ég hitti kórinn, líður mér eins og blökkumanni sem hefur fyrir einhvern misskilning fengið inngöngu í Klanið. En hversu kjánalega sem mér líður í félagi við annað fólk, veit ég þó fyrir víst að ég hef mikið yndi af að syngja. Ég er eiginlega sísönglandi og ef ég er ekki syngja eða ralla eitthvað lag, þá er ég blístrandi eins og rauðbrystingur.

Í kórstarfi með hinum karlalegu körlum, hef ég komist að því að ég er með alveg fyrirtaks bassarödd. Í kórnum er ekki margir sem syngja bassa, þeir eru eiginlega teljandi á fingrum annarrar handar. Á þeim tíma sem ég hef verið í kórnum hef ég komið fram með þeim opinberlega í fjórgang, og var fjórða skiptið núna í kvöld á Miklatúni. Þrátt fyrir að ég ætti von á að syngja fyrir þúsundir, var ég ekkert taugaspenntur. Gott þykir í kórstarfi að súpa örlítið áður en stigið er á svið. Sopinn tekur í burtu alla spennu og fyllir menn sjálfstrausti og karlmennsku. Ég sjálfur drekk þó í mesta lagi kók með sykri áður en við syngjum.

Í kvöld var ég klæddur í mitt fínasta fínt, stífrakaður, með vellyktandi. Þegar ég var að hafa mig til spurði ég fröken Sigríði, sem gerði sér ferð út í litla Skerjarfjörð til að lána mér bindi, hvort ég ætti að fara í doppóttu litríku nærbuxunum mínum eða þeim hefðbundnu bláu með röndunum. Frúin skipaði mér í þær doppóttu og sagði að ef sviðið félli saman og sjúkraflutningamennirnir þyrftu að klippa utan af mér buxurnar, þá væri mun skæslegra að vera í röff og töff nærbuxum. Frúin veit hvað hún syngur, enda er alltaf verið að klippa af henni buxurnar.

Þegar ég svo stóð á sviðinu, umkringdur félögum mínum í kórnum að syngja fyrsta lag af tveimur fæ ég skelfilegan verk fyrir hjartað. Ég kippi mér ekki mikið upp við það. Ég fæ stundum svona verki, en þeir staldra yfirleitt ekki lengi við. Ég hafði þó aldrei reynt að syngja bassarödd með þennan verk áður. Í fyrsta millikaflanum, sem er eitthvað á þessa leið: Farið höfum yfir heiðar háar, sprænur bláar, þúfur smáar, og mosabreiður gráar, – ágerist verkurinn. Jæja, hugsa ég með sjálfum mér, – nú fæ ég loksins að deyja. Mér verður hugsað til eitt af eftirlætis atriðum mínum úr kvikmyndasögunni, atriðið þar sem tvífari Veroníku í myndinni Tvöfalt líf Veroníku, fær hjartaáfall og deyr á sviði syngjandi gullfallega óperu. Í hugrenningum mínum þessa stundina, fannst mér reyndar dauðdagi Veroníku flottari en væntanlegur dauðdagi minn fyrir framan örfáar regnblautar hræður á Miklatúni í Reykjavík. 38 ára gamall, fær hjartaáfall og deyr á sviði. Ég sem var fullviss um að ég þyrfti að hanga hér mun lengur en ég kærði mig um. Ég stóð klár á að ég ætti eftir að verða hundgamall geðstirður prumpukall, sem engum þykir vænt um. Guð hefur nefnilega verið þekktur fyrir að launa þeim sem aldrei hafa unað sér í þessum heimi – með langlífi. Svona er guð nú ægilega góður. En ef ég dey ekki, hugsa ég. Hvað ef ég fæ bara hjartaáfall og eyðilegg stórtónleika Fjallabræðra? Mikið hvað það væri ömurlegt. Sú tilhugsun verður óbærileg. Ég lem sjálfan mig tvisvar í brjóstkassann, eins ég sá einu sinni gamlan vin gera þegar hann átti í erfiðleikum með hjartað sitt. Í næsta millikafla finn ég að verkurinn er horfinn. Ég hef sjálfan mig til flugs og syng eins og það sé enginn morgundagur.

2 thoughts on “Heppilegt hjartaáfall”

  1. Gyðingarnir hafa þetta rétt, Guð er hefnigjarnt gamamenni á Grund deild 3b, herbergi 35, hann er harðáhveðinn á því að
    þú fáir að upplifa það að vera ósjálfbjarga gamalmenni á elliheimili sem slefar sífellt ofaní bringuna á sér. haha ha
    Til hamingju með nýja vefinn.

Comments are closed.