Hver er þessi Kalli Bjarni?

Ég reyni að forðast það í lengstu lög að skrifa moggablogg, en í þessu tilfelli get ég ekki haldið hestum mínum innan girðingar.

Ég varð fyrir því óláni að horfa á Kastljós í gærkveldi og það var ekki annað að sjá en að það væri gúrkutíð hjá RUV. Ennþá meiri gúrkutíð er hjá mér, því ég hef í hyggju að blogga um gúrkutíð sjónvarpsins.

Þarna var á ferðinni tilfinningaklám í hæsta gæðaflokki. Dramatískt viðtal við örvæntingafulla móður, sem sagðist viss um að sonur sinn hefði verið neyddur til að vinna fyrir sér sem burðardýr. Ég hef fulla samúð með þessari konu. Ég hef ennþá fulla samúð með því fólki sem stóð mér næst þegar ég var og hét.

Lesið var upp bréf sem Kalli Bjarni skrifaði bróður sínum. Undir bréfinu held ég að hafi hljómað lítill lagstúfur eins og er spilaður í Oprah þáttum, þegar viðmælendur og þeirra saga er presenteruð. Ég veit ekki með aðra, en ég fann ekki fyrir neinu. Mér fannst þetta bara alveg ótrúlega hallærislegt. Upplesturinn á þessu bréfi var látinn hljóma eins og síðustu orð þessa manns og var áhorfandum gert að taka þetta alveg sérstaklega nærri sér.

Þegar líða fór á þáttinn vaknaði upp sú spurning hvort Kalli Bjarni hefði orðið fíkninni að bráð sökum frægðar? Hvaða frægð? Ég man ekki til þess að hafa heyrt eitt einasta lag með þessum Kalla Bjarna. Ég held ég hafi aldrei heyrt hann syngja. Ekki svo að skilja að fólk verði ekki frægt án þess að ég heyri nokkurn tímann í þeim. Ekki var nóg með að þessi spurning vaknaði, heldur fór einn af þáttastjórnendum að velta því fyrir sér hvort það þyrfti ekki að gera eitthvað í því þegar fólk verður frægt; kannski svona forvarnarnámskeið fyrir íslendinga sem eiga það á hættu að öðlast heimsfrægð á Íslandi.

Alvarleiki málsins var svo undirstrikaður með að kalla til authority okkar íslendinga þegar kemur að frægð, frama og fíkniefnaneyslu: Bubbi okkar Morthens. Bubbi hefur marga fjöruna sopið og veit hvað er að vera bæði frægur og fullur. Spyrjandinn reyndi eftir fremsta megni að gera Bubba ábyrgan fyrir vesalings Kalla Bjarna, sem fyrir mikla ólukku “lenti” í eiturlyfjum. Hún falaðist eftir því hvort Bubbi hefði virkilega ekki tekið eftir því að fórnarlambið hann Kalli okkar Bjarni hefði átt við fíkniefnavanda að stríða. Ég endurtek mig og spyr: hver er þessi Kalli Bjarni? Er þetta eitthvað celeb? Í hvaða veruleika býr þetta fólk?

Tilfellið er að fólk hefur raunverulegan áhuga á þessu. Það sést best á því hvaða tegund greina eru mest lesnar á morgunblaðsvefnum.

Það er kannski ég sem er ekki í takt við íslenskan raunveruleika?

4 thoughts on “Hver er þessi Kalli Bjarni?”

  1. Kalli Bjarni er fyrsti sigurvegari í Idol keppninni, sjónvarpsþætti sem flest smekkfólk sem ég þekki, lætur fram hjá sér fara. Árið man ég ekki en það bar blessunarlega lítð á honum eftir sigurinn. Ef það var frægðin sem dró þennan mann í “dópið” þá hefur hann mjög lágan “frægðarþróskuld” Ég er ekki búinn að horfa á þetta en ég geri ekki ráð fyrir að Kóngurinn hafi þurft neina hjálp til að gera sig að fífli frekar en fyrri daginn.

  2. Kalli Bjarni er úr Keflavík. Honum finnst Reykjavik vera Cosmo. Fólk utan af landi þarf oft minna til að upplifa sig frægt en lífsreyndir jaxlar sem hafa siglt um hin sjö höf jarðar og sitja nú með gulltennur i 101. Annars þarf ekkert frægð til að langa í dóp. Það er bara lummó fyrirsláttur.

  3. Skv. óáreiðanlegum heimildum hafi HERRA Kalli Bjarnason farið í amk 2 meðferðir löngu áður en fékk sínar 15 sekúndur (eruð þið ekki fegin að eiga ykkar 15 sek. eftir?).

    En málið er að að sjálfsögðu reynum við allt til að líta betur út eftir svona fréttaflutning.

  4. Skil ekki afhverju þessi maður fær einhverja sérmeðferð vegna þess að hann tók þátt í einhverri söngvakeppni fyrir hæfaleikalaust pakk. Hann tróð dópi uppí rassgatið á sér og þar við situr.

Comments are closed.