Í þyrlu með Agli

Í gær þegar ég lagðist í rekkju var ég í mikilli geðshræringu yfir skelfilegum atburðum í íslensku efnahagslífi. Þegar ég svo vaknaði í morgun var friður í sálinni minni. Í hjarta mínu var kærleikur, ást og fullvissa um að nýir og fallegir tímar væru framundan.

Mig dreymdi eftirfarandi:
Ég var staddur í lúxusþyrlu með Agli Helgasyni. Hann flaug þyrlunni, sem mér skildist að væri í hans einkaeign. Hann brosti góðlátlega til mín. Hann var öllu grennri en hann er í raunveruleikanum. Vel til hafður með dökkgrænan flughjálm. Hann bauð af sér góðan þokka og nærvera hans var þægilega seiðandi. Hvert við vorum að fara, veit ég ekki, en meðan á fluginu stóð útskýrði hann föðurlega fyrir mér hrun kapitalismans. Hann sagði mér að ótti minn væri ástæðulaus. Að tími breytinga yrði að vísu ekki sársaukalaus og margur maðurinn kæmi til með að streitast á móti hinu óumflýjanlega. En að baráttunni lokinni yrði heimurinn annar. Fallegri. Kærleiksríkari. Heimur þar sem einstaklingurinn skipti einhverju máli, þar sem manneskja er ekki bara nafn skuldara á innheimtulista bankanna. Heimur frír af efnishyggju, græðgi og egóisma. Ég tók eftir að landið sem við flugum yfir var sérstaklega grænt og gróðursælt.

Að doppelganger Egils Helgasonar skuli birtast mér í draumi til að færa okkur mannfólkinu fagnaðarerindið er eitthvað sem ég hygg að beri að taka mjög alvarlega.

6 thoughts on “Í þyrlu með Agli”

 1. Þetta var Völuspá. Bræður munu berjast en að því loknu er það bara Gimli og kósíheit. Egill var Völvan.

 2. Ég held að Egill hafi verið Satan & þú Ésú.
  Hann svona að freista þín & sýna þér að allt þetta geti orðið þitt bara ef þú fellur á kné niður og tilbiður hann.
  Klassískur stemmari!

  Svo gæti þetta líka verið fyrir hörðum og afar erfiðum hægðum?

 3. Ef þessi draumur er skoðaður með tilliti til holdafarsþráhyggju þinnar þá er tilgáta mín eftirfarandi:

  Þú, fyrir ofan veraldaramstrið með Agli Helgasyni(í kjörþyngd)hlýtur að valda jákvæðum ,,gúddígúddí-efnaskiptum´´

  P.S. Annars dreymdi mig s.l.nótt tvær smáflugvélar hrapa yfir Mæðragarðinn.
  Þær voru í æfingaflugi með glaðningsböggla fyrir alþýðuna…

 4. Ef Egill er sá sem boðar fagnaðarerindið eins og Jésús forðum, er einboðið að krossfesta hann.

Comments are closed.