Raunasaga af fésbók

Menn sem hafa lifað lífi í einsemd jafnlengi og síðuhaldari eru veikari fyrir ýmiskonar gylliboðum ástarinnar. Þar er ég engin undantekning. Þrátt fyrir hrjúft og hranalagt viðmót blundar niðri fyrir þörf fyrir að elska og vera elskaður.

Einstaka sinnum kemur fyrir að einhver kona frá brotnu heimili sýnir mér vott af áhuga á samfélagsvefnum facebook. Við það kætist ég ægilega í hjarta mínu, þó svo ég sé viss um að konan hljóti að vera annað hvort illa gefin eða snarklikkuð. Ef ekki bæði.

Á facebook í dag fékk ég einmitt eitt slíkt boð frá ósköp huggulegri konu. Hún hafði áhuga á að vita hvernig ég kæmi út í samanburði við hana á kynferðissviðinu. Hvort ég væri ákjósanlegur bólfélagi. Ég sem hafði verið kjökrandi síðan ég vaknaði, hryggur í sálinni minni yfir tilfinningalegum skipsbrotum, vaknaði til lífsins og tók beiðninni sem himnasendingu.

Með von í brjósti og allur uppveðraður smelli ég á þartilgerðan: já og amen hnapp. Upp kemur listi af svaðalegum spurningum út í hin og þessi atriði varðandi kynlífsiðkun mína. Þar sem minni mitt er gloppótt, reyni ég að svara spurningunum þannig að ég komi út sem kynlífströll af þeirri tegund sem allar konur elska að lyfta sér á kreik með. Ég vel að halda áfram og get varla beðið eftir að fá niðurstöður um hvernig ég og þessi unga kona eigum saman. Upp koma myndir og nöfn af hinum og þessum erlendum aðilum, þar á meðal karlmenn, sem passa 100% við mig. Þar til hliðar við er mér gefinn kostur á að senda sama spurningalista á alla kvenkyns vini mína.

En hvergi sé ég hvernig ég og konan sem upphaflega sendi mér beiðnina pössum saman og þegar hér er komið við sögu, er ég orðinn frekar sár og sorgmæddur yfir sjálfum mér. Ég ákveð að hætta þessari vitleysu og skelli mér á facebook forsíðuna þar sem ég fæ yfirlit nýjustu frétta og tilkynninga. Ég sé að þar er ný tilkynning um eitthvað spennandi. Hvað skyldi þetta vera? Ætli þetta séu skilaboð frá konunni sem vildi vita hvaða mann ég hefði að geyma undir sænginni? Ég smelli á tilkynninguna og það sem blasir við mér, gerir það að verkum að ég hefði helst viljað detta dauður niður. Mér er tilkynnt að ég hafi sent boð um þennan óþverra á alla kvenkyns vini mína á facebook, þar á meðal mömmu mína, mágkonu, og dóttur bróður míns, en öll hans fjölskylda er sannkristin og fer í kirkju á sunnudögum. Ég samt valdi ekki að gera neitt þvíumlíkt. Hvað á ég að gera? Nú halda vinnufélagar mínir upp í akademíu, fjölskyldan mín og vinir að ég vilji ríða þeim. Djöfuls viðbjóður.

11 thoughts on “Raunasaga af fésbók”

  1. Takk fyrir þetta, ég hef ekki hlegið svona hjartanlega lengi. Þetta bjargaði alveg sunnudagsmorgun-þunglyndinu.

  2. Hafðu engar áhyggjur Sigurður minn, við uppí Akademíunni höfum engar slíkar ranghugmyndir um þig eða þína fjölskildu, við vitum öll að einu langanir þínar til veikara kynsins er að eyða kvöldstund með konu yfir kertaljósi, maulandi speltbrauð með hummus, blautlegar hugsanir rúmast ekki fyrir í þinni hreinu sál.
    En við upp í Akademíunni myndum kjætast mjög ef einhver ambindrillan myndi taki þig glímutökum og fella þig með hælkrók og halda þér klofvega niðri þar til að dómarar lífsins hefðu dæmt henni í vil.

  3. Hvernig ber mér að skilja það að mér hefur ekki borist neitt?

  4. hehehehehhe, maður bara situr einn við tölvuna í vinnunni og hlær eins og kjáni.

  5. Mikið upplifi ég þetta eins Sigurður venur minn. Var gríðarlega þægilega uppgötvun í mínu lífi þegar ég sá að það er hægt að velja að “ignore all” inni á notanda síðunni á fésbók. Ignore all gerir lífið svo miklu miklu einfaldara 😀

Comments are closed.