Í bíó með 12 ára gömlum sjálfum mér

Ég fann að ég spenntist upp í sætinu mínu. Mig langaði til að segja honum hvað orðið samsæri þýddi, en gerði það ekki þar sem ég bý í heimi fullum af reglum um hvað er við hæfi og hvað ekki. Ég áttaði mig á að hann var ekki að spyrja mömmu sína, heldur mig. Hann kunni vel við mig. Kannski vegna þess að ég gargaði ekki á hann þegar hann rak sig í kókglasið sem skoppaði í fangið á mér.

Ég fékk það á tilfinninguna að einhver eða bara allir í hans umdæmi hefðu öskrað frekar oft á hann og þess vegna komu viðbrögð mín honum á óvart. Hann margbað mig afsökunar, alveg miður sín. Ég sagði honum að þetta væri allt í lagi og bað hann um að hafa ekki áhyggjur. Á þeirri stundu leið mér aðeins betur með mig sem manneskju. “Þú ert ekki sem verstur”, sagði rödd, sem var kærkomin tilbreyting frá boðflennunum sem tala eintóman kúk í þeim innri gleðskap sem stendur yfir frá því ég vakna á morgnanna og þar til svefninn leysir hann upp að kvöldi. Hinn innri díalókur. Minn versti óvinur.

Meðan kókið lak eftir lærinu á mér masaði hann látlaust við mömmu sína, sem átti engin svör til handa honum. Henni fannst myndin leiðinleg. Honum, eins og mér, þótti hún frábær. Þegar Rorschach sagði við samfanga sína: “Það er eitt sem þið verðið að átta ykkur á, það er ekki ég sem er læstur inni með ykkur, heldur eruð þið læstir inni með mér”, klöppuðum ég og hann saman sigri hrósandi. Við báðir frík, eins og Rorschach. Ég og þessi strákur tengdumst, án þess að eiga frekari orðaskipti. Fullur af spurningum, sem enginn nálægur getur svarað. Örlítið of ákafur, svolítið pirrandi. Klaufskur. Allt við hann sagði: “Hér er ég! Takið eftir mér! Ég vil fá að vera til!” Það var engu líkara en ég sæti við hliðina á 12 ára gömlum sjálfum mér.

4 thoughts on “Í bíó með 12 ára gömlum sjálfum mér”

  1. Frábært! Þú ert svo skemmtilegur ritari siggi! Ertu til í að skrifa skáldsögur, mig vantar eitthvað gott að lesa. Það sem þú skrifar lifnar einhvern vegin við í huganum á mér og það verður svo myndrænt. Svo auðvitað skemmir ekki góður húmor fyrir. Varð að tjá mig um þetta mál.

  2. Já tek undir þetta hættu þessu eilífa spjalli við sjálfan þig (nei ekki alveg) og skrifaðu bók handa okkur hinum, þá ert þú góður maður.

Comments are closed.