Gremja

Gremja verður seint sett í flokk prýðistilfinninga. Fræðimenn sálarinnar telja brýnt að uppræta gremju með öllum tiltækum ráðum fræðigreinarinnar. En það er þó þannig í lífinu að þó maður sé allur af vilja gerður er afskaplega erfitt að komast í gegnum dag í samfélagi við menn, án þess að finna fyrir svolítilli gremju. Það er eiginlega óumflýjanlegt. Að hugsa fallegar hugsanir, sem samfélagið hefur velþóknun á, hefur litla vigt augliti til auglitis við fábjána dagsins. Og ekki misskilja notkun mína á fábjánanafngiftinni. Fábjáni í mínum huga er einn af þessum litlu köllum heimsins sem vilja skrúfa niður í ofnunum hjá öðrum íbúum þessarar jarðar til að hans eigin ofnar kyndi betur. Fábjáni er einhver sem traðkar á fólki, sjálfum sér til upphefðar, í hvaða tilgangi sem er. Á ensku ‘asshole’, á íslensku ‘fábjáni’ eða ‘fáviti’. Og í þessu árferði fer fíflunum snarfjölgandi. Þegar kreppir að má sjá úr hvaða efni fólk er gert. Eins og segir í bók sem ég las fyrir einhverju, þá var það ekki endilega besta fólkið sem lifði af helförina.

Hvað um það. Þó skemmtilegt sé að velta fyrir sér margbreytileika mannskepnunnar er hugsun mín ekki sú að komast til botns í hvað heldur henni gangandi. Hvað gremju varðar, þá hefur virkað vel fyrir mig að ímynda mér fábjána, sem fara í taugarnar á mér, í samförum. Það er skemmtilegt. Að nota ímyndunaraflið í að láta fólk, sem er með rembing og fávitahátt, ríða – er mjög fín aðferð til að skemmta andskotanum í sjálfum sér. Og því viðkvæmari aðstæður sem ég set fólkið í, því glaðari verður djöfullinn í Sigurði Þorfinni Einarssyni. Einhverjum kann að skorta hugarflug til að skilja hvernig þetta getur mögulega virkað. En þeir sem séð hafa stuttmyndina um Jesúmanninn Guð-mund í Byrginu, þurfa ekki frekari útskýringar.

4 thoughts on “Gremja”

  1. “Gramar varir mínar” er það fallegasta sem ég hef heyrt lengi.

  2. Til gamans má geta að orðin “gremja” og “grenja” eru nauðalík.

Comments are closed.