Kexklikkaður í félagsvist

Ég hugsa ekki bara mikið um dauðann og eilífðarmálin, því ég hugsa einnig töluvert um ellina og hvernig ég kem til með að verða þegar ég er orðinn gamall kall. Mig hálft í hvoru langar til að verða snargeðveikur kall sem brúkar kjaft við samtíðarmenn sína. Ég vill því biðja fólk á mínu reki að koma fram við mig af sérstakri virðingu og nærgætni, því annars verðið þið fyrir barðinu á mér á félagsheimilum, í þjónustuíbúðum og öðrum stöðum þar sem aldrað fólk kemur saman.

Ég mun tildæmis verða daglegur gestur í félagsvist aldraðra og þrátt fyrir að vera alveg kexklikkaður verð ég framúrskarandi spilamaður sem allir vilja spila við. Ef einhver, sem mér er í nöp við, nálgast borðið sem ég spila við, garga ég, frussa og froðufelli. Ef ég svo myndi afhverju mér væri illa við viðkomandi, þá léti ég fylgja með einhvern vel til fundinn óhroða.

Ég verð að sjálfsögðu með staf, sem ég reiði til lofts, máli mínu til stuðnings. Sá er yrði fyrir barðinu á mér, kæmi til með að hrökklast undan og verða eins og lúpa. Þá myndi ég garga á eftir honum: Komdu svo aldrei aftur í félagsvistina, djöfuls ómennið þitt! Hann drattast þá heim til sín, færi aldrei aftur út fyrir hússins dyr og dræpist einn og yfirgefinn tuldrandi fyrir brjósti sér, hvað hann hefði nú átt að vanda sig betur í samskiptum við SiggaSiggaBangBang í árdaga.

Hvaða tegund af dementíu ég ætla svo að vera með, hef ég ekki enn ákveðið, en af nógu er að taka.

Þessar hugmyndir mínar um ellina, gætu þó hugsanlega eitthvað breyst á komandi árum. Margt af því sem ég hef ákveðið í lífinu, hefur ekki staðist eða molnað niður í tímanna rás. Ég man að fyrir u.þ.b tíu árum síðan, hélt ég að ég vissi bara æði andskoti margt. Í mínum huga, voru skoðanir mínar, hugsanir, viðhorf, með þeim betri sem finna mátti í einum Íslendingi. Ég var að mínu viti, víðsýnt bóhem, sem hafði óbeit á fólki sem lifði heilbrigðu lífi. Lá oft við, þegar ég mætti hlaupara á förnum vegi, að ég bókstaflega hrækti á hann. Núna, tíu árum síðar, veit ég ekki neitt í minn haus. Ég veit ekki hver ég er, hvað ég stend fyrir, hvert ég er að fara, hver tilgangur með þessu jarðlífi er, hvað er í kvöldmat, osfrv. Ég er þó sjálfur orðinn mikill hlaupari. Ég hleyp held ég 40-50km í viku, ef mér heilsast vel.

Kveikjan af þessum pistli mínum um ellina, varð til þegar ég hljóp Skerjarfjörðinn í morgun. Mætti ég þar hóp af eldra fólki, sem var á göngu. Hugsanlega í einhverjum gönguklúbb. Mörg þeirra voru í skærlituðum útisvistarfatnaði. Þau voru ósköp glaðhlakkaleg að sjá. En ég hugsaði með sjálfum mér: Þegar ég verð gamall þá klæði ég mig ekki í svona útivistarfatnað og ég geng ekki með hópi af grautfúlu samtíðarfólki mínu. Ég í mesta lagi, geng með einhverri vinkonu minni suður Laufásveginn, íklæddur frakka, með virðulegan hatt. Svo hugsaði ég þetta aðeins lengra, og þá datt mér í hug að það væri vel við hæfi að verða snargeðveikt gamalmenni.

Ég held þó samt að ég vilji helst verða bara ljúfmenni og ég óska mér þess að verða umkringdur börnum og ungu fólki. Fullorðna fólkið er nefnilega svo fokking leiðinlegt.

8 thoughts on “Kexklikkaður í félagsvist”

 1. Ég myndi ekki geyma það fram á elliár að verða snælduvitlaus, best væri að drífa í þessu.

  Rétta leiðin til að verða veill væri eitthvað á þessa leið.

  Finna sér skemmtilega íbúð í 101 fyrir ofan einbúa. Ná sér jafnvel í sambýling sem væri til í að skaka sér á slöku ikearúmi til að halda fyrir nágrannanum vöku.

  Svo mætti jafnvel leggjast í það að kaupa sér föngulega Rover bifreið. Til að toppa þetta allt saman væri jafnvel hægt að horfa á dagskrá RÚV á hverju kvöldi.

  Ef þetta dugir ekki til að verða snar á stuttum tíma þá er bara að…………

  p.s. Videóið er ægifagurt sem þú póstaðir af gengisrímnamanninum.

  m/kærri kveðju
  Broadbandjebus

 2. Ég vona að ég lendi ekki á sama elliheimili og þú.

  Einu áformin sem ég hef nokkurn tíman haft um síðustu árin er að reykja ógeðslega mikið gras. Það er reyndar ekki endanleglega ákveðið.

 3. Ertu nú búinn að sofa lítið að undanförnu kallin minn, eitt ráð vil ég gefa þér til að stilla fólkið á efrihæðinni og það er að kveikja í bunkanum af fréttablaðinu sem safnast saman heima hjá þér á miðju stofugólfinu þar til að þú heyrir að þau hætta skyndilega og hlaupa allsnakinn út, þá tekur þú pott af vatni og svettir yfir eldin og slekkur í honum og ferð svo að sofa.

 4. En ef ég leyfi þér að vera makkerinn minn í félagsvist? Ég verð svaka flinkur í félagsvist! Annars ætla ég ekki á neitt elliheimili, ég er fyrir langa löngu búinn að plana sjálfsmorðsferð með kjarnorkuskemmtiferðaskipi, sjá færslu númer þrjúhundruðþrjátíu og fjögur. Allir eru velkomnir með.

 5. Ég er félagsvistardrottningin og vann meira að segja verðlaun á félagsvistarmóti árið 2000 – geri aðrir betur (já ég er með vitni að þessum sigri). Þannig að reiknaðu með mér við borðið engu minna skapill en þú.

  Ánægð með stafinn – það er klassi að vera gamalmenni með staf og að reyna að lumbra á fólki með honum.

 6. Ég tengdist um tíma gamalmenni sem lét sig ekki muna um að lúberja vélarhlífar bifreiða sem nauðhemluðu þétt upp við frakkaermi hans – þar sem hann stakk sér fyrirvaralaust út á umferðargötur. Og þar kom stafurinn í góðar þarfir. Don´lt leave home without it!

  Hvaða kvenmaður er þetta sem er búin að skipa sér til sætis við spilaborðið? Ég vona að hún átti sig á því að það verður aldrei nema til vinstri handar!

Comments are closed.