kjaftablaður

starwars74.jpg

Ég ræddi það í gær við Obi Wan Kenobi hvað er viðeigandi í samskiptum við fólk. Það er tildæmis ekki viðeigandi í gleðskap að spyrja einhvern sem bregður sér á salernið hvort viðkomandi sé að fara að fá sér að kúka. Það þykir heldur ekki fínt að sitja til borðs með fólki og lýsa því yfir hversu gott það væri að vera bara dauður. Það er eitt og annað sem ekki þykir við hæfi að segja í hópi fullorðinna. Það er hinsvegar ásættanlegt þegar maður er staddur meðal fólks að tala um eitthvað eins og stjórnmál, veðrið, markaðinn, menningu og fleira í þá veruna. Vandamálið með mig er að mér finnast öll þessi látalæti alveg yfirnáttúrulega leiðinleg. Ég er með öðrum orðum alveg sérstaklega illa að mér í svokölluðu froðusnakki. Yfirborðshjal hefur vafist svo fyrir mér að ég hef íhugað að fara á námskeið til að tileinka mér meiri færni í því. Ekki svo að skilja að ég gefi mig út fyrir að vera einhvern snilling í vitrænum og djúpum samræðum. Mér líður best meðal fólks þegar ég þarf ekki að vera gefa mig út fyrir að vera eitthvað sem ég er ekki. Mér líður vel með því fólki sem kippir sér ekki upp við að ég bresti allt í einu í söng, sem ég reyndar geri iðullega.

Í dag hitti ég konu á Laugaveginum, sem ég reyndi að eiga samskipti við fyrir kurteisissakir.
“Já, blessuð. Bara blíðan.” sagði ég, meðan ég gat engan veginn leynt því hversu hræðilegt mér fannst að vera fyrri til að tala um veðrið, bara í þeim tilgangi að segja eitthvað. Tala í þeim tilgangi einum að tala. “Já, það er svo yndislegt að vera í fríi þegar veðrið er svona mikið æði.” sagði hún og brosti út að eyrum af gleði yfir því hvað veðrið var yndislegt, heimurinn frábær og guð góður. Hvað í fjandanum á ég að segja næst, hugsaði ég með sjálfum mér. Ég brosti eins og fáviti og bætti við: “Já, er þetta ekki dásamlegt.” “Jú, svo sannarlega,” sagði hún og hló. Ég verð að finna mér undankomuleið, hugsaði ég og jók gönguhraða minn. “Alveg yndislegt,” sagði ég “…..sjáumst.” Ég veifaði henni þar sem hún hvarf í mannfjöldann.

Skelfing og hryllingur.

Ég gæti líka verið staddur í boði þar sem ég er spurður að því hvernig fyrirtækið mitt gengi. Mér leiðist sú spurning alveg ævintýralega. Ég er þess viss að enginn hafi raunverulegan áhuga á því og það er orkusóun fyrir mig að vera sífellt að blaðra um það. Jú, ég veit að til eru menn sem eyða alveg óheyrilegum tíma í að tala um fyrirtækið sitt eða hversu vel þeim gengur í viðskiptum, en mér finnst það sjálfum alveg ógeðslega leiðinlegt. Það eru því litlar líkur á að einhver komi að mér á stefnumóti talandi um fyrirtækið mitt, þangað til hinn aðilinn afsakar sig meðan hann fer á salernið og kemur aldrei aftur. Það reyndar eru svo gott sem engar líkur á að einhver finni mig á stefnumóti, vegna þess að ég er ekki bara fáviti í froðusnakki heldur er ég apaköttur þegar kemur að samskiptum við hitt kynið líka.

16 thoughts on “kjaftablaður”

 1. Ég skil vel þjáningu þína yfir því að vera að tala um eitthvað sem skiptir engu máli, en af hverju viltu tala um það að kúka eða um það hvað það væri betra að vera dauður?

  Fólki þætti betra að heyra þig tala um afrek þín á þessu sviðið heldur en eitthvað froðusnakk um það hvað þú ætlar nú að fara að kúka…

 2. Ég elska að tjatta – er hreinn og beinn snillingur í því. Nema einmitt við þig Sigurður og þig herra hetja. Þið eruð fáránlega slæmir í að tjatta og spjalla. Þið megið virkilega fara að taka ykkur á!

 3. (varúð, löng athugasemd)

  Siggi sálufélagi. Þarna talaðir þú fyrir mig enda tifa stjörnur okkar andlega himinhvolfs í takt.

  Ég man þegar ég var nýgengin til liðs við samtök iðnaðarins. Þá var ég nú heldur betur úti að skíta hvað þetta varðar. Snakk og tjatt. OMG. Ég reyndi og titraði og leið eins og ég væri skökk að reyna að virka normal. Normal eins og í “David Lynch” normal sem er náttúrlega hreint ekkert normal. Þetta varð allt svo krípí og skrítið. Kjötskrokkur með munn að tala.

  Núna fer hæfni mín til snakks eftir því hversu vel ég er sofinn, hvað ég hef drukkið marga bolla af kaffi og hvort ég hef nýlega tuggið strá með mínum innri Yoda.

  Annars get ég gefið þér tips sem ég las í bók um þessi mál. Veðrið er alltaf boring umræðuefni enda ekki umræðuefni sem slíkt nema maður sé veðurlúði. Bíómyndir eru hinsvegar finasta umræðuefni, bækur jafnvel og hvað manni finnst asnalegt… t.d. steeldrums, skiptinemar, “úlpur” og svo framvegis.

  EKKI tala um leiðinlega hluti eins og misnotkun, fíkniefni, feminisma, trúmál og svoleiðis á stefnumótum eða við fólk á förnum vegi. Það á maður að gera seinna… ef maður þarf þess endilega. Sjálf er ég komin með ógeð á slíkum umræðuefnum. Helst vil ég bara tala sem minnst nema kannski um gervipikur andans og gulltennur úkraínumanna. Það er skemmtilegt. Hitt er tuð.

  og þó… ef fólk þolir ekki að þú minnist á sjálfsmorð eða spyjir hvort það sé að fara að kúka, þá er það leiðinlegt hvort sem er og getur étið það sem úti frýs,. Þú þarft allavega ekki að bjóða því heim til þín, gefa úkraínst konfekt og móhító. (fokking lúxus)

 4. Jæja Siggi minn…þú ert bara hress heyri ég….búið að vera leiðindaveður hérna í DK. Hvað segirðu annars ? Hvuddnig gengur bissnisinn?

 5. Yfirborðshjal getur verið alveg ágætt og hef Ég oftar en ekki gerst sekur um að spurja þig hvernig gengur með fyrirtækið, það er kannski þessvegna sem þú hatar mig?

 6. Hetjan vill taka það fram að hann hefur fyrir löngu hætt öllum “átökum”. Skútan skal kafsigld með núverandi stefnu…

 7. Ég hlýt þá líka að vera ömurleg líkt og Pétur og MV þar sem ég spyr þig oft og iðulega hvernig bisnessinn gangi. Hvernig gengur bisnessinn annars?

 8. Þessi færsla var nú eiginlega ekki um hvort þið eruð ömurleg eður ei, meira um hversu illa fær ég er í mannlegum samskiptum. Ég þakka pent fyrir athugasemdir, tek ofan hausinn og hneigi mig.

 9. Þetta er ekki “the care bear stair” -Þetta er nojulestin… og samt eru allir búnir með , 10, 11 og 12? Skrítið, ha?

 10. Óskaplegt innilaust þvaður er þetta í ykkur öllum með tölu. Maður verður bara þunglyndur af því að lesa þetta einmitt þegar ég er að reyna að verða hamingjusamur.

  Það sakar ekki að geta þess að sönn hamingja er algjör skortur hamingjuleysi.

 11. Elskulegur faðir minn el viejo eða sá gamli farinn láta að sér kveða og magga allrabesta lætur ekki höf og álfur aftra sig í að skrifa athugasemdir eins og vindurinn. Guð er góður.

 12. Ég held að það sé bara náðargáfa að hafa ekki þennan eiginleika að taka þátt í tilgangslausu snatti og tjatti…

  Það hefur örugglega bjargað mörgum frá meðvirkum augnablikum þar sem samræður UM VEÐRIÐ e.t.v. þróuðust útí eitthvað eins og: HVERNIG GENGUR MEÐ GÆJANN/KONUNA SEM ÞÚ ERT MEÐ? Sem er geðveikt óþægilegt ef maður a) Er ekki lengur með viðkomandi
  b) Er ekki að meika viðkomandi gaur/gellu
  eða
  c)Finnst það einfaldlega ekki koma viðkomandi við (Getur verið út af alls) konar ástæðum..

  Ég seigi náðargáfa vegna þess að þeir sem ekki hafa þennan hæfileika neyðast í flestum tilfellum til þess að tala um viðkomandi hlut, án þess að hafa nokkurn áhuga á því og yfirleitt yfirboðslega seigja “fínt..Það gengur bara fínt..Jújú, við erum rosa hamingjusöm…( Á íslensku= BLAAAAHBLAAAAHHHBLAAAAAHGUBB)

  Ef maður getur ekki verið einlægur why the fuck bother?

  Og Sigurður..Það er fátt sem mér þykir eins skemmtileg eins og þegar þú brestur í söng…Keep it on 🙂

Comments are closed.