leiðindi.blog.is

Að ybba blogg er orðin þreytandi iðja. Samkvæmt nýjustu reglugerðum, skrifuðum og samþykktum einróma af moggabloggurum, á ritmál skrifað undir formerkinu blogg, að vera málefnalegt. Að skrifa um óumdeilanlega kosti þess að geta sogið sinni eigin spena, er ekki málefnalegt og bætir engu við þjóðfélagsumræðuna. Umræða þar sem grútskítugur ristill þjóðarinnar er skoðaður gagnrýnum rauðþrútnum augum almúgamannsins, sem hangir í pilsfaldi skítableðils sem hefur verið honum óvinveittur frá stofnun.

Að benda á að skapari himins og jarðar hefði getað komið í veg fyrir efnahagshrun með að gera graðpungunum Hannesi Smárasyni, Sigurði Einarssyni og vinum þeirra, kleift að veita sjálfum sér munngælur, er ekki við hæfi og skapar undirrituðum ekki þá eftirsóttu stöðu í bloggheimum að í hann sé vitnað. Ég get því ekki séð að ég eigi mikið erindi í bloggheima. Ég þarf ekki annað en að skoða bloggfyrirsagnir á blogg.gattin.is, eða eyjunni.is, til að sjá að jafn órökviss maður og ég, er best að pakka saman og fara að gera eitthvað annað, eins og kannski að sitja á kaffihúsum og tala digurbarkalega eins og hann hafi eitthvað til málanna að leggja.

Umræðan er þó alltaf eins. Hún gengur í hringi. Allir sem í henni taka þátt eru vissir um að hafa rétt fyrir sér. Hún byrjar á að einhver andmælir eða er sammála viðfangsefninu. Fjöldi fólks tekur undir. Hnuss, fuss, og allskonar fúkyrði. Á einhverjum punkti í umræðunni gerist einhver svo djarfur að skoða málið frá öðru sjónarhorni, oftar en ekki í formi samviskuspurningar. Einhverjir taka undir, en þeir sem ráku lestina, snúast gegn honum, persónugera málið og ata viðkomandi saur. Svona gengur þetta í 30-100 athugasemdir, þar til umræðan deyr út. Svo endurlífgast sama umræða undir nýrri fyrirsögn, og gengur fyrir sig með nákvæmlega sama hætti.

Svo fer fólk á námskeið til að læra að skrifa málefnaleg blogg, sem vitnað er í, og hátindur bloggara verður að fá teiknaða af sér mynd og blogga í nafni miðils, sem hringir í bloggarana sína til að skamma þá fyrir ómálefnaleg blogg.

Ég er hættur að skrifa blogg. Ég verð að finna eitthvað annað nafn á þetta.

3 thoughts on “leiðindi.blog.is”

  1. Ég skal gleðja þig með því elsku Segurður að þú hefur líklega aldrei skrifað blogg í þeim skilningi sem almennt er að finna í hauskúpum bloggþyrsts og sótsvarts almúgans.

    Það verður enginn gáfumenni af að graðka í sig bloggi það er ljóst!

  2. Mér finnst blogg oft vera eins og einhver viðbjóður sem stjórnmálamenn þurfa að skola frá sér en mega ekki láta vita að sé frá þeim kominn. Þetta er viðbjóður sem er skolaður út um pípulagningar sem rennur í gegnum fjölmiðla. En margt fer síðan þaðan í gegnum bloggara og er það er mesti viðbjóðurinn.

  3. Blogg er nú misjafnt eins og bloggarar eru margir. Moggabloggarar eru til dæmis drulla út í eitt.

Comments are closed.