Með ástvinum

Kosningavökunni eyddi ég með ástvinum. Þar voru samankomnir ég og allir persónuleikarnir mínir. Nokkuð merkileg samkoma það, þá kannski sér í lagi vegna þess að ekki eru persónuleikar mínir á eitt sáttir hvar þeir eru staddir í pólitík.

Guðlaugur tildæmis, sem er flokksbundinn framsóknarmaður; ekki sá hann mikla ástæðu til að gleðjast. Ég veit hann verður brjálaður þegar hann sér að ég hef skrifað framsókn með litlum staf; nóg var hann brjálaður fyrir. Að þurfa að drattast með þetta á bakinu. En sú mæða.

Nú, hún Valdís hefur engan áhuga á stjórnmálum, en hún er æst í franskar súkkulaðitertur með rjóma. Eyddi hún megninu af kosningavökunni í að nauða og heimta það af mér að ég bakaði eina slíka köku. Ég missti mig við hana, enda er hún alveg dæmalaust eigingjörn. Ég sagði henni svo rækilega til syndanna, að hún rauk út hágrátandi.
Mjög erfitt, því að þessi sjaldgæfi offitusjúkdómur hefur nánast lagt hana að velli, ekki bara í tvígang, ekki í þrígang, heldur í fjórgang. Ég verð þó að segja að mér létti þegar Valdís fór. Ég var búinn að reyna að seðja ofætuhungur hennar með þremur eplum, tveimur brauðsneiðum, hummus, túmat og appelsínusafa; allt kom fyrir ekki, hún gat ekki hamið sig. Hún hefur aldrei verið húsum hæf. Djöfuls leiðindi.

En Jón, hann var eyðilagður fyrir hönd Ómars Ragnarssonar. Hann Jón er alveg hryllilega meðvirkur. Hann má ekkert aumt sjá, þá tekur hann því svo ægilega persónulega. Og hvað hann vældi yfir Íslandshreyfingunni. Hann var að murka úr mér þann litla lífsneista sem ég vaknaði með.
“Hann Ómar er svo góður maður, hann á ekki þetta skilið”, volaði hann og vældi. “Þetta 5% mark er svo ömurlegt”, rödd hans titraði af harmi. Ég bað hann ítekað um að halda sér á mottunni, en allt kom fyrir ekki. Grátur gnístan tanna. Þvílík samkunda af vesöld og volæði.

En mikið finnst mér hann Steingrímur minn J. fallegur maður. Ég og Rebekka, erum harðsvíraðir fylgjendur Vinstri Grænna. Í hvert það skipti sem Steingrímur birtist á skjánum, kiknaði Rebekka í hnjánum. “Hann er svo yfirvegaður og svalur”, skríkti í henni. Ég tók undir það. Hann bar af, og ber af öllum höfuðpaurum stjórnmálaflokkanna.

Nú, má ég ekki vera að þessu. Ég sé að Lúðvík, er byrjaður að berja á Guðlaug. Ég þarf að stöðva þessi slagsmál, áður en þetta gillerí fer til fjandans.

2 thoughts on “Með ástvinum”

  1. Ég hefði gaman af því að sjá þessa Rebekku kikna í hnjánum…

    Hvernig er þetta svo, er þetta svona rokkstjörnu “kikn” í hnjánum eða er þetta svona kvikmyndastjörnu “kikn” ?

Comments are closed.