Róttækur heiðarleiki

Ég hef litla hæfileika til að taka þátt í þykjustuleik okkar fullorðna fólksins. Ég reyni þó eftir bestu getu að eiga sómasamleg samskipti við fólk; samskipti sem verða ekki til þess að mig langi til að sturta sjálfum mér niður um klósettið að þeim loknum. Samskipti eru mikil kúnst og útheimta alveg gífurlega orku. Þegar orka mín fer þverrandi er mér gersamlega um megn að taka þátt í þessari lygaþvælu sem 80% samskipta eru. En nú tel ég mig hafa fundið lausn á þessu hvimleiða vandamáli.

Um daginn horfði ég á This American Life, sem eru skemmtilegir og mjög innspírandi þættir sem mér áskotnaðist í stafrænum heimi. Í þætti númer tvö, er umfjöllunin: And Nothing but the Truth, og er um sálfræðinginn Brad Blanton og þerapíu sem hann er upphafsmaður að sem heitir: Róttækur heiðarleiki, og gengur út á að vera heiðarlegur í öllu því sem maður segir og gerir. Ekki þá bara í þerapíunni, heldur alls staðar í lífinu. Brad álítur að það sé eina leiðin til að öðlast frelsi.

Mörg okkar þykjumst geta státað af heiðarleika í lífinu, en þegar betur er að gáð þá erum við alltaf að reyna að selja hvoru öðru fríkkaða og stundum ósanna mynd af því sem við í raun og veru erum. Í Róttækum heiðarleika er allt látið flakka og engu haldið tilbaka. Þegar þú ert spurður hvernig þú hefur það, þá ber þér að segja sannleikann, hvort sem þú ert hræddur, reiður, glaður, graður, eða hvernig sem ástatt er fyrir þér. Eins mælist Brad til þess að maður segi öðru fólki sannleikann um það sjálft, eins og hann blasir við manni sjálfum .

Brad þessi Blanton, fór í framboð í sínu umdæmi, en náði ekki kjöri, þar sem hann lifir sjálfur eftir þessari hugmyndafræði. Hann var tildæmis spurður að því hvort honum væri hlýtt til U and S of the A, og hann svaraði að hann gæti ómögulega verið stoltur af því að vera ameríkani.

Í gær fór ég á kaffihús, sem þykir svosem ekki tíðindum sæta, nema fyrir það að ég hafði ákveðið að tileinka mér það sem ég veit um hugmyndafræði Brads.

Þar hitti ég stúlku sem ég var einu sinni skotinn í, en vildi mig ekki. Í staðinn fyrir að tíunda fyrir henni allt sem mér hefur áskotnast upp á eigin spýtur í lífinu – án hennar tilkomu – þá sagði ég henni í róttækum heiðarleika að ég hataði hana fyrir að hafa ekki endurgoldið mér ást mína. Ég sagði við hana, að enn þann daginn í dag, bæri ég kala til hennar hennar og að hún hlyti að vera illa gefin fyrir að gera sér ekki grein fyrir hversu mikill afbragðsmaður ég er. Einnig sagði ég henni að hún væri hóra og ég vonaði að hún dræpist og þegar væri búið að jarða hana kæmi ég valhoppandi með typpið mitt og pissaði á leiðið hennar.

Árangurinn lét ekki á sér standa, því eftir að hún rauk í burtu frá mér, tautandi fyrir munni sér einhvern óhroða, þá leið mér miklu betur í sálu minni. Ég var hamingjusamur glaður og frjáls innan í mér.

Eftir að hafa sagt við eina þjónustukonuna að hún væri feit og mætti missa nokkur kíló, og spurt aðra hvort hún hefði verið alin upp í Breiðholti, þá gekk ég léttur í lundu heim til mín blístrandi lítinn lagstúf.

Eckhart Tolle er maður gærdagsins, Brad Blanton er maður dagsins í dag.

Nú loksins, get ég mér um frjálst höfuð strokið.

6 thoughts on “Róttækur heiðarleiki”

  1. ég var búinn að segja þér þetta fyrir löngu, en það gat verið að það þyrfti einhver ömurlegur ameríkani að troða þessu ofan í kokið á þér til að þú áttaðir þig!

  2. Ef þú hyggst leggja stund á þetta í hvívetna þá er vænlegra fyrir þig að útvega þér afar fínriðna hringabrynju úr álblöndu til að ganga í næst þér – fólk hefur tilhneigingu til að reka beitt eldhúsáhöld inn á milli rifjanna á þeim sem fara svona gáleysislega með sannleikann!

    Það má jafnvel milda afleiðingar slíks gjörnings með því að staðhæfa að þetta hafi verið heilbrigð og óheft útrás fyrir særðar tilfinningar…

  3. Ég er búinn að vera að nota þetta kerfi hans Brads í nokkur ár og ég er mjög ánægður með árangurinn; ég á enga gervivini…

  4. Auðvitað er Alltaf best að segja sannleikann. Sannleikurinn er sagna bestur sagði afi alltaf.
    Þannig að ég ætla að prófa þetta næst þegar ég fer út á meðal fólks 🙂 kannski að það geti gefið af sér skemmtilegt samtal eða kinnhest, hvort sem kemur á undan.

  5. Ég trúi ekki að þú hafir sagt þetta. Ég held að þú sért að ljúga.

  6. Þessi framkoma er til fyrirmyndar og ég hef ákveðið að temja mér róttækan heiðarleika. Öll samskipti við fólk verða meira spennandi fyrir vikið.

Comments are closed.