Samskiptaglíma

Það er ekki hægt að segja að ég sé stórkostlegur mannþekkjari. Oftar en ekki les ég fólk vitlaust. Ég í barnslegri einlægni geri fastlega ráð fyrir að fólki gangi gott eitt til. Ég ósköp bágt með að ímynda mér að baki fagurgala blundi einhver annar ásetningur.

Svo má kannski segja að ég geri mér enga grein fyrir hvað fólki gengur til. Ég er ekkert sérstaklega góður í að sjá hvaða leiki mannskepnan leikur til að ná sínu fram. Það er þó ekki svo að skilja svo, að ég leiki ekki sjálfur leiki. Ég geri það eins og allir, ég er þó ekkert sérstaklega meðvitaður um það. Stundum vakna ég upp við það að ég er að leika einhvern leik, í þeim tilgangi að ná fram einhverju sem ég gerði mér ekki einu sinni grein fyrir að ég sóttist eftir.

Þegar ég átta mig á því, finnst mér ég svolítið kjánalegur.

Að þegja einhvern í hel, er tildæmis eitt gott dæmi um aumkunarverðan leik, sem ég hef gerst sekur um að leika. Leikreglur í þeim leik eru eftirfarandi: Ef á viðfangsefninu er brotið, þá öðlast viðfangsefnið/fórnarlambið þann rétt að refsa gerandanum með því að yrða ekki á hann, í minnst 4-7 daga. 4-7 dagar er notað hér eingöngu sem viðmið, en lengd þess sem ekki er á gerandann yrt, er breytilegur, eftir því hvaða voðaverk var unnið á heimilinu/vinnustaðnum. Það skiptir þá einu hversu þrúgandi andrúmsloftið á heimilinu/vinnustaðnum verður, gerandinn skal ekki virtur viðlits, sama hvað á bjátar.

Þó ódæðismaðurinn standi í ljósum logum, þá skal hann samt sem áður hunsaður. Ef þeim sem á er brotið, tekst að halda þetta út í áætlaðan tíma, þá hlýtur hann ómælda virðingu, og lausn sinna mála. Þetta fer þó mikið eftir, hvert brot gerandans er. Tildæmis, það að gleyma að fara út með ruslið, kostar minnst 4 daga. Að búa ekki um rúmið, þó svo að viðkomandi hafi verið beðinn um það fallega, 3 dagar.

Eftir að ég gerðist sjálfstæður atvinnurekandi, hef ég þurft að passa mig betur á fólki. Eins og fyrr segir, er ég í grunninn ekki mjög góður í að eiga við fólk, eða að átta mig á hvað fólk er í raun og veru að segja. Ég hef setið klukkutímum saman á fundum, með mönnum sem virkuðu á mig sem prýðismenn. En þegar öll kurl voru komin til grafar, voru þeir drulluháleistar.
Það vantar kannski ekkert upp á glæsilega framkomu, fögur fyrirheit, orðaskrúð og kjaftablaður um heilindi og heiðarleika, en þegar betur er að gætt er ekki til nein innistæða.
Leikreglur drullusokka í viðskiptum, eru breytilegar eftir því hvaða leikur er leikinn. Ég með takmarkaða reynslu, hef þó komist að því að í samningum er gott að hafa eitthvað á þann sem samið er við. Hafi maður hinsvegar ekkert á hann, þá skal gripið til einhvers og það gert að einhverju sem hugsanlega gæti lækkað rostann í þeim sem situr hinum megin við borðið. Skiptir þá engu hversu ómerkilegt það er, ef vilji er til er alltaf hægt að snúa því upp í eitthvað sem þykir ámælisvert, annaðhvort í samfélaginu, eða í því umhverfi sem glíman fer fram í.
Hafi maður eitthvað á viðkomandi, þá eru mun meiri líkur á að hægt sé að komast upp með allskonar óþverra, eins og að draga að gera samning, halda honum í óvissu, fá allt fyrir ekkert, borga honum ekki fyrir vinnu osfrv.

Svo lengi lærir, sem lifir.

Einn sólríkan dag ……………og…… þá……….svo…………og þá verður gaman.

3 thoughts on “Samskiptaglíma”

  1. Verst er þegar sá sem maður er að reyna að þegja í hel hringir í mann.

  2. Vá…Vá hvað ég er agalega glöð að þekkja þig Siggi minn, takk fyrir að vera svona yndislegur*
    Og mundu, frú Sigríður á ekkert í þig…Svona hlýr og skemmtilegur strákurinn..

    Áfram vinstri Grænir!

    Hihhiihiihiihiihii!

Comments are closed.