Sinfóníuhljómsveit lýðveldisins misþyrmt

Atli Heimir komst upp með að misþyrma Sinfóníuhljómsveit lýðveldisins fyrr í kvöld, – með renniskít sem hann lét hana dæla inn í hlustir uppástrílaðra góðborgara. Ég sé allavega enga frétt um að honum hafi verið skellt í gólfið í lok tónleikanna og hann sprautaður með rotskammt af Haldol , svo ég geri ráð fyrir að hann hafi komist undan með hlussufeitt egóið sitt. Elskuleg vinkona, bekkjarsystir og andlegur leiðtogi minn Magga Best dróg mig með sér á þessa tónleika, og kann ég henni bestu þakkir fyrir. Sinfóníuhljómsveitin er afskaplega glæsileg og þótti mér mikið til um. Hvernig Atli Heimir fær afnot af henni er mér hinsvegar hulin ráðgáta. Kannski hefur hann eitthvað á forstjóra Sinfóníunnar, ég tel það líklegustu skýringuna.

Þegar liðið er á sýninguna, fer ég að skima um eftir klarinett. Það er sama hvað ég skima og píri augun, ekkert klarinett virðist vera á sviðinu. Þegar ég er búinn að leita af mér allan grun, verð ég alveg skelfilega miður mín og dreg umsvifalaust þá ályktun að Sinfóníufólkið hafi haft veður af því að ég er að læra á klarinett og hafi því ákveðið að hætta tafarlaust notkun á því.

Ég horfi á Möggu, sem situr við hliðina á mér og tyggur Tópas. Ég ætla ekki að þora að nefna þetta, en get mig svo ekki hamið og hnippi í hana.
Magga mín Best, segi ég aumingjalega, einhver hefur kjaftað því í Sinfóníuna að ég sé að spila á klarinett, nágrenni mínu til ama og leiðinda og ákveðið þess vegna að klarinett sé gersamlega úr móð.
Magga mín Best, sem er vel gefin kona, hlær að mér og segir að þetta sé nú bara vitleysa í mér, að þeir þarna á efri pöllunum séu með klarinett. Nei, þeir eru ekki neitt með klarinett, segi ég með grátstafinn í kverkunum, þeim finnst klarinett vera ömurlegt hljóðfæri eftir að ég fór að blása í það. Það liggur við að ég rjúki bara út, en ákveð að gera það ekki, því þá þarf ég að fara í gegnum mannmergðina, og ég var búinn að koma auga á fullt af fólki sem mig langaði ekkert til að heilsa og brosa til.

Magga mín Best, lætur sem ekkert sé, og heldur áfram að tyggja Tópas. Allt í einu, eins og um galdra sé að ræða, tek ég eftir, ekki einu klarinetti, heldur tveimur. Ég verð ægilega glaður á örskömmum tíma og anda léttar vitandi af því að Atli Heimir fær að vera með klarinett, til að fullkomna djöfulsins garnagaulið sem hann samdi fyrir okkur íslensku smáborgaranna, eins og það var svo pent orðað í dagskránni.

8 thoughts on “Sinfóníuhljómsveit lýðveldisins misþyrmt”

 1. Getur hugsast að Þórkatla sá útsendari Sinfó?
  Hver drap klarinettið?

 2. http://www.musik.is/Pistlar/atli_heimir_11.06.94.html

  Þarna er grein frá ´94, þar sem þessa heims Sigurðar eru viðfangsefnið.

  Tónverk AHS aldrei náð til mín og ég man eftir því að hafa fleygt mér á útvarpstækið í æsku þegar boðið var uppá afurðir hans. Síðan þá hef ég ósjálfrátt forðast verk hans því mér hafa þótt þau óaðgengileg almúgafólki.

  EN! Atli Heimir Sveinsson hefur búið til yndisleg sönglög við ljóð sem henta vel barnsröddum.

  Og ég held að það standist enginn tannfelling sem syngur: ,,Þnert hörpu mín himinborna dís´´eða barnakóra með upphafinn svip sem syngja um svan á báru í orðastað Dimmalimm.

  http://www.kvak.is/textar/kveadeum.php
  http://www.kvak.is/textar/songurdim.php

  Nú skora ég á Sigurð Þorfinn að leika þessi lög fyrir okkur á rauða klarinettið þegar þar að kemur og leyfa okkur að njóta þess hér á síðunni.

 3. Siggi, gettu hvað. Þessi bloggfærsla þín var kopípeistuð af meðlim í hljómsveitinni og forvörduð á aðra hljómsveitarmeðlimi. Ég segi þér betur síðar hvernig hann lýsti þessari upplifun sinni af flutningnum. Atli Heimir gæti jú lesið bloggið þitt.

 4. Ég tek áskorun þinni Linda María, og spila þessa lög þegar rauða klarinettið er komið í höfn.

Comments are closed.