Staða: 13.110.- , matarvenjur og draumfarir

Í dag gerði ég stórinnkaup hjá feitu feðgunum, annar þeirra nú yfirlýstur glæpamaður. Ég spáði lítið í því hvað ég keypti með tilliti til verðs. Mikið af grænmeti og gnótt af ávöxtum. Ég er sólginn í Sól appelsínusafa og hirði ekki neitt um hvað hann kostar. Tómur eins lítra brúsi, stendur hér á borðinu til vitnis um það. Aldrei nokkurn tímann kaupi ég kjöt, né er ég áhugamaður um kjötát. Ef það væri ekki svona mikið ægilegt vesen, þá gerðist ég alger grænmetisæta, en einu skiptin sem ég borða kjöt er þegar ég er boðinn í mat. Ég kaupi einstaka sinnum fisk í fiskbúðinni á horni Óðins og Freyjugötu. Sú fiskbúð er sannarlega draumi líkast. Hún væri fullkomin í svart hvítu. Að skipta við hjónin þar, er eins og að ferðast aftur í tímann. Ég keypti þó oftar fisk af þeim þegar ég hélt Þórkötlu í gíslingu.

Fúllyndur afgreiðslumaður rukkaði mig um 7200.- krónur fyrir tvo kjaftfulla poka af gúmmilaði.

Dýrustu innkaupin gerði ég í Yggdrasil, en þar keypti ég stóra Tahini krukku, flösku af sítrónusafa, og rauðar linsubaunir, sem ég nota í indverskan rétt sem ég kalla: Gunnar Dahl. Fyrir þetta borgaði ég frú Yggdrasil heilar 1800.- krónur.

Að öðru.

Mikið afskaplega dreymdi mig fallega í nótt. Undanfarinn mánuð hafa draumfarir mínar verið einstaklega óskemmtilegar. Stundum þannig að mér hefur fundist ég vera að deyja. En í nótt vísiteraði Þórkatla mig í draumi, ásamt mjög alúðlegri manneskju. Þórkatla stökk í fang mér og manneskjan, sem ég þekki ágætlega, sagðist elska mig. Að vera elskaður, þó ekki sé nema í draumi, gerði það að verkum að ég vaknaði alsæll í morgun og valhoppaði glaður og reifur inn í daginn. Þess ber að geta að ekki var farið yfir nein velsæmismörk.

5 thoughts on “Staða: 13.110.- , matarvenjur og draumfarir”

  1. Farðu nú upp í Kattholt og taktu að þér einn yndisfagran kött, sástu aumingjana utan á blaðinu í morgun, alla þessa ketti á að drepa. Þegar þú ert kominn með köttinn heim hættirðu að pæla í svona leiðinlegum hlutum og draumar þín verða undurfagrir.

  2. Mig langar í einn af þessum gulbröndóttu í Kattholti.
    Gulbröndóttir kettir eru flottir karakterar, skv. eigin reynslu.
    Ég á einn 19 ára fress kominn frá Kattholti fyrir 17-18 árum, hann sat sem fastast hjá mér.

  3. leiðinlegt að segja þér að frú yggdrasill er ekki lengur til. núna fer allt til feitu feðganna.

  4. Stundum finnst mér þetta land alveg ógeðslega ömurlegt. Þá læt ég mig dreyma dagdrauma um minimalískt líf á Ítalíu.

Comments are closed.