Stefnumót og hvar á að staðsetja ástina

Fyrir þá sem eru þannig þenkjandi þá held ég að ein af áhrifaríkari leiðum til að öðlast betri skilning á lífinu sé með hjálp listsköpunar. Hvort sem maður er neytandi eða gerandi. Listformið skiptir mig ekki höfuðmáli. Ég álít ekki að eitt listform sé ofar öðrum, eins og tíðkast hjá þeim sem eyða öllu sínu þreki í að aðgreina sig frá einhverjum sem þeir telja sér ekki samboðnir. Ég verð þó að viðurkenna að ég er ekki mjög læs á ljóð. Þó ég einbeiti mér sérstaklega, þá í flestum tilfellum reikar hugur minn inn í minn eigin draumaheim þar sem alltaf er dansiball.

Kvikmyndalist er form sem ég hef verið hrifinn af síðan ég var krakki og þær myndir sem betrað hafa líf mitt orðnar æði margar. Ein af þeim er Magnolia leikstjórans Paul Thomas Anderson. Fáar (þó þær séu reyndar nokkrar) gera tilfinningalífi mannskepnunnar betri skil. Ég á mér nokkur eftirlætisatriði úr henni, en hér að neðan eru tvö þeirra. Persónur Magnolia spanna nokkuð marga liti í regnboga sálarinnar og reynist auðvelt fyrir mig að samhæfa jafnt með aumkunarverðustu persónunni sem og þeirri sem hefur til að bera flestu mannkostina.

[media id=202 width=520 height=244]
Fyrsta atriðið sýnir stefnumót lögregluþjónsins Jim Kurring og kókaínfíkilsins Claudia Wilson Gator. Claudia er viss um að þegar Jim kemst að því hvernig lífi hún lifir þá eigi hann eftir að verða henni afhuga. Hún leggur því til að þau láti af allri tilgerð sem fylgir hefðbundnum stefnumótum. Myndbrotið hefst þar sem Clauda kemur af klósettinu eftir að hafa sogið hressingarduft upp í nefið á sér.

[media id=203 width=520 height=244]
Quiz kid Donnie Smith, er ein af ömurlegustu persónum Magnolia, en samt svo dásamlegur. Í gegnum myndina gerir hann vonlausar og niðurlægjandi tilraunir til að finna sjálfum sér og tilfinningum sínum samastað. Í þessu guðdómlega atriði játar hann fyrir Jim, sem hann þekkir ekki neitt, að þrátt fyrir alla þá ást sem hann hafi að gefa, viti hann ekki hvar hann eigi að staðsetja hana.

Þvílíkt sælgæti.

2 thoughts on “Stefnumót og hvar á að staðsetja ástina”

  1. Já, Shortcuts var skínandi. Robert Altmann, ef ég man rétt. Ég ætla að ná í Ástríðufiskinn.

Comments are closed.