Vorhret í lofti

6661i.jpgÍ þessari bloggþurrkuntutíð, ætla ég að tefla fram tveimur útgáfum af tvö þúsund og sex hundruð mismunandi útgáfum, sem til eru af laginu Summertime eftir George Gershwin. Einnig er þetta fyrsta lag sem ég skammarlaust lærði að spila á klarinettið mitt sáluga, og því óumflýjanlega eftirlætis lag nágranna minna, sem mér er frekar hlýtt til, eins og lesendum er fullkunnugt um.

Ég hef einnig spilað Summertime á nýja rauða klarinettið mitt, sem ég hef komist að með vísindalegum aðferðum að er ekkert annað en sorphljóðfæri. Ég hef því pantað þriðja klarinettið, á ebay, og þetta skipti ákvað ég að eyða aðeins meiri pening í þetta áhugamál mitt. Ég spurði sérfróða menn um þessa tegund klarinetta, af gerðinni Selmer, en ég spyr yfirleitt ekki sérfróða menn um eitt né neitt, því ég þykist alltaf vita allt betur, þangað til ég kemst að því að ég er búinn að pissa í buxurnar. Þetta klarinett er úr viði, en hin tvö sem ég á fyrir, eru úr ömurlegu plasti. Ég hlakka gríðarlega til að fá það upp í hendurnar, því ég hef aldrei prufað að spila á almennilegt klarinett. Já, þá verður gaman.

Með vor í hjartanu kynni ég Summertime, úr byrjunaratriði myndarinnar Porgy and Bess:

[MEDIA=114]

 

Svo í flutningi hinnar gullfallegu og jafnframt steindauðu Janis Joplin:

[MEDIA=115]

 

Þetta er ekki eina skiptið sem ég hef skrifað um Porgy and Bess. Hér er færsla um P&B, og ferð mína til Ameríku, en nú vill svo skemmtilega til að ég er að hugsa um að skreppa til Ameríku um páskana, til að skoða Tvídrangana.

6 thoughts on “Vorhret í lofti”

 1. Þetta er nú þroskamerki að þú skyldir ekki hafa keypt nema 2 ónýt klarinett áður en þú leitaðir þér ráða manna(eða kvenna, það eru held ég til konur sem hafa vit á klarinettum líka) sem hafa eitthvað vit á klarinettum.

 2. Til lukku með að hafa BARA þurft að gera sömu mistökin tvisvar áður en þú spurðir ráða, ég geri þau stundum miklu oftar án þess að biðja um hjálp, en nóg um það 🙂
  Janis Joplin útgáfan er betri af þessum fyrstu 2 sem að þú hefur sett á netið.
  Hlakka til að fá fleiri útgáfur af þessu lagi.
  Til hamingju með að vera búinn að kaupa nýtt klarinett.

 3. Kannski er það bara svarið. Ef þú spilar bara hátt og snjallt á klarinettið og um leið kynnir nágrannana fyrir æðri listum og stórvirkjum mannsandans og leiðir þau á þína braut, andlega braut sem er hafin yfir snudd og tudd smáborgarana, þá kannski hætta þau að finna til þessarar sífelldu þarfar til að hnoðast hvert á öðru, daginn út og inn. Mundu Sigurður minn að þetta er ekki viðkvæmar, listhneigðar sálir eins og þú, sem spyrja sig á hverjum morgni “Hef ég gengið veginn til góðs?” Þetta er óbreytt almúgafólk sem hefur aldrei heyrt um Devandra Banhart og heldur að Deepak Chopra sé rappari.
  Þú verður að bjarga þessu fólki upp úr feni neysluhyggju og hömlulauss kynlífs.
  Leyddu þau í átt að ljósinu…

 4. Í bandprjónsmeðferð með þau – umsvifalaust!

  Svo verður gerð bíómynd um þau og Sigga – svona í svipuðum dúr og um konuna sem tók hann Tim að sér.

  Þau eiga eftir að finna sig í Eliot og Joyce, fráhverf kynlífi, og koma til með að skilja eftir sig ómetanleg alþýðulistaverk á bókfelli.

  Fostradamus! Ó,Fostradamus! Ég tárast af gleði yfir húmanísku innsæi þínu.

  ..annars var ég búin að heita því að hætta að dylgjast(as in dólgur)á þér Sigi minn. En það er með það eins og annað – ein setning í einu…

 5. við þetta er ýmsu að bæta en engu sem tjáandi er í textaformi. Vona innilega að nýja klarinettan þín afli þér ævarandi hamingju og lífsviðurværis. (Talaðu við mig áður en þú hendir hinum, ég væri alveg til í að eiga eina nettu sem má atast í).

Comments are closed.