Kjölturakkar

Mér er það minnistætt, hérna endur fyrir löngu. Á þeim tíma þegar lífið var í svart hvítu og allt var mun betra en það er núna. Þegar ég var hluti af heild. Þegar ég réri ekki einn fleyi mínu í lífsins ólgusjó. Þegar mér var vel tekið sem manni á uppleið í samtökum iðnaðarins.

Mér er það hugleikið þegar ég sat þessa fundi. Ég get ekki fyrir mitt litla líf sagt að mér hafi fundist ég vera vel staðsettur í lífinu. Og þegar ég hugsa þetta aðeins lengra, þá hef ég kannski aldrei verið vel staðsettur hvar í andskotanum sem ég hef verið.

Ég hef prufað að vera innan um mjög ólíka menningarhópa. Þegar ég var í gyðingalandi í hebreskuskóla með amerískum gyðingum, þá gekk allt út á það að vera gyðingur. EKki er ég gyðingur. Samt sat ég þarna með gyðingum í einhverjum gyðingaskóla, að rembast við að samhæfa með fólki sem átti sér allt annan bakgrunn en ég. Ég gaf mig ekki út fyrir að vera gyðingur. Ég var þarna staddur til að læra hebresku. Ég var hugfanginn af landi og þjóð og vildi vita meira út á hvað þetta gekk. Ég veit samt ekki nákvæmlega hvers vegna. Það er margt í mínu lífi sem ég kann enga skilgreiningu á.

Þegar óhjákvæmilega ég neyddist til að starfa hjá akademíunni, fann ég satt best að segja aldrei fyrir því að ég væri kominn heim í hlað. Eins og ég segi, ég sat þarna bara einungis vegna þess að ég hafði ekki neinar betri hugmyndir um það hvað ég ætti að gera í þeirri stöðu sem ég hafði svo sannarlega komið sjálfum mér í. Hvernig sem það útleggst. Þá á seinni kafla lífshlaups míns, hafði ég allar þær upplýsingar sem ég þurfti til að taka betri stefnu í lífinu. Samt sem áður kaus ég meðvitað/ómeðvitað að halda áfram að haga mér eins djöfuls fífl.

Mér hefur ekki fundist mér vera upphefð í því að kalla mig meðlim í félagasamtökunum. Ég hef aldrei verið hress. Ég hef ekki verið álitinn stuðbolti, hvar svo í andskotanum sem ég hef verið niðurkominn. Ég get ómögulega fengið það af mér að gelta og ýlfra yfir því þegar einhver segir eitthvað sem allir eiga (einungis vegna þess að þeir stunda sömu samkomu) að samhæfa með.

Jú, ég veit hvernig í pottinn er búið. Ég veit hvers kyns er. Það eitt og sér gerir það ekki sjálfkrafa að verkum að ég hugsi og tækli allt sem ég þarf að takast á við á sama máta og allir hjá félagasamtökunum. Ég sé engan sérstakan mun á þessu og öðrum hópum þar sem öllum mannlegum tilfinningum er safnað saman í einn sarp, sem er meðhöndlaður á einn ákveðinn máta sem virkar fyrir alla sem gelta og ýlfra í hvert skipti sem einhver segir eitthvað sem 90% af mannkyni gæti þess vegna samhæft með.

Skiptir það mig máli hvort einhver sem les þetta skilji hvað ég er nákvæmlega að tala um. Nei, nákvæmlega engu. Ég skrifa þessa veflóka undir rassgatið á mér mér mér. Mér er fokk off sama hvað hverjum finnst um það. Ég man að um páskana tók sig einhver til úr samtökum iðnaðarins og skeit í athugasemdakerfið mitt fína og prýðilega, vegna þess að viðkomandi tók færsluna persónulega til sín. Ég fæ ekki skilið hvers vegna. Það kann að þykja fínt að setja sig á stall innan félagasamtakanna sem andans maður, vafra svo um vefinn og svívirða aðra fyrir það að vera ekki jafn andlegir og viðkomandi. Ég get sagt það strax, að frekar vill ég bara skíta í buxurnar heldur en að öðlast þau andlegu forréttindi.

Philip Seymour Hoffman

Án efa fallegasta parið í Hollywood. Já, ég les stundum um fína og fræga fólkið. Ég er aðdáandi Philip Seymour Hoffman og hef verið í nokkur ár. Útslagið fyrir mig var leiksigur hans í Love Liza þar sem hann lék mann heltekinn af sorg, eftir sjálfsmorð eiginkonu sinnar. Ég hef síðan þá gert mér far um að sjá allt sem hann leikur í. Ekki eyðileggur fyrir að hann hefur verið án áfengra drykkja og subbulyfja í rúman áratug.

Svo mörg voru þau orð.

Ég var langt kominn með veflók um það hversu mikið ég hata Colin Farrell, en í stað þess ákvað ég að hrista fram úr erminni þetta þrekvirki mannsandans eins og ég kýsa að kalla þennan veflók.

Það þykir eðlilegt þegar mannskepnan hampar þeim sem hún telur sig eiga mestu samleið með. Þetta er tíðkað í öllum minniháttarhópum. Ég heyrði gyðingana tala mikið um það hverjir væru prýðisgyðingar. Einnig heyrði ég geðsjúklingana nefna heimsþekkta geðsjúklinga á nafn. Útbrunnir drykkjumenn eru engir eftirbátar hvað þetta snertir.

We all know that people are the same
wherever you go
There’s good and bad in everyone
We learn to live, we learn to give each other
What we need to survive
Together alive

Allir saman nú!

Þögn

Ég sat með fyrirfólki og snæddi hádegisverð á einu af því mest hipp og kúl veitingastað sem er að finna í menningarborginni Reykjavík. Þennan veitingastað sækja flottasta og frægasta fólkið á þessum guðdómlega ísklump.

Ég man að fyrir 6 árum síðan sótti ég barstaðinn Hland Rokk á smiðjustíg. En guð sé oss næstur hvað ég sjálfur er orðinn fínn og flottur. Þarna sat ég og talaði digurbarkalega um verðbréf, bókmenntir og það fínasta og flottasta í tískunni.

Ég hef orðið var við að það er talsverð kúnst að halda samræðum lifandi, en þetta er farið að leika í höndunum á mér. Ég finn fyrir því að ég er alveg öruggur svo lengi sem að það er aldrei þögn, hverjar svo sem aðstæður eru. Þetta getur reynt töluvert á. Ég þarf tildæmis að gera mér upp töluverðan áhuga á öllu því sem er talað um, og ég er orðinn soldið æfður í því.

Í dag kom upp óþægileg þögn af þeirri tegund sem getur gersamlega lagt einn svona hádegisverð í rúst. Klukkan tifaði og enginn sagði neitt. Sumir þóttust beina allri sinni athygli að því að borða eða súpa á drykkjum. Ég sjálfur var byrjaður að svitna. Við vorum búin að tala um allt sem skiptir máli í þessum heimi, sem er Magni og Rock Star, nýjasta tíska, hversu vel Nylon klúbbnum gengur í útlöndum og svo hver er að skrönglast á hverjum.

Ég greip þá til þess bragðs að brydda upp því í hversu nýstárlegu íláti salt og pipar er borið fram á þessum fína og flotta veitingastað. Mér alls ekki til mikillar furðu upphófust miklar spekúlasjónir um það hvernig þessu væri háttað. Spjallið vék því næst að öðrum kryddtegundum eins og MSG, sem er svo gott að það ætti bara hreint og beint að vera sett í drykkjarvatnið.

Þessi hádegisverður var mér mikill lærdómur. Og ég sem hélt að ég þyrfti að fara að splæsa í Dale Carnegie námskeið.

Ó, nei.

Ég er samskiptakóngurinn í þessu undarlega máli.

Regína mín Spektor

Guð sé oss næstur hvað hún er mikið fyrirtak hún Regina mín Spektor. Þessi rússneska yngismær. Ég hef ákveðið að gera við hana kaupsamning. Ég vill eiga hana sem kvonfang. Alveg þangað til að stóra feita kellingin flautar lítinn lagstúf.

Ég hef undanfarna daga, milli þess sem ég hef drekkt sjálfum mér í allri þeirri slæmsku sem maðurinn tekur sér fyrir hendur, hlustað á hana Regínu mína af mikilli áfergju. 10 Júní þann síðastliðinn gaf hún út nýja fína plötu sem ber nafnið BEGIN TO HOPE og þar er ekki um neinn sora að ræða. Mæli ég sérstaklega með laginu Aprés Moi.

Þegar ég var staddur í Philadelphia hérna um árið hélt hún tónleika. Ég því miður sá mér ekki fært að fara á þessu fínu tónleika, því ég var of upptekinn við að láta konu nokkra rífa úr mér hjartað, skeina sér með því og sturta því niður. Það er fátt eitt eins frískandi og að opinbera tilfinningar sínar og uppskera hráku í andlitið. Það kemur blóðinu umsvifalaust á hreyfingu.

Jæja, farið hefur fé betra.

The smartest guys in the room

Eins og sjá má á skrifum mínum undanfarna daga er illt í efni. Ég geri þetta reglulega. Endrum eins þegar ég þarf nauðsynlega á því að halda að dreifa huga mínum, marinera ég sjálfan mig upp úr þykkum og súrum legi heimsmála. Ég er ekki að ýkja. Síðust fjóra daga er hef ég legið fyrir á alnetinu prýðilega og lesið mér til óbóta um það hvernig allt er að fara til helvítis. Ég læt ekki þar við sitja heldur horfi ég á samsærismyndir eins og ég sé að keppa í maraþoni. Ég er reyndar búinn að sjá tvær andskoti góðar, ein þeirra heitir Why we fight og hin Enron: the smartest guys in the room. Báðar þessar myndir eru um græðgi og illsku mannkynsins og ég get mælt með þeim fyrir þá sem hafa áhuga á heimsmálum eða vantar vatn á þunglyndismyllu sína. Ég get ekki séð að ég sé betur settur þó svo ég fari og fati mig upp samkvæmt nýjustu tísku, eða taki virkan þátt í hinum svokallaða glaumi og gleðskap Reykjavíkurborgar. Ég held ekki að lausn mín sé falin í því að láta laga á mér nefið eða græða í mig hár. Ég held hinsvegar að ég megi aðeins draga úr fréttalestri, bara rétt til að ég verði ekki brjálaður úr svartsýni og vonleysi.

Yonatan Shapira

Samkvæmt 800 manna úrtaki er öll ísraelska þjóðin sögð vera hlynnt aðgerðum hersins í Líbanon, eða um 95%. Ísrael telur einungis u.þ.b 7 milljónir manna. Ég veit ekki mikið um það hversu hátt hlutfall af hóp þarf til að ákvarða það að hópurinn í heild sinni hafi tekið einhverja ákveðna afstöðu gagnvart því er spurt er um. Ég veit hinsvegar að í fréttamiðlum hérlendis og líka erlendis hefur ekki borið mikið á umfjöllun um þá ísraela sem hafa haft hugrekki til að berjast gegn stefnu ísraelshers sem og ísraelsstjórnar.

Fréttaflutningur er vægast sagt einhliða og oftar en ekki ísrael í óhag. Ég er ekki persónulega fylgjandi því sem er að gerast fyrir botni miðjarðarhafs og ég óttast ekki að viðurkenna að ég er ekkert minna en uppfullur af viðbjóði yfir því hvernig ísraelsstjórn er að sigla með ísrael og heiminn langleiðina til helvítis. En að halda því fram að hjörta ísraelsmanna slái í takt í þessari vitfirru sem á sér þarna stað er grunnhyggja.

Á þeim tíma sem ég dvaldi í ísrael þá kynntist ég Ben, gyðingi frá Þýskalandi sem hætti í hernum og fluttist aftur heim til Þýskalands vegna þess að hann uppástóð að hegðun gyðinga í ísraelsher væri engu betri en hegðun nasista í seinni heimstyrjöldinni.

Ég eignaðist fleiri ísraelska vini sem voru mótfallnir stefnu stjórnvalda. Móti herteknu svæðunum. Móti hernum. Móti herskyldu. Í dag heyrði ég í manni á útvarpsstöð sem heitir Yonatan Shapira. Hann og félagar hans voru háttsettir í ísraelska flughernum þegar þeir ákváðu að þeir vildu ekki vera þátttakendur lengur í þessum viðbjóði. Hann og 27 aðrir hermenn í flughernum einfaldlega neituðu að sinna skyldum sínum. Ég heyrði hann eiga í orðaskaki í dag við landa sinn, um að hernaður væri ekki lausn mála þarna. Hann sagði einnig að þetta væri vítahringur sem fólk lifði og hrærðist í. Það væri enginn munur á þeim sem framkvæmdu hryðjuverk og þeim sem hefndu fyrir hryðjuverk. En þannig gengi þetta fram og aftur, og fólk væri orðið samdauna þessu.

Það eru fleiri ísraelsmenn og gyðingar um víða veröld sem fordæma aðgerðir ísraelsstjórnar. Mér þykir það sorglegt þegar heil þjóð og kynþáttur er úthrópaður, rétt eins og allir séu á sama máli. Rétt eins og þegar allir ameríkanar eru stimplaðir fábjánar, aðeins vegna að þar við stjórn eru mestmegnis fábjánar.

Ég persónulega vona að ég sé með óþarfa áhyggjur um atburði síðastu tveggja vikna. En ég óttast það sem er að gerast þarna. Ég að sama skapi tek þetta nærri mér. Ég tek nærri mér að öll þessi börn þurfi að deyja vegna þess að viðurstyggileg mannskepnan hefur þörf fyrir að láta frumhvatir stjórna því hvernig hún tekur á málum.

Viðtal við Yonatan Shapira.

Total eclipse of the heart

Er ég vafraði um töfraheima alnetsins rakst ég á sönglagatexta sem minnti mig óþyrmilega á ömurleg unglingsár mín. Tónlistarmaðurinn sem á þennan texta heitir Bonnie Tyler og var afar vinsæl þegar ég var að umbreytast úr krakkaskrípi yfir í alvöru karlmenni.
Lagið, Total Eclipse Of The Heart. Á þeim tíma sem ég hélt einna mest upp á þetta prýðilega lag, var ég staddur í bekkjaferð með einu því almesta samansafni af sorpi sem skipað gat einn grunnskólabekk. Hafi innræti bekkjasystkina minna verið einhver vísir þess hvernig manneskjur þær kæmu til með að verða á fullorðinsárunum. Þá get ég fullyrt að lukka mín væri mikilfengleg ef ég þyrfti aldrei að bera þau augum aftur svo lengi sem ég lifi.
Ég verð þó viðurkenna að það er ein og ein persóna úr þessum bekk sem ég ber hlýhug til og finn ég fyrir þeim hlýhug þegar ég er búinn að leggja talsverða ástund á andlega iðkun af þeim toga sem ég tel tilheyra tískunni á hverju tímabili fyrir sig.

Þetta er reyndar ekki alveg sannleikanum samkvæmt því það er ein manneskja úr þessum bekk sem mér þykir ósköp vænt um, og kostar það mig enga sérstaka áreynslu.

Á þessum tíma í fortíðinni þegar allt ku hafa verið miklu betra en það er núna. Í þá gömlu góðu daga er oft talað um, þannig að það hlítur allt að hafa verið miklu betra en það er núna. Er ekki svo? Allt er kannski miklu betra en það er núna, skiptir einu hvort það á sér líf í fortíð eða framtíð.
Allavega. Í þessari ferð lærði ég að reykja. Mér þótti það tilkomumikið. Ég hef nákvæmlega enga hugmynd um það hvers vegna mér þótti það tilkomumikið, því nú til dags finnst mér ekkert kjánalegra en að reykja. Þá meina ég ekki neitt af því sem maðurinn treður inn í vit sér er tilgangslausara en sigarettureykur.
Ég get vel skilið að fólki finnst gaman að drekka sig fullt eða hrúga í sig eiturlyfjum. Að reykja er hinsvegar ekkert gott, lyktar ógeðslega og er öllum til ama og leiðinda.

Fullt fólk getur hinsvegar verið sérstaklega skemmtilegt, eða ég hef ekki orðið var við annað hérna fyrir utan heimili mitt um hverja einustu andskotans helgi. Þrátt fyrir það hvað mér finnst ömurlegt að reykja, reykti ég í 17 ár.
Er bekkjarferðinni var lokið, lokaði ég mig af í svokölluðu myrkraherbergi til að framkalla ljósmyndir. Af kassettu spilaði ég lagið Total Eclipse Of The Heart og söng hástöfum með. Þetta var æðisgengileg stund sem ég átti þarna með sjálfum mér.
Þess ber einnig að geta að á meðan ég hef skrifað þennan tilgangslausa veflók hefur lagið hljómað í hausnum á mér. Það er svona vont/gott. Samt meira gott en vont.

Sandkassinn

Það er mikið við að vera í sandkassanum þessa daganna. Eitthvað hefur farið úrskeiðis í uppeldinu á villingunum í henni Palestínu fínu og fallegu. Og hvernig er heimilishaldi eiginlega háttað hjá pörupiltunum í hinum sívinsæla félagsskap Hezbollah. En prúðmennin í Ísrael eru alltaf til fyrirmyndar, nema þegar þau eru hreint og beint lögð í einelti.

Já, einelti segi ég. Gyðingar hafa verið hundeltir í gegnum söguna. Sorg og angurværð er orðinn óumdeilanlegur hluti af þeirra samfélagi. Hver man ekki eftir helförinni skelfilegu sem ætlaði allt um koll að keyra hérna um árið. En nú er þeirra tími kominn. Nú er búið að gera svo mikið á hlut Hebrea að þeir eiga orðið talsverða innistæðu. Þeir eiga orðið kvóta upp á u.þ.b 6 milljónir mannslífa. Nú verður tekið til hendinni í sandkassanum.

En við þurfum ekki að óttast því að flautaþyrillinn og skellibjallan hann Bush er að redda þessu. Guð sé lof. Þarna held ég að fari einn sá almesti helvítis fokking hálfviti mannkynssögunnar og hefur þó verið nóg um samkeppni. Það verður gaman og gagnlegt að fylgjast með hvernig hann beitir sér í þessu blóðbaði sem á sér stað fyrir botni miðjarðarhafs.
Við getum líka verið þakklát fyrir félagsskapinn Ísland-Palestína, því það er félagsskapur sem hefur tekið afstöðu í máli sem einfaldlega er ekki hægt að taka afstöðu með eða á móti. En þeim hefur tekist það engu síður. Þeir ætluðu í góðmennsku sinni að gefa fötluðum hryðjuverkamönnum smá aur fyrir vélbyssum og handsprengjum, en voru stöðvaðir af.

Þvílíkur heimur leyfi ég mér að segja. Einhver sjálfshyggjurunkprinsinn særir egó einhver annars sjálfshyggjurunkprinsins og hundruðir óbreyttra borgara liggja sundurtættir í valnum.

Mannskepnan er viðbjóður.

Ég óttast ástandið í heiminum um þessar mundir. Jú, vissulega er ástandið alltaf slæmt, en svona slæmt hefur það ekki verið lengi. Snertir þetta íslendinga og afkomu okkar á einhvern hátt. Já, vissulega. Efnahagskerfi okkar stendur og fellur með öllu því sem gerist í heiminum. Ef það upphefst þriðja heimstyrjöldin þá verður kreppa og mengun líka á Íslandi. En nú ætla ég að skreppa afsíðis og fá eitt stykki taugaáfall, bara rétt til að koma blóðinu á hreyfingu.

Magni

Ég tek aftur orð mín um hann Magna okkar. Hann virðist vera prýðispiltur. Hann er ekki sú viðurstyggð sem ég hélt hann væri. Nei, þvert á móti.
Það liggur ljóst fyrir mér að ég á nokkuð til af hleypidómum. Ég hef þó margsinnist sæst á það með sjálfum mér að ég sé að öllum líkindum vandfundið eintak af öðlingi. Ég er jú þekktur fyrir það að vera opinn og yndislegur. Það kann að koma fólki á óvart en ég er ekki að komast að því í fyrsta skiptið að ég hafi á röngu að standa. Ég er reyndar þegar ég fer að hugsa um það er búinn að ganga á nokkuð marga veggi með sjálfan mig á undanförnum 6 árum. Ég get þó sagt heilshugar að í mér er engin eftirsjá. Kreddum mínum hefur fækkað töluvert á þessum tíma. Ég á þó nokkrar eftir. Ein af þeim er sú að ég hef aldrei komið til Akureyrar. Fyrst um sinn var ástæðan fyrir því að ég hafði aldrei farið norður eftir einfaldlega sú að ég hef ekki átt neitt erindi þangað. Nú hinsvegar hefur þessi staðreynd vaxið með mér og breyst í trúarbrögð. Mér er orðið það mikið keppikefli að láta aldrei sjá mig á Akureyri. Þó það verði mitt síðasta skal ég aldrei stíga fæti inn fyrir bæjarmörkin. Þá meina ég aldrei. Ásetningi mínum skal ekki tekið af léttúð. Léttúð er mér mjög fjarri þegar ég hugsa um þessi mál.

Sögnin að sofa er falleg sögn

Ég er rétt í þann mund að fara að leggja ástund á eftirlæti mitt, sem er að sofa. Það er hafið yfir allan heimsins vafa að svefn trjónir á toppi athafna á vel ígrunduðum vinsældalista mínum. Það þarf ekki að koma neinum á óvart að athöfnin að vakna tel ég til þeirra athafna sem ég kann síst að meta. Þetta eru mistök sem ég geri nánast daglega. Allavega síðustu 6 ár. Það að vakna er undanfari alls þess sem miður fer hjá undirrituðum. Þetta gerist í eftirfarandi röð. Fyrst vakna ég. Svo neyðist ég til þess að eiga mannlega samskipti annaðhvort í gegnum síma, eða augliti til auglitis. Síðan loka ég mig inn á klósetti til að fá frið um stund. Drekk nokkra kaffibolla. Þykist vera ógeðslega hress. Syng nokkrar laglínur til að undirstrika gleði mína. Held því næst heim á leið. Bíð í nokkrar klukkustundir eftir því að geta farið að sofa. Hringrásin endurtekur sig síðan næsta dag öllum sem hlut eiga að máli til gagns og gamans.

RockStar

Ég er komast á þá skoðun að ég sé alveg töluvert meðvirkur. Þannig er mál með vexti að fyrr í dag komst ég yfir eppisóða í raunveruleikaseríunni RokkStjarna Súpunóva frá vikunni sem leið. Nú vill svo skemmtilega til að það er ekki stingandi strá á hausnum á mér. Það er ekki nóg til að ég geti mér um frjálst höfuð strokið því ég á risastóra samsteypu með portkonunni henni fröken Sigríði og aðeins er nú hárið farið að þynnast á henni. Það kemur ekki að sök, þar sem hún vekur mun meiri athygli fyrir gálu og glyðrulegt hátterni. Nú afhverju er ég að tala um hárgreiðslu. Eins og þjóðinni er kunnugt er íslenskur þátttakandi í þessum annars prýðilega sjónvarpsþætti. Hann er ekki með neitt hár á hausnum. Það er ekki kjarni málsins. Það fer honum Magna okkar afar vel að vera hárlaus. Ég efa þó að ég geti horft á þetta fyrr en það er búið að senda hann heim, sem ég er hálfpartinn að vona að gerist fyrr en seinna. Einfaldlega sökum þess að ég hef gaman af þessu sjónvarpsefni. Ég get rétt svo ímyndað mér að það sé erfitt að taka þátt í þessu. En því í andskotanum þurfti hann Magni okkar að taka þennan hrokapól í hæðina. Já, ég veit að það er auðvelt fyrir mig að sitja heima upp í rúmi og rífa kjaft, en sannleikurinn er nú sá að ég kem aldrei til með að koma mér í þessa stöðu. Ég kem aldrei til með að vera í sviðsljósinu og ég kem aldrei til með að hafa nokkra löngun til að bera mig opinberlega. Því þurfti hann að staðsetja sig á svona háan hest. Einn af bestu íslensku söngvurunum. Guð sé oss næstur. Hvaðan koma þessar hugmyndir. Ég verð þó að viðurkenna að ég hef ekkert fylgst með Magna til þessa. Hann veit ég hefur spilað með einhverri af þessum verslunarmannahelgarböndum sem kalla sig eitthvað sól. Ég vildi óska þess að hann hefði frekar spilað sig örlítið auðmjúkari. Það kann þó að vera að það sé honum gersamlega um megn. Það má líka vel vera að það séu hreinlega gerðar kröfur á hann að vera uppfullur af ógeðslega sjálfstrausti. Að vera stútfullur af sjálfum sér er ekki eitthvað sem ég tel til dyggða. Það má þó vera að þetta sé skökk niðurstaða hjá mér.