SiggiSiggiBangBang

Þegar einfaldir hlutir eru gerðir óskiljanlegir

Jan
07

Hóphugleiðsla er áhrifaríkari, en að hugleiða einsamall í regnvotum og köldum heimi. Gallinn við að sækja jóga- eða hugleiðslutíma hjá einhverjum sem gefur sig út fyrir að vera sérfræðingur á því sviði, er að oft fylgir með einhver leiðindarsannleikur sniðinn til að gera mann ruglaðan og jafnvel afhuga þessari snjöllu tækni til að þagga niður í kjúklingabúinu í efri byggðum. Ég get reyndar vel skilið að fólk sem sækir jógatíma vilji fá að hlusta á eitthvað kjaftablaður um hvernig heimurinn virkar osfrv. – en ekki ég. Ég er búinn að fá mig fullsaddan af fólki sem þykist geta útskýrt þessa tragíkómedíu sem gengur undir nafninu líf. Ég hef enga trú á að nokkur maður viti hvað við erum að gera hérna.

modern_talkingFyrir nokkrum mánuðum keyrðum ég og vinur minn á Opel bifreið minni yfir í annað bæjarfélag til að sækja hugleiðslunámskeið. Það var bjart yfir mér og ég fullur af áhuga. Ég hélt ég væri að fara að hugleiða með hóp fólks, en sat megnið af tímanum í stól og hlustaði á mann sem minnti svolítið á annan söngvarann í Modern Talking útskýra fyrir þeim er þarna voru, tilgang lífsins, hvers vegna við værum svona eins og við værum – og fleira í þeim dúr. Hann endaði með að láta okkur stara á glitrandi glingur og fara með möntruna: Ég er friðsæl sál. ….Herra minn! Ég er engin fokking friðsæl sál og þó ég tauti það fyrir munni mér þá verð ég það örugglega aldrei. Ég þarf varla að taka það fram að ég fór ekki annað námskeið þarna.

Stuttu seinna fór ég ásamt sama vini til að hitta jógakennara. Við sögðum honum frá því sem við höfðum reynt hjá Modern Talking söngvaranum. Hann fussaði og sagði að allt sem við hefðum lært hjá honum væri gagnslaus vitleysa. Svo hóf hann að rakka niður hinar ýmsustu jógabragðtegundir, meðan hann kynnti þær aðferðir sem hann sjálfur hafði tileinkað sér. Enn og aftur barst talið út í kosmósið áður en við tókum til við að hugleiða. Ég fór ekki í annan tíma.

Nú hef ég tekið málin í mínar eigin hendur, og reynt mátt hugleiðslunnar á eigin skinni. Trú mín á henni vex og vex. Ég veit að margar vísindalegar rannsóknir hafa verið gerðar á þessu dularfulla fyrirbæri. Ég geri mér þó grein fyrir að það sem telst til vísinda í dag, eru ekkert endilega vísindi á morgun.
Það er mikill munur á að hugleiða einn og með öðrum. Ég veit ekkert út af hverju, þó ég sé nokkuð viss um að einhver kunni flóknar og langdregnar skýringar á því. Staðreyndin er sú að mér er skítsama. Ég hef prufað hvoru tveggja og ég veit að það er rafmagnaðra að vera í hóp. Ég vildi að hér væri einhver staður sem hægt væri að fara og hugleiða með öðrum. Ég væri til í að geta komið þar við, og án þess að þurfa að blaðra einhverja yfirborðsþvælu gæti ég þegjandi klætt mig úr skónum, komið mér fyrir á stól, eða á dýnu og hugleitt í kannski klukkustund. Þar væri engum trúarbrögðum eða heimspekilegum kenningum troðið upp á fólk. Hver gæti notað þá möntru sem honum þykir þægilegust. Að klukkutíma liðnum klæddi ég mig í skó og valhoppaði sem leið liggur heim til mín.

Þetta var pistill um hugleiðslu.

Líkamsfita, karlmennska og virðing

Jan
01

Ég bætti á mig 6 kílóum á liðnu ári, og er nú orðin eins og stærri útgáfan af Oprah, en ég og hún eigum það sameiginlegt að þenjast út og dragast saman líkt og físibelgur. Þannig að á næstu tveimur mánuðum mun ég kosta öllu því sem ég á í að minnka umfang mitt hér á þessari jörð. Einkunnarorð mín eru: Því minna af mér hér – því betra!

Kílóaaukningunni vil ég ekki eingöngu kenna um hömlulausu áti, heldur varð ég fyrir þeirri ólukku rétt upp úr páskum að fá slæmsku í hnésbótina og þurfti þess vegna að hætta að hlaupa. Það þótti mér miður, því ég hef ekki enn fundið líkamsþjálfun sem ég elska meira en hlaup. Ég veit fátt meira frískandi en að setja á mig iPod, klæða mig upp eftir veðri og hlaupa 10-16 kílómetra.

Eitt og annað hef ég hug á að betrumbæta á nýju ári. Ég á mér tildæmis þann draum að verða karlmannlegri en ég er. Guð í himninum hefur blessað mig með nokkuð breiðu raddsviði, þannig að ég á til djúpa og karlmannlega rödd, þó svo ég noti mjúku röddina mína mun meira í samskiptum við annað fólk. Ef ég er dimmraddaður þá upplifir fólk mig ógnandi. Ég vil það ógjarnan, en ef það eykur á karlmennsku mína, læt ég mig hafa það.

Ég geri mér grein fyrir að ég þarf að gera ýmislegt annað en að dýpka í mér röddina til að koma fyrir eins og ég sé karlmannlegri en ég er. Ég er tildæmis alltaf flautandi og syngjandi eins og argasti hómóseksjúal. Menn sem syngja, dilla sér og flauta eru sko ekki karlmannlegir. Þeir eru bara fáranlegir og fáranlegur vil ég ekki vera. Þannig að ég er hættur að syngja, og hættur að flauta.

Til að rækta í mér karlmanninn ætla ég að taka upp á því að reyna við allar konur sem á vegi mínum verða. Ég ætla ekki að eiga samskipti við neinn af gagnstæða kyni án þess að troða typpinu á mér inn í þau samskipti. Það kemur í veg fyrir að ég eignist vinkonur sem tala við mig um grindarbotnsæfingar og hvernig best sé að hafa háttinn á þegar óhreinka skal karlmann – eitthvað sem þær myndu ekki nefna ef þær hefðu einhverja tilfinningu fyrir því að ég er gagnkynhneigður.

Einnig ætla ég að hætta að koma sjálfum mér í niðurlægjandi aðstæður. Ég hef örlítið fórnað virðulegri persónu minni fyrir grín og stundargaman. En nú dreg ég loku fyrir hátterni af því sauðahúsinu. Ég ætla að breyta þessu bloggsetri, og hér eftir skrifa ég eingöngu um þjóðfélagsmál og legg mig fram um að vera eins og fokking leiðinlegur og ég mögulega get. Með þessu öðlast ég þá virðingu sem ég sækist eftir frá meðbræðrum mínum. Ég get þá gengið um götur borgarinnar hnakkakerrtur, viss um að ég njóti aðdáun samborgara minna.

2008 var æðislegt, og þetta ár verður geðveikislega geðveikislegt.