Líkamsfita, karlmennska og virðing

Ég bætti á mig 6 kílóum á liðnu ári, og er nú orðin eins og stærri útgáfan af Oprah, en ég og hún eigum það sameiginlegt að þenjast út og dragast saman líkt og físibelgur. Þannig að á næstu tveimur mánuðum mun ég kosta öllu því sem ég á í að minnka umfang mitt hér á þessari jörð. Einkunnarorð mín eru: Því minna af mér hér – því betra!

Kílóaaukningunni vil ég ekki eingöngu kenna um hömlulausu áti, heldur varð ég fyrir þeirri ólukku rétt upp úr páskum að fá slæmsku í hnésbótina og þurfti þess vegna að hætta að hlaupa. Það þótti mér miður, því ég hef ekki enn fundið líkamsþjálfun sem ég elska meira en hlaup. Ég veit fátt meira frískandi en að setja á mig iPod, klæða mig upp eftir veðri og hlaupa 10-16 kílómetra.

Eitt og annað hef ég hug á að betrumbæta á nýju ári. Ég á mér tildæmis þann draum að verða karlmannlegri en ég er. Guð í himninum hefur blessað mig með nokkuð breiðu raddsviði, þannig að ég á til djúpa og karlmannlega rödd, þó svo ég noti mjúku röddina mína mun meira í samskiptum við annað fólk. Ef ég er dimmraddaður þá upplifir fólk mig ógnandi. Ég vil það ógjarnan, en ef það eykur á karlmennsku mína, læt ég mig hafa það.

Ég geri mér grein fyrir að ég þarf að gera ýmislegt annað en að dýpka í mér röddina til að koma fyrir eins og ég sé karlmannlegri en ég er. Ég er tildæmis alltaf flautandi og syngjandi eins og argasti hómóseksjúal. Menn sem syngja, dilla sér og flauta eru sko ekki karlmannlegir. Þeir eru bara fáranlegir og fáranlegur vil ég ekki vera. Þannig að ég er hættur að syngja, og hættur að flauta.

Til að rækta í mér karlmanninn ætla ég að taka upp á því að reyna við allar konur sem á vegi mínum verða. Ég ætla ekki að eiga samskipti við neinn af gagnstæða kyni án þess að troða typpinu á mér inn í þau samskipti. Það kemur í veg fyrir að ég eignist vinkonur sem tala við mig um grindarbotnsæfingar og hvernig best sé að hafa háttinn á þegar óhreinka skal karlmann – eitthvað sem þær myndu ekki nefna ef þær hefðu einhverja tilfinningu fyrir því að ég er gagnkynhneigður.

Einnig ætla ég að hætta að koma sjálfum mér í niðurlægjandi aðstæður. Ég hef örlítið fórnað virðulegri persónu minni fyrir grín og stundargaman. En nú dreg ég loku fyrir hátterni af því sauðahúsinu. Ég ætla að breyta þessu bloggsetri, og hér eftir skrifa ég eingöngu um þjóðfélagsmál og legg mig fram um að vera eins og fokking leiðinlegur og ég mögulega get. Með þessu öðlast ég þá virðingu sem ég sækist eftir frá meðbræðrum mínum. Ég get þá gengið um götur borgarinnar hnakkakerrtur, viss um að ég njóti aðdáun samborgara minna.

2008 var æðislegt, og þetta ár verður geðveikislega geðveikislegt.

9 thoughts on “Líkamsfita, karlmennska og virðing”

  1. Þú gerir bara það sem þér finnst þú þurfa að gera Siggi minn, en það breytir engu um það að þú ert ein fallegasta manneskja sem ég þekki, bæði innan og utan. Gleðilegt ár og takk fyrir okkar samskipti, þau hafa auðgað mig.

  2. Flott áramótaheit.

    Það er samt tvennt sem þú verður að hafa í huga í sambandi við áramótaheit: þau eru ekki eiginleg áramótaheit nema að þau a) komi á áramótum (þú sleppur með þetta) og b) þau komi frá stolti og virðingu.

    Þannig tíðkast að stíga á stokk og lofa bót og betrun út frá einskærri löngun til að bæta sjálfan sig. Það þykir ekki fínt að gera það út frá einhverjum aumingjaskap. Þannig er það ekki fínt að ætla sér að hætta að reykja af því að maður er feitur og hommalegur. Það er miklu fínna að ætla að hætta að reykja af því að það er komið nýtt ár.

    Til samanburðar er gott að miða við áramótaheit Núma Fannsker (sjá http://www.baggalutur.is/skrif.php?t=9&id=1557).

  3. Ég veit hvernig þú getur fengið dýpri rödd, byrjað að reykja tvo pakka af camel filterslausum á dag. Það gæti látið gelding hljóma karlmannlega.

    Gleðilegt ár

  4. Hjördís afhverju heldurðu að hann sé svona dimmraddaður?

  5. Þér mun a.m.k vegna mun betur fjárhagslega á árinu ef þú venur þig af því að blístra eins og graður snjótittlingur frá morgni & fram á kvöld, það geturu huggað þig við.

    Það er jú fátt karlmannlegra en fjárhagsleg velgengni ekki satt?

  6. Gleðilegt ár Siggi og takk fyrir skemmtilega pistla á liðnu ári.
    Ég fæ smá sting í magann þegar þú kemur með svona yfirlýsingar eins og þessa að þú ætlir eingöngu að fjalla um þjóðfélagsmál…. pah, eru ekki nógu margir leiðindagaurar sem gera það? Bloggið þitt er skemmtilegt og einlægt og ég vona amk. að þú standir ekki við það áramótaheit. Hvað holdafarið varðar þá hef ég ekki séð þig í eigin persónu, svo no comment. Eru ekki áramótaheit bara svolítið passé??
    Kveðja og takk fyrir pistlana
    Þórunn

Comments are closed.