Þegar manneskjan fyrnist

Á lífsleið minni hef ég fyrirhitt heila hjörð af fólki sem ég hefði helst aldrei viljað þekkja. Svonefndir viðbjóðar og drulluháleistar, sem ganga þessa jörð mér til ama og leiðinda. Þetta á sérstaklega við um skóla- og unglingsárin, þar sem ég fékk litlu eða engu um það ráðið hverja ég átti í samskiptum við. En nú hefur fæðst með mér enn ein tímamótahugsunin. Ég hef í rauninni aldrei hitt þetta fólk! Þetta fólk er ekki lengur til! Einstaka sinnum hefur orðið á vegi mínum einhver sem ég þekki úr fortíðinni. Suma finnst mér gaman að sjá, en aðrir eru þannig gerðir að ég vil helst aldrei rifja upp kynni mín af þeim. En nú er mér ljóst að tengsl mín við viðkomandi eru einungis huglæg og langt því frá að vera raunveruleg. Þetta get ég þakkað líffræðinni. Líkamsfrumur eru svo duglegar að endurnýja sig að á u.þ.b átta árum á sér stað svo mikil umskipting að með réttu er hægt að segja að maðurinn sé ekki sá hinn sami og hann var. Að hann sé nýr og vonandi betri maður. Þó mín reynsla sé að fúlegg verði einungis fúlari með aldrinum. Fúlari og fyrirferðameiri á þverveginn. Það má því segja að hitti ég einhvern sem ég hef ekki séð í rúm átta ár út á götu, þá þekki ég viðkomandi ekki neitt, enda ekki sama manneskjan. Þetta eru góðar fréttir fyrir mig og alla drauga fortíðar.

One thought on “Þegar manneskjan fyrnist”

  1. Sniðug pæling. Ég hef nefnilega heilsað mönnum sem ég hef þekkt áður en ekki hitt í eitthvað 10 ár og stundum er eins og menn hafi aldrei áður þekkst.

Comments are closed.