SiggiSiggiBangBang

Year of the hummus.

Jan
25

Á sama tíma og ég geri mér grein fyrir að utanaðkomandi aðstæður mínar stjórni ekki því hversu lukkulegur ég er í þessu lífi, keypti ég mér 2 matvinnsluvélar nýjum lífsstíl mínum til stuðnings. Nýja árið brosir við mér, ég hleyp, borða grjón, gras og baunir og les uppbyggjandi bókmenntir. Ef ég færi u.þ.b 6 ár aftur í tímann og hitti sjálfan mig, þá er ég hræddur um að hinn 29 ára gamli Siggi, hefði fengið óþverratilfinningu yfir þeim manni sem ég er í dag. Reyndar á þeim tíma hefði ég aldrei séð framtíð mína fyrir, ekki einu sinni í mínum villtustu órum. Í mínum augum var eitthvað að fólki sem að stundaði heilbrigt líferni. Það var þó ekki að ég hefði ekki viljað verða heilbrigður á líkama og sál, ég bara einfaldlega hefði aldrei trúað því að ég ætti eftir að verða að ósköp venulegum vísitölukrypplingi. En hvað er það svo sem gerir manneskju heilbrigða. Ef að manneskjur eru heilbrigðar afhverju gera manneskjur þá það sem manneskjur gera. Hvar er nemendaráð spyr ég? Hver á að þrífa sameignina þessa vikuna? Þegar ég á sameignina þá er allt þrifið á þann hátt að ekki er hægt að finna að því. Það er tví, þrí þurrkað úr öllum gluggakistum. Hver stendur eiginlega skil á þessu?

ET

Jan
20

Þess ber að geta að Eckhart Tolle er kallaður ET í enlightenment heiminum. Við hinsvegar sem sækjum sömu fundi höfum þann háttinn á að bæta við greini fyrir aftan nafn þess sem okkur líkar að öllu jöfnu (en þó ekki alltaf) vel við. Títt umræddur yrði þá kallaður héðan í frá Tolle-rinn.

Falleg tilvera.

Jan
19

Ég sýni honum Eckhart mínum elskulega Tolle mikla ósanngirni með að rífa úr samhengi þessa málsgrein sem mér fannst ein og sér sérstaklega viðeigandi. Heilindi mín endurspeglast ekki í þessum hræðilega verknaði. Ég bið þá sem eiga um sárt að binda vegna þessa um fyrirgefningu synda minna. Ég dreg hinsvegar ekki dul á að ég efa það svo stórlega að ég eigi eftir að lifa hefðbundnu lífi úr því sem komið er. Ég fæ ekki séð að mín bíði glæst jepparennireið, lítið sætt hús, óhamingjusöm kona(sem stundar umræðuþræðina barnaland.is af sérstökum metnaði) og krakkaskrípi með atferlistruflanir, sem eiga engra kosta völ en að éta spítt til að ná sér niður í vitfirrtu íslensku samfélagi. Ég sé það svo glöggt í hendi mér að ég hef bara engan áhuga á því að lifa þessháttar lífi. Ég hef orðið fyrir talsverðum hughrifum eftir lestur minn á bókinni The Power Of Now. Ég hef í kjölfarið ákveðið að afsala öllu því sem ég hélt að einkenndi mig og mína tilveru. Ekki ber þó að skilja það svo að Eckhart-inn sé mótfallinn því að verða ástfanginn, því fer fjarri.
Eckhart Tolle er mitt gúru um þessar mundir. Það eitt og sér markar tímamót í mína fallegu tilveru.

LastFm

Jan
15

Ég bendi þeim sem hafa sérstakan áhuga á tónlist á nýjustu snéðugheit alnetsins fína og flottta http://www.last.fm. Þess ber að geta að ég kalla mig þarna ssiggi, sökum þess að siggi var frátekin. Prófíl minn er þá að finna á vefslóðinni http://www.last.fm/user/ssiggi/
Þetta er snjöll leið til að kynna sér nýja tónlist.

The Power Of Now

Jan
07

The very thing that gives you pleasure today, will give you pain tomorrow, or it will leave you, so its absence will give you pain. And what is often referred to as love may be pleasurable and exciting for a while, but it is an addictive clinging, an extremely needy condition that can turn into its opposite at the flick of a switch. Many “love” relationships, after the initial euphoria has passed, actually oscillate between “love” and hate, attraction and attack.

Þetta tel ég hina mestu snilld. Eckhart Tolle er með þeim magnaðri.

Milano

Jan
02

Ferðalagi mínu til Milano fer senn að ljúka. Hér er mynd sem ég tók í miðborginni rétt fyrir blessuð áramótin. Það fer minna fyrir jólunum hérna en heima á Íslandi. Ég er ekki mikið jólabarn og kann því þessvegna afar vel.