SiggiSiggiBangBang

No Cars Go

Mar
31

Á nýju Arcade Fire geislaplötunni er aðeins eitt lag sem hægt er að hlusta á. Það er lagið No Cars Go. Þetta lag hefur allt sem prýða þarf sumarsmell. Í þvi er bæði “hey” og “vóvóvóvó”. Restin af Neon Bible er rusl. Eftir Funeral er þetta helaum tilraun til að viðhalda vinsældum. Ég viðurkenni, og ég skil að það er alveg fjári mikið fyrir því haft að endurtaka snilld á borð við Funeral. En þeim tókst það ekki.

When daddy comes home you always start a fight
So the neighbors can dance in the police disco lights
The police disco lights
Now the neighbors can dance
Look at them dance

Hvernig er hægt að endurtaka þetta. Ekki nokkur leið. Verður bara tilgerðalegt.

Ég er núna búinn að hlusta á No Cars Go tuttugu sinnum. Eftir u.þ.b 10 skipti til viðbótar, fæ ég ógeð, og þá er ég búinn að ákveða að hlusta aldrei á The Arcade Fire aftur.

Um miðnættið er ég að hugsa um að baka spelt brauð. Já, svona er nú gaman að vera edrú. En mér er alveg sama, þó það sé gay að baka spelt brauð. Þetta er mitt líf. Burt með ykkur. Já, svei.

Og þér finnst það bara í góðu lagi?

Mar
29

Ég er kominn í sumar- og sólskinsskap. Það er eins og verið sé að hleypa út beljum á vorin, þannig líður mér, eins og belju. Þegar ég er hamingjusamur glaður og frjáls, syng ég og tralla. Verður þá oft fyrir valinu Bubbalag, sem hæfir veðri og vindum. Lag vikunnar er að þessu sinni að sjálfsögðu “Sumarið er tíminn”.

Það er eitthvað á þessa leið: “Sumarið er tíminn trallallalla læ, með stúlkunni minni upp á Arnarhól, Ó jááá.” Þar á eftir kemur texti við viðlag, sem ég hef aldrei botnað í. “Þér finnst það í góðu lagi.” Þetta er endurtekið fjórum sinnum, þar til hann syngur “ójááhá”. Það er svo hvernig Bubbelíus syngur viðlagið, sem hefur verið mér ráðgáta, því þegar Bubbi syngur þessar línur þá hljóma þær eins og ásökun.

Ef ég ímynda mér hvað er að gerast í textanum, þá sé ég sjálfan mig að sumri til, allt er æðislegt, ég er ástfanginn upp fyrir haus upp á Arnarhól, meðan háð eru stríð og hungursneyð eykst, og mér sem þykir ekki vænt um neitt eins og rassaboruna á sjálfum mér, stendur slétt á sama og finnst það bara í góðu lagi? Það hinsvegar kemur ekki fram í textanum afhverju Bubbi hljómar eins og hann sé að ásaka hlustandann, fyrir að njóta lífssins, og vera ástfanginn. Það er ekki fjallað um hungursneyð og fjöldamorð. Það er ekki eins og sá er um er sungið, sé að brjóta á einhverjum með því að vera ástfanginn upp á Arnarhól.

En svo þegar ég fer að hugsa það, þá innihalda öll Bubbalög einhverjar ásakanir. Hvort sem lögin fjalla um ástina, guð og lystisemdir lífssins, alltaf er verið að brjóta á einhverjum. Það er rétt eins og það sé algerlega óviðeigandi að njóta sköpunarverksins, án þess að vera sakbitinn og hálf ómögulegur á sama tíma.

Kattalíf

Mar
27

Það gerðist aftur. Það sem ég óttaðist mest af öllu. Ég var á hraðferð þegar ég stormaði inn í húsakynni hins opinbera, beint í flasið á Sigurjóni Sighvatssyni, manni sem ég hef elskað og dáð úr passlegri fjarlægð. Ég fölnaði upp, þar sem ég stóð andspænis honum og áður en ég vissi af var ég búinn að pissa í mig.

Ég fékk ekkert að gert.

Ég stóð bara þarna fyrir framan hann og vætti pokabuxurnar mínar fínu og flottu, nýkomnar úr þvotti, straujaðar í bak og fyrir.

Fyrirlitningin leyndi sér ekki hjá þessum mikla meistara. Sjálfur framleiðandinn, af eftirlætis sjónvarpsþáttaröð minni, með hnignun mannskepnunnar ljóslifandi fyrir augum sér.

—————–

Ég held að það sé eitthvað yfirnáttúrulegt við ketti. Kettir vita eitthvað sem við mannfólkið vitum ekki, og þó svo við vissum það, væri okkar með öllu ókleyft að ná utan um þá vitneskju.

Ég fylgist grannt með uppátækjum Mefisto, og hann er í háttalagi, alls ekki ósvipaður E.T sem var og hét hérna um og upp úr 1980.

Það heyrir til undantekninga að Mefisto virði mig viðlits. Hann gersamlega hunsar mig, nema þegar svengdin sækir á hans hátign. Þá kallar hann í mig og fer þess á leit við mig að ég skammti honum dýrindis kattamat.

Á hinn bóginn, þegar ég er eitthvað niðurdreginn, eða veikur eins og um daginn. Kemur hann til mín, klessir sér fast upp að mér og malar, rétt eins og hann sé að sinna mjög mikilvægu verkefni, sem enginn annar geti innt af hendi.

Nú, þegar ég er frískur og FM98.9 hress, vill hann ekkert með mig hafa. “Nei, iss ég hef ekki tíma í að sinna þér. Ég þarf að redda hérna mikilvægum málum, rétt á meðan ég sef næstu 24 klst. Vertu ekki að trufla mig.”, segir hann og bandar mér í burtu með loppunni, fullur af yfirlæti.

Morgunblaðsveflókar

Mar
26

Ég fer u.þ.b 15-20 sinnum á dag inn á morgunblaðsvefinn til að afla mér fregna af því hver hafi drepið hvern. Hvernig henni Britney gangi í meðferðinni. Hversu margir hafi sofið úr sér í fangaklefum lögreglunnar, ásamt öðrum uppistöðuatriðum í menningarsamfélagi.

Nú er svo komið að það er einfaldlega ekki hægt að fara inn á morgunblaðsvefinn. Það er alveg sama hversu stór eða lítil frétt er þar birt, undantekningalaust er einhver snillingur búinn að láta í ljós skoðun sína á fréttinni á litla sæta moggablogginu sínu.

Viðbjóður segi ég.

Nokkrir af þeim bloggurum sem eru hvað einna duglegastir að skrifa einnar setningu athugasemdir(one liners) hef ég eytt mörgum árum í að reyna að gleyma, en svo fyrirvaralaust skjóta þeir upp kollinum á morgunblaðsvefnum fullvissir um að það sem þeir séu að skrifa, sé ótrúlega hnyttið og skemmtilegt. En nei. Hnyttnar og skemmtilegar eru þessar athugasemdir ekki, því fer svo fjarri. Ævintýralega ömurlegar, er nærri lagi.

Tökum dæmi. Fyrirsögnin er Ljósbláar kvikmyndir japansks leikstjóra í Fjalakettinum. Athugasemdin sem eyðileggur annars þennan prýðilega pistil kemur frá einhverjum sem heldur að hann sé ægilega fyndinn: “Nú truflast Femmurnar”. Eða þá fréttin um eftirlætið mitt hann Cliff Richards Laus við stjörnustæla , athugasemdin “Wahahhhahahahha”.

Ég læt hér staðar numið. Þörf minni til að pirrast yfir öðrum hefur borið þann árangur, að mér líður snöggtum skár. Ég hef það núna á tilfinningunni að ég sé mun betri en þessir moggabloggarafávitar. Þetta er tilfinning sem endist mér inn í draumalandið. Svo hinsvegar þegar ég vakna á morgun, þarf ég að finna mér eitthvað annað sem ég get bölsótast út. Það ætti að vera léttur leikur, ég er nefnilega að vinna hjá því opinbera á morgun.

Sá ég spóa in technicolor

Mar
22

Sá ég spóa suð’r í flóa, syngur lóa út í móa.

Bí, bí, bí, bí.

Vorið er komið víst á ný.

Ísl. þjóðlag / Höf. fáviti.

Já, blessaður veturinn er að verða búinn. Þá kemur vorið.

Þannig er það nú bara.

kíló

Mar
20

Ég er offitusjúklingur. Ég fæ ekkert að gert. Rétt eins og um galdra sé að ræða, þá blæs ég út eins og sautjánda júní blaðra, alveg fyrirvaralaust. Sérstaklega þó þegar ég er reglulega óhamingjusamur.

Undanfarna mánuði, hef ég talið nokkuð fleiri kíló, en ég kýs að tala um á mannamótum. Að vera 10 kílóum yfir kjörþyngd, er eitt það skelfilegasta sem ég get hugsað mér. Mér var nefnilega kennt það frekar snemma að feitt fólk er alveg síðasta sort. Viðhorf þau, hafa reynst mér vel í leik og starfi.

Að vísu hef ég fyrir vikið aldrei upplifað að ég sé temmilegur í þyngd. Ekki einu sinni þegar ég vóg 63 kíló, hérna í árdaga, þegar allt virtist miklu betra en það er núna. Kannski aðallega vegna þess að ég vissi ekki betur.

Ég tek eftir fólki eins og mér. Fólk eins og ég, ásamt henni Opruh mín, þar sem öfgarnar leyna sér ekki. Þá á ég ekki við fólk sem er bara alltaf feitt, og það er ekki hægt að merkja neinn sérstakan mun viku til viku. Heldur fólk sem er grannt einn mánuðinn og svo svínfeitt þann næsta.

Enn og aftur er ég orðinn meðvitaður um hverju ég treð niður í kokið á mér. Ég hef af því mikið gaman. Ég hef keypt mér uppskriftabók, og er farinn að kokka upp úr henni nánast á hverju kvöldi. Í þessari meðvitund minni, sem mörgum þykir alveg gersamlega óþolandi, á ég í mestu erfiðleikunum með súkkulaðikökur.
Því er nú einu sinni þannig farið, að það besta sem ég fæ, er massív súkkulaðikaka með rjóma, og jafnvel ískúlu líka. Að neita sér um þetta, er þolraun fyrir mann af mínu sauðahúsi. Ekki bara þolraun, heldur harmleikur.

En ég skal sýna þeim. Helvítis krakkakvékindunum sem stríddu mér í ömurlegum grunnskólanum. Við skulum sjá hver er feitur um fertugt.

Ég hef nefnilega séð þau. Gellurnar orðnar akfeitar kellingar, búnar að hrúga niður börnum. Ég ætlaði að skrifa “með sitthvorum manninum”, en ákvað að sleppa því, vegna þess að ég svo vel af guði gerður. Og ekki eru töffararnir betur á vegi staddir, orðnir feitir og ógeðslegir kallar. Já, ég vona að þið öll með tölu fáið kransæðastíflu og vélindabakflæði.

superfreak

Mar
16

Ekki skoða þetta video, ef þú hefur í hyggju að sjá Little Miss Sunshine.

[MEDIA=150]

Þetta atriði er svo mikið fyrirtak. Þunglyndissjúklingurinn sem hefur verið gagnrýndur töluvert í gegnum myndina, er þarna fyrstur til að standa upp og styðja stúlkuna litlu.

Þess ber að geta að DeVotchka sá um megnið af tónlistinni fyrir þessa mynd. Þó ekki þetta lag, en ef ég man rétt þá var þetta lag vinsælt á ömurlegum unglingsárum mínum. Þannig er það nú bara, já sei sei.

í fíkn

Mar
15

Ég hef ríka þörf fyrir að þusa og nöldra. Fyrir mig þá koma þus og nöldur fast á eftir því að draga andann.
Á þeim tíma sem ég átti sjónvarp, fékk ég útrás fyrir þessa einkennilegu áráttu. Ég sat þá fyrir framan kassann og reif stólpakjaft við alla þá sem að mínu mati áttu innistæðu fyrir því.

Þegar ég er til vinnu þusa ég og nöldra í hórkonunni henni fröken Sigríði. Hún er gersamlega ónæm fyrir umhverfi sínu, fyrir utan það að vera heyrnar- og sjóndauf. Það er því prýðilegt, og má segja að hún virki sem hálfgerður stuðpúði, allavega þegar það kemur að þusi og nöldri.
En nú er ég búinn að liggja heima veikur í nánda nærri því viku. Ég hef átt í stórkostlegum erfiðleikum með sjálfan mig. Ég hef haft svo mikla þörf fyrir að þusa. Ég á ekkert sjónvarp, og hef ekki átt þessháttar í heilt ár.

Rétt um það leiti sem ég var að hafa til kvöldmatinn, var ég alveg að springa úr pirringi, ég fór leið sem liggur út á lýðnetið prýðilega til að finna mér eitthvað sjónvarpsefni sem ég gæti þusað hressilega yfir.

Fyrir valinu varð Auddi, maður sem ég gersamlega þoli ekki. Hann er með þætti á stöð 2 sem heita “Tekinn”. Ég vissi út á hvað þessir þættu gengu, og þóttist viss að þarna væri eitthvað sem ég gersamlega gæti misst mig í þusi yfir. En nei, nei. Ég þess í stað hló í eins og fífl yfir uppátækjunum.

Þýðir þetta að ég þurfi að hætta að láta mér líka illa við Audda og allt sem hann stendur fyrir?

Ó, mig auman.

Ibsen og DeVotchka

Mar
14

Ég hef legið í skítapest síðan á föstudag. Þetta hefur verið öllum ábúendum hér á Óðinsgötu nánast óyfirstíganleg þolraun.
Mefisto litli hefur verið miður sín yfir heilsufari húsbónda síns. Hann hefur eins og húsbóndinn leitað sér huggunar í ofáti, og farinn virkilega að láta á sjá. Samræður okkar tveggja hafa verið gefandi, en jafnframt átakanlegar. Við höfum rætt heimspeki Ibsen, það að mannskepnan þurfi á lífslygi að halda til að komast af. Við vorum sammála um að það skipti ekki höfuðmáli hvers eðlis lífslygin væri, svo lengi sem að þeim er um ræðir sé fært að lifa sig inn í hana og gera hana að kjölfestu lífs síns. Okkur greindi á um nokkur smáatriði sem ég ætla ekki að tíunda hér, en ég verð að segja að stundum efast ég um að kattarkvékindið hafi snefil af tilfinningum.

——

Við horfðum á heimildarmynd eftir Stephen Fry um bi-polar disorder. Stephen Fry er alveg sérstaklega aðlaðandi og afburða greindur maður. Ég hef í kjölfarið á að horfa á þessa mynd komist að því að það er töff að vera manic/depressive, svo ég ætla að stíga út úr skápnum sem ungur maður á uppleið með geðhvarfasýki.

Ég mæli með þessari heimildarmynd, hún heitir The Secret Life Of The Manic Depressive. Hann sjálfur er haldinn þessum geðsjúkdómi. í myndinni gengur hann hreint og heiðarlega til verks. Hægt er að fylgjast með honum þar sem hann dettur í þunglyndispytt, og á meðan hann er að sökkva lýsir hann hugarástandi sínu á . Mjög merkilegt.

——-

Ég hef loksins uppgögvað nýja hljómsveit. Hún er allaveg ný fyrir mér. Hún er bandarísk með rússneskan uppruna og heitir DeVotchka. Þvílíkt eyrnagúmmilaði.

Let’s rock

Mar
13

Í tilefni af fyrirhugaðri pílagrímsferð minni til Twin Peaks.

[MEDIA=151]

Nornabrenna

Mar
09

Blogheimur ásamt fréttamiðlum hafa lagst á eitt að úthúða og hæða ónefndan doktor við Háskóla Íslands. Ég persónulega þekki fljótfærni nokkuð vel af eigin rammleik. Þ.e að eitthvað málefni sem mér er annt um geri það að verkum að ég dragi annaðhvort rangar ályktanir, eða að ég dragi réttar ályktanir og bregðist rangt við. Að þessu leitinu til, kenni ég í brjóst um doktorinn. Það geta allir hlaupið á sig. Þar fyrir utan tel ég að það sé nokkuð til í þeim pistli sem hún skrifaði, en ég ætla hvorki að hafa það eftir, né að rökstyðja það. Að mínu mati finnst mér gott að doktorinn hafi skrifað þennan pistil. Hann vekur okkur til umhugsunar um hluti sem við hefðum annars ekki velt okkur fyrir. Við erum fljót að berast með straumnum, hneykslast, öskra, garga, úthrópa, brenna á báli osfrv.

– – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – –

Ég vaknaði í morgun með ævintýralegan höfuðverk. Ég var ekki búinn að vera lengi vakandi þegar ég fann mig knúinn til að eiga rómantíska stund með klósettskálinni. Að því búnu lagðist ég upp í rúm. Kötturinn minn hann Mefisto, þessi sem ég gerði burtrækan um daginn, fann á sér að ekki var alveg í lagi með húsbóndann. Svo þar sem ég lá á koddanum tók ég eftir því að kvékindið var eitthvað að baxa við höfuð mér. Yfirleitt sefur hann mér til fóta, en er ekki að aðhafast neitt í námundan við hausinn minn. En í þetta skiptið átti hann eitthvað erindi þarna við koddann minn. Ég var með augun lokuð, enda ennþá sárkvalinn. Áður en ég vissi af, var helvítið búið að hlassa sér svo gott sem beint ofan á hausinn á mér. Upp úr því sofnaði ég. Mig dreymdi að mér hefði vaxið sítt þykkt krullað hár. Í draumnum gerði ég lítið annað en að dást að hárinu. Lokkarnir stóðu út í allar áttir. Þegar ég vaknaði upp var hausverkurinn farinn.

Þetta er bara guð!

Mar
05

Vegna tæprar heilsu hef ég haldið mig heima undanfarna daga, eða síðan á föstudag.
Undanfarnar vikur hef ég verið frekar stúrinn, og þótt lífið alveg ákaflega leiðinlegt. Nema svo gerðust undur og stórmerki. Ég var staddur inn í eldhúsi á kærleiksríku heimili mínu í kringum 19:18 að elda þennan líka prýðilega Dahl rétt, þegar ég áttaði mig á því að ég var farinn að syngja hástöfum fjörgamalt íslenzkt dægurlag. Það byrjar einhvern meginn svona, og ef einhver kann allan textann yrði ég viðkomandi óendanlega þakklátur.

Kannist þið við karla sem að ……….. ……………………
Það vantar spýtu og það vantar sög, það vantar olíu og fjörug lög.

Já allir saman nú.

ÞAÐ VANTAR SPÝTU OG ÞAÐ VANTAR SÖG, ÞAÐ VANTAR OLÍU OG FJÖRUG LÖG.

Ég fór að velta því fyrir mér í tengslum við bók sem ég er að lesa, að í ljósi þess að undirritaður er gersamlega fyrirmunað að vera hamingjusamur í félagi við annað fólk, væri það þá ekki dásamlegt ef hægt væri að verja lífstíð sinni í verkefni eins og að fljúga með geimskutlu til Plúto og tilbaka? Geimskutlur ná c.a 56.000 km hraða á klukkustund. Plútó er í 4,436,824,613 km fjarlægð frá jörðu, svo það tekur u.þ.b tíu ár að skjótast til Plútó, og 14 ár að koma tilbaka. Það eru 24 ár. Ég gæti að því búnu lagst í helgan stein á einhverri mengaðri eyju í karabíska hafinu, þangað til ég færi í áður nefnda skemmtisiglingu.