kjaftablaður
Ég ræddi það í gær við Obi Wan Kenobi hvað er viðeigandi í samskiptum við fólk. Það er tildæmis ekki viðeigandi í gleðskap að spyrja einhvern sem bregður sér á salernið hvort viðkomandi sé að fara að fá sér að kúka. Það þykir heldur ekki fínt að sitja til borðs með fólki og lýsa því yfir hversu gott það væri að vera bara dauður. Það er eitt og annað sem ekki þykir við hæfi að segja í hópi fullorðinna. Það er hinsvegar ásættanlegt þegar maður er staddur meðal fólks að tala um eitthvað eins og stjórnmál, veðrið, markaðinn, menningu og fleira í þá veruna. Vandamálið með mig er að mér finnast öll þessi látalæti alveg yfirnáttúrulega leiðinleg. Ég er með öðrum orðum alveg sérstaklega illa að mér í svokölluðu froðusnakki. Yfirborðshjal hefur vafist svo fyrir mér að ég hef íhugað að fara á námskeið til að tileinka mér meiri færni í því. Ekki svo að skilja að ég gefi mig út fyrir að vera einhvern snilling í vitrænum og djúpum samræðum. Mér líður best meðal fólks þegar ég þarf ekki að vera gefa mig út fyrir að vera eitthvað sem ég er ekki. Mér líður vel með því fólki sem kippir sér ekki upp við að ég bresti allt í einu í söng, sem ég reyndar geri iðullega.
Í dag hitti ég konu á Laugaveginum, sem ég reyndi að eiga samskipti við fyrir kurteisissakir.
“Já, blessuð. Bara blíðan.” sagði ég, meðan ég gat engan veginn leynt því hversu hræðilegt mér fannst að vera fyrri til að tala um veðrið, bara í þeim tilgangi að segja eitthvað. Tala í þeim tilgangi einum að tala. “Já, það er svo yndislegt að vera í fríi þegar veðrið er svona mikið æði.” sagði hún og brosti út að eyrum af gleði yfir því hvað veðrið var yndislegt, heimurinn frábær og guð góður. Hvað í fjandanum á ég að segja næst, hugsaði ég með sjálfum mér. Ég brosti eins og fáviti og bætti við: “Já, er þetta ekki dásamlegt.” “Jú, svo sannarlega,” sagði hún og hló. Ég verð að finna mér undankomuleið, hugsaði ég og jók gönguhraða minn. “Alveg yndislegt,” sagði ég “…..sjáumst.” Ég veifaði henni þar sem hún hvarf í mannfjöldann.
Skelfing og hryllingur.
Ég gæti líka verið staddur í boði þar sem ég er spurður að því hvernig fyrirtækið mitt gengi. Mér leiðist sú spurning alveg ævintýralega. Ég er þess viss að enginn hafi raunverulegan áhuga á því og það er orkusóun fyrir mig að vera sífellt að blaðra um það. Jú, ég veit að til eru menn sem eyða alveg óheyrilegum tíma í að tala um fyrirtækið sitt eða hversu vel þeim gengur í viðskiptum, en mér finnst það sjálfum alveg ógeðslega leiðinlegt. Það eru því litlar líkur á að einhver komi að mér á stefnumóti talandi um fyrirtækið mitt, þangað til hinn aðilinn afsakar sig meðan hann fer á salernið og kemur aldrei aftur. Það reyndar eru svo gott sem engar líkur á að einhver finni mig á stefnumóti, vegna þess að ég er ekki bara fáviti í froðusnakki heldur er ég apaköttur þegar kemur að samskiptum við hitt kynið líka.