Í hádeginu í dag hitti ég fyrir mann, sem ég bað um að verða svokallaður vinur minn í netsamfélaginu facebook. Ég sagði honum að hefði hann ekki samþykkt að verða vinur minn á facebook, hefði ég og ekki átt annarra kosta völ en að drepa mig. Ég hefð tekið þeirri höfnun sem óyggjandi sönnun þess að ég er ömurlegur, og við það uni ég ekki. Ég hef ekkert við það að athuga þó annað fólk sé ömurlegt, en ég get ekki undir nokkrum kringumstæðum orðið uppvís af því sjálfur.
Svo varð úr að ég fór að íhuga það með sjálfum mér hvort til sé fólk sem tekur því illa ef einhver vill ekki vera vinur viðkomandi í netsamfélagi af þessu tagi. Ég tel líklegt að sumir láti það stjórna lífi sínu og líðan, hver hafi samþykkt að gerast bloggvinur þeirra. Allavega þegar ég skoða viðurstyggilega veflóka morgunblaðsins, sé ég ekki betur en að mörgum þyki afskaplega elegant að raða upp í dálk bloggvinum sem eru: “nafntogaðir.” Ég leyfi mér að setja orðið nafntogaðir inn í eldhressar gæsalappir, rétt til að ýja að því: að sitt sýnist hverjum um frægð manna í fjölmiðlum hérlendis. Ég hef setið til borðs með fólki sem talar um að þessi og hinn sé vinur þeirra á myspace. Ég hinsvegar spyr: hvað þýðir það nákvæmlega? Þýðir það að ef einhver sem manni sjálfum þykir hipp og kúl vill vera yfirlýstur vinur manns í netsamfélagi, að maður sjálfur sé þar með orðinn hipp og kúl? Eða hvað tilgangi þjónar þetta?
Hvað er ég að gera á facebook? Ég er ekki á facebook að leita af ástinni, það eitt er klárt. Ástæðan fyrir að ég skráði mig þarna fyrir nokkrum mánuðum síðan er sú að árið 1995 var ég staddur út í Ísrael á samyrkjubúi, með fjöldanum öllum af fólki víðs vegar að úr heiminum. Þetta var áhrifamikill tími í mínu lífi og hef ég oft og mörgum sinnum velt því fyrir mér hvað hafi orðið af þeim sem mér þótti einna vænst um. Rétt upp úr páskum setti maður sig í samband við mig, sem ég hafði kynnst á þessum tíma. Hann var orðinn auðugur lögfræðingur, eins og oft er með gyðinga. Hann sagði mér að á facebook, væru meira og minna allir þeir sem ég hafði kynnst á samyrkjubúinu skráðir notendur. Hann stakk upp á að ég skráði mig, svo ég gæti tíundað hvað á daga mína hefði drifið.
Ég tel mig vera búinn að gera grein fyrir hvers vegna ég er þarna staddur. Ég hef þó gaman af því endrum og eins að skoða hverja er þarna að finna. Stundum þegar vel liggur á mér, bið ég meira segja fólk sem ég hef kynnst á lífsleiðinni um að gerast vinir mínir, svo ég geti montað mig af því eins og um frímerkjasafn sé að ræða.