Gosdrykkjadilemma

dead_soldier.jpgÞegar ég var lítill strákur var besti vinur minn gömul kona sem bjó spölkorn frá mér. Þegar ég fór í heimsókn til hennar gaf hún mér alltaf mjólk og kremkex. Hún passaði upp á að eiga alltaf nóg til af kexi og gúmmilaði, ef ske kynni að ég kíkti við hjá henni, sem ég gerði nánast daglega.

Árin liðu og nú er ég sjálfur orðinn gamall maður. Ég var staddur í kjörbúð um daginn, þegar ég stóð sjálfan mig að því að kaupa inn þrjár flöskur af eftirlætis gosdrykk manneskju sem mér þykir afskaplega vænt um. Ég hugsaði með sjálfum mér, að það væri nú snjallt fyrir mig að eiga þessa tegund af gosdrykk, ef þessi tiltekna manneskja bankaði upp á hjá mér. Þegar heim var komið, raðaði ég flöskunum samviskusamlega inn í ísskápinn, ásamt öðrum vörum. Það var svo ekki komið kvöld, þegar ég hugsaði með sjálfum mér að það sakaði ekki að drekka eina flösku, ég ætti þá tvær upp á að hlaupa ef svo ólíklega vildi til að þessi blessaða manneskja tæki hús af mér. Ég tók tappann af flöskunni og þambaði innihaldið. Mikið var þessi gosdrykkur svalandi. Í mér var ekki vottur af eftirsjá.

Deginum eftir, fór ég út að hlaupa. Þegar ég kom heim, áttaði ég mig á því að soda stream vélin var kolsýrulaus. Ég mundi eftir gosdrykkjaflöskunum inn í ísskáp. Mér varð hugsað til orða Oscar Wilde: Freistingin er til að falla fyrir henni, berjist gegn henni og sál yðar verður sjúk í þá hluti sem hún hefur bannað sjálfri sér. Áður en ég vissi af stóð ég með tóma gosdrykkjaflösku í hendinni, í þetta skiptið eilítið skömmustulegur. Nú, átti ég eina flösku eftir. Ég hugsaði að það væri eiginlega ómögulegt að eiga ekki tvær flöskur, því ef gest þennan bæri núna að garði, yrði ég að skála í vatni meðan viðkomandi teygaði þennan ljúffenga drykk. Ég greip því síðustu flöskuna, og kálaði henni.

8 thoughts on “Gosdrykkjadilemma”

  1. Ef þetta var engiferöl þá er ég einmitt í þessum skrifuðu orðum á leiðinni í heimsókn.

  2. Þú verður bara að kaupa kippu af þessu stuffi næst.

    Ég vil samt ekki meina að þetta sé ávanabindandi drykkur, bara hrikalega góður og hollur.

  3. Rosalega ert þú eitthvað agaður. Afsakið en ég er ókunn manneskja sem misnota síðuna þína gagngert til að hlusta á almennilega tónlist. En ég skammast mín ekkert, þér er nær að bjóða uppá þetta. Ég ætti frekar að skamma þig. En nú þegi ég bara.

  4. Neminn bara hugrakkur…Kallar þig agaðan..Og þekkir manninn bara lítið…Ætli neminn sé með greindarvísitölu sem er hærri en okkar allra til samans..Og drekki ekki…..EÐA, einmitt drekki helling og finni einu vonarglætuna í lífi sínu með því að kíkja á hlýlegan veflók þinn ásamt því að hlusta á lágstgemmdar gleðimelódíurnar?

    Hver veit…?

  5. Ertu komin með rugluna Soffía? Þetta er í síðasta skiptið sem þú færð að vera heilsari á þessum fundi.

Comments are closed.