SiggiSiggiBangBang

Transcontinental spelt brauð

Jan
04
bread-002.jpg

Feitur á sál og líkama ráfaði ég slefandi um götur borgarinnar muldrandi: “Drepa, drepa, drepa.” Svo lærði ég að baka speltbrauð og líf mitt öðlaðist tilgang. Kílóin hrundu af mér og áður en ég vissi af var ég orðinn glæsilegri en ég hef nokkru sinni áður verið. Það þarf ekki að koma neinum á óvart þegar birtist heilsíðuviðtal við mig í Mannlífi undir fyrirsögninni: “Var afvelta af spiki, en er núna grannur, fallegur og eftirsóttur!”

Ég má ekki út fyrir hússins dyr, án þess að einhver ráðist á mig og heimti uppskriftina af þessu fína brauði, en hér er hún:

5dl – spelt
1dl – sesamfræ
3 tsk – vínsteinslyftiduft
1/2-1 tsk – sjávarsalt
1 1/2-2dl – ab-mjólk
1 1/2-2dl – sjóðandi heitt vatn

Ég hef það fyrir vana að tvöfalda þessa uppskrift, enda þarf ég að metta svanga munna allra persónuleikanna minna.

Fyrst er þurrefnunum blandað saman í skál. Hellið vökvanum útí og blandið varlega saman. Hægt er að setja ýmislegt fleira saman við brauðdeigið eins og sólþurrkaða tómata, ólífur, gulrætur, hvítlauk eða kryddjurtir. Setjið deigið í smurt brauðform og bakið í 25-30 mín við 200C.

Þetta brauð er Guð.

Skaupedískaup – attitjúdblogg

Jan
01

Það er ekki hægt að sigla inn í árið án þess að hafa skoðun á skaupinu.

Skaupið í ár var dæmigerður afrakstur hæfileikaríks fólks sem í sigurvímu og sjálfumgleði ofmetnast, heldur að það sé alfa/ómega íslenskrar fyndni og að allt sem kámugir fingur þeirra komi nálægt – mali gull. Það er eitthvað annað en skaupið í fyrra, sem var það skemmtilegt að ég horfði á það aftur fyrr í vikunni á jútjúb.

Þetta er svo í síðasta skipti sem ég verð með attitjúd á árinu, enda ekki við hæfi á ári ástarinnar.