SiggiSiggiBangBang

Bresk mynd um ástina

Sep
03

Hefði ég vitað að þessi mynd væri eftir höfund Bridget Jones’s Diary, þá hefði ég látið það eiga sig að horfa á hana. En ég var einmana og sorgmæddur í sálinni minni og þegar ég er þannig stemmdur þá er um þrennt að velja: hlusta á Leonard Cohen og skera sig, borða 5 lítra af ís, eða horfa á kvikmynd um ástina. Ég valdi það síðarnefnda, í þeirri von að geta fræðst lítillega um eftirlætis þráhyggju mannskepnunnar. Þrátt fyrir glæsilega leikara, þá tókst þessari mynd að vera ein af ömurlegri myndum sem ég hef ævinni minni séð. Flottasta mynd sem ég hef séð um ástveikina er: Closer. Fallvaltleiki tilverunnar er svo fallega sárpínlegur í þeirri mynd. Rétt eins og í veruleikanum.

Prumpukallaþus dagsins var um myndina Love actually, sem er óþverrri með þremur errum.

Utan vébanda

Sep
01

Fáir af þeim sem villast inn á þennan vef fyllast réttlátri reiði og hella úr skálum gremju sinnar í umkvörtunarkerfinu. Afhverju ætli það sé? Liggur í skrifum mínum og myndbandagerð, hversu óstöðugur persónuleiki ég er? Ég hef skrifað hugrenningar mínar á netið frá því 2002 og eru þeir teljandi á fingrum annarrar handar sem hafa móðgast út í mig og lesið mér pistilinn. Þóttafullir moggabloggarar virðast halda sig innan vébanda moggabloggsins, en þar er hvorki vítt til veggja né hátt til lofts.

Já, Siggi minn, Moggabloggið er víða, ekki aðeins spítali, ekki aðeins höll, heldur mynstur ofið úr þráðum svo fínum að enginn greinir þá, hvorki keisarinn né börnin, hvorki ég né þú.