Baktal
Lastaranum líkar ei neitt
lætur hann ganga róginn
finni hann laufblað fölnað eitt
fordæmir hann skóginn.
Höfundur:
Steingrímur Thorsteinsson, skáld
Á lægstu stigum mannlegrar tilvistar keyrir þörfin fyrir að tala illa um náungann. Einkennilegir hlutir gerast innra með mannskepnunni þegar hún japlar á kjaftasögum. Sérstakur baktalskirtill hefur framleiðslu á gúddí gúddí boðefnum sem spýtast út í lagnakerfi líkamans og veita baktalaranum góða tilfinningu. Og af því að um stund líður honum vel með sjálfan sig, dregur hann þá ályktun að baktal sé gott fyrir sálarlífið. En böggull fylgir skammrifi, og gleðin sem fylgir því að níða skóinn af náunganum, er skammvinn. Eftir situr lastarinn, með falska tilfinningu, um að í samanburði við þann sem hann nagaði, er hann verðmeiri, og tilvera hans réttari. Þessi falska tilfinning telur baktalarinn að sé staðfesting á að hugmyndir hans um lífið séu betri. Siðferðisgildin sem hann hefur tileinkað sér séu fágaðri, að hann sé fallegri, af betri ættum, betur lesnari, osfrv. En þetta er lygi eins og flest annað sem maðurinn notar til að gera sjálfan sig stærri. Sá sem er stór í raun og veru, þarf ekki að runka anda sinn í þeim tilgangi að finna meira til sín. Það eru andans dvergar sem byggja afkomu sína á hversu ömurlegur náunginn er í samanburði. Maðurinn kemur aldrei til með að komast að því hver hann er, ef hann lifir fyrir hver hann er í augum annarra. Öðrum er líka andskotans sama. Þegar hann liggur á dánarbeði sínu skiptir engu máli, hverjum fannst hvað um hann. Sjáðu fyrir þér dauðvona mann tauta um hvað þessum og hinum fannst um hann á lífsleiðinni. Andlegur glæsileiki, hlýtur að fela í sér hæfileikann að leyfa fólki að vera, án þess að leggja á það dóm.
Annars sá ég mann í bænum í dag, sem er alger fáviti.