SiggiSiggiBangBang

Baktal

Jul
30

Lastaranum líkar ei neitt
lætur hann ganga róginn
finni hann laufblað fölnað eitt
fordæmir hann skóginn.

Höfundur:
Steingrímur Thorsteinsson, skáld

Á lægstu stigum mannlegrar tilvistar keyrir þörfin fyrir að tala illa um náungann. Einkennilegir hlutir gerast innra með mannskepnunni þegar hún japlar á kjaftasögum. Sérstakur baktalskirtill hefur framleiðslu á gúddí gúddí boðefnum sem spýtast út í lagnakerfi líkamans og veita baktalaranum góða tilfinningu. Og af því að um stund líður honum vel með sjálfan sig, dregur hann þá ályktun að baktal sé gott fyrir sálarlífið. En böggull fylgir skammrifi, og gleðin sem fylgir því að níða skóinn af náunganum, er skammvinn. Eftir situr lastarinn, með falska tilfinningu, um að í samanburði við þann sem hann nagaði, er hann verðmeiri, og tilvera hans réttari. Þessi falska tilfinning telur baktalarinn að sé staðfesting á að hugmyndir hans um lífið séu betri. Siðferðisgildin sem hann hefur tileinkað sér séu fágaðri, að hann sé fallegri, af betri ættum, betur lesnari, osfrv. En þetta er lygi eins og flest annað sem maðurinn notar til að gera sjálfan sig stærri. Sá sem er stór í raun og veru, þarf ekki að runka anda sinn í þeim tilgangi að finna meira til sín. Það eru andans dvergar sem byggja afkomu sína á hversu ömurlegur náunginn er í samanburði. Maðurinn kemur aldrei til með að komast að því hver hann er, ef hann lifir fyrir hver hann er í augum annarra. Öðrum er líka andskotans sama. Þegar hann liggur á dánarbeði sínu skiptir engu máli, hverjum fannst hvað um hann. Sjáðu fyrir þér dauðvona mann tauta um hvað þessum og hinum fannst um hann á lífsleiðinni. Andlegur glæsileiki, hlýtur að fela í sér hæfileikann að leyfa fólki að vera, án þess að leggja á það dóm.

Annars sá ég mann í bænum í dag, sem er alger fáviti.

Lífið á Íslandi

Jul
28

Að lifa á Íslandi er eins og að reyna að fóta sig í 103 þúsund ferkílómetra rotþró. Þú ert kannski vel búinn, í vaðstígvélum, með nefklemmu, og hefur öðlast töluverða leikni í að standa uppréttur í saur þeirra sem kúkuðu yfir landið. En svo gerist eitthvað. Eitthvað sem veldur því að þú missir einbeitinguna um stund. Kannski er það frétt um auðmann sem sleikir sólina í Karabíska hafinu, eða að eftirlætis kexpakkinn þinn kostar orðið 700 krónur í kjörbúð djöfulsins. Og þér verður svo bilt við að þú rennur til í skítnum, missir fótanna og kollsteypist í saureðjuna. Þar svamlar þú, þar til þú finnur eitthvað sem þú getur stutt þig við og notað til að staulast aftur á lappir. Tildæmis sú hugsun að föðurland og rætur séu hluti af því hver þú ert og þess vegna skítafýlunnar virði, eða að þetta fari allt á besta veg og réttlætið sigri að lokum. Hringrásin endurtekur sig, og þó þú haldir áfram að vaða annarra manna skít, veistu innst inni að þú átt eftir að hrasa aftur í sleipnum kúknum.

700 króna kexpakki

Jul
26

Ég var að hengja upp úr vél í gær, en það hef ég gert nokkuð oft áður á lífsleiðinni. Hvað ætli ég hafi sett í margar vélar síðan ég setti fyrst í vél? Allavega…. Þegar ég var langt kominn með þvottinn áttaði ég mig á að það liði sjálfsagt ekki á löngu þar til ég hengdi upp þennan sama þvott aftur. Og þar sem heilinn minn gefur mér sjaldan frí frá tilvistarlegum vangaveltum, fór ég að velta fyrir mér þessari hringrás, sem endurtekur sig, aftur og aftur og aftur. Ég fer í fötin, þau verða skítug á tveimur til þremur dögum, þá set ég þau í vél, þar sem þau hringsnúast í vatni og sápu, að því loknu tek ég þau út úr vélinni, hengi þau til þerris og fer svo aftur í þau. Einhverjir dagar líða og ferlið endurtekur sig. Þessi hugsun væri alls ekki svo óbærileg, ef tíminn sem ég eyði í að skíta út fötin væri ekki líka varið í samansafn af prósessum sem endurtaka sig, aftur og aftur og aftur.

Ég hefði líka getað skrifað um kreppuna og 700 króna kexpakkann sem ég keypti í 10/11.

Ólundarpistill

Jul
13

Nú er við hæfi að skrifa ólundarpistil:

Nágrenni mitt er blómlegt, og er ég þá ekki eingöngu að tala um garðrækt. Sunnan megin við mig eru hjón, eða ég giska á að þau séu hjón, sem hafa sérstakt dálæti af amerískri sveitatónlist þegar þau fá sér í aðra tánna, og ef fleiri tær bætast við hækkar hljóðstyrkurinn og sama lagið sem er:”svo æðislegt”, er spilað aftur, aftur og aftur. Ef þau eru búin að innbyrða meira en ráðlagðan dagskammt af áfengi, villist Björgvin Halldórsson undir nálina og þau gelta af gleði og syngja með. Voff, voff, voff – ég er ennþá þessi asni sem þú kynntist þá, skríkir í þeim. En enginn í nágrenninu deilir með þeim kátínunni. Ef þau hefðu einhverja hugmynd mitt í gleðinni, hversu hötuð þau eru klukkan 3 aðfaranótt mánudags, þá…. Nei, þeim er skítsama, og það er nákvæmlega það sem einkennir þessa kynslóð af íslenskum durgum – henni er andskotans sama. Aðlaðandi!

Austan megin við mig býr fólk sem ég kann engin deili á. Ég veit ekki einu sinni almennilega hvernig það lítur út. Stór viðargirðing, tveir metrar á hæð aðskilur húsið mitt frá garðinum þeirra og er u.þ.b hálfur metri á milli girðingar og hússins. Þegar haldin er fjölmenn gildi, sem standa yfir langt fram undir morgun, safnast reykingarfólkið saman úti. Svo skemmtilega vill til að það er þá staðsett við hliðina á baðherbergisglugganum mínum. Ég þarf því ekki annað en að opna gluggann meðan ég er að gera pú pú og þá heyri ég allt sem þar er skrafað. Með að hlusta, og veit ég ekki hvort þetta séu endilega þau sem búa þarna, þá hef ég lært eftirfarandi:

#1 – Það er mjög kvalarfullt að láta vaxa á sér rassaboruna.
#2 – Ef að maður er með gyllinæð, þá vill maður síður láta rimma sig.
#3 – Betra er að rimma, en vera rimmaður.

Og nokkrum dögum fyrr heyrði ég skemmtilegt samtal manns, við gifta konu. Í samtalinu kom fram að þau hefðu verið saman í bekk, hvort það var í grunnskóla, eða menntaskóla, fylgdi ekki með. Safaríkasti hlutinn var eitthvað á þessa leið:

Hann: Þú varst sætasta stelpan í bekknum!
Hún: Nú?
Hann: Já, þú varst sætust og við strákarnir vorum allir skotnir í þér!
Hún: Ehhh..
Hann: Þetta er satt. Við vorum vitlausir í þig. Ég líka!
Hún: Nú, nú, ehhh..
Hann: Já… og það skrýtna er – að að þú hefur ekkert breyst!

Ég hlustaði ekki mikið lengur á þetta samtal, enda búinn að gera pú pú, en ég sá hann fyrir mér standa þarna gleiður meðan hann þreytti fórnarlambið. Hvort hann hafi farið einsamall heim, er hverjum og einum frjálst að ímynda sér.

Fyrir norðan mig í aðalhúsinu búa kona og karl sem ég hef áður gert grein fyrir hér á vefsíðu minni. Karlinn kom í heimsókn síðasta vetur í þeim tilgangi einum að lækka niður í ofnunum mínum til að ofnarnir hans yljuðu honum betur. Ég vissi þá strax, að honum vildi ég kynnast betur.

Allt eru þetta íslendingar, en oft er gaman að bera þá saman við útlendinga þegar kemur að mannasiðum. Landar mínir virðast ekki eiga til stórt upplag af prúðmennsku og virðingu fyrir náunganum.

Hinum megin við götuna í stóru fallegu húsi búa Pólverjar. Eitt kvöldið héldu þau veislu og sátu úti í garði, drukku og borðuðu góðan mat. Undir dundi hræðilega leiðinleg diskótónlist. Á slaginu klukkan 10 um kvöldið, hætti tónlistin, og gestirnir hjálpuðust við að taka til eftir gleðina.

Og hér með líkur þessum ólundarpistli.

[media id=222 width=520 height=300]