Ólundarpistill

Nú er við hæfi að skrifa ólundarpistil:

Nágrenni mitt er blómlegt, og er ég þá ekki eingöngu að tala um garðrækt. Sunnan megin við mig eru hjón, eða ég giska á að þau séu hjón, sem hafa sérstakt dálæti af amerískri sveitatónlist þegar þau fá sér í aðra tánna, og ef fleiri tær bætast við hækkar hljóðstyrkurinn og sama lagið sem er:”svo æðislegt”, er spilað aftur, aftur og aftur. Ef þau eru búin að innbyrða meira en ráðlagðan dagskammt af áfengi, villist Björgvin Halldórsson undir nálina og þau gelta af gleði og syngja með. Voff, voff, voff – ég er ennþá þessi asni sem þú kynntist þá, skríkir í þeim. En enginn í nágrenninu deilir með þeim kátínunni. Ef þau hefðu einhverja hugmynd mitt í gleðinni, hversu hötuð þau eru klukkan 3 aðfaranótt mánudags, þá…. Nei, þeim er skítsama, og það er nákvæmlega það sem einkennir þessa kynslóð af íslenskum durgum – henni er andskotans sama. Aðlaðandi!

Austan megin við mig býr fólk sem ég kann engin deili á. Ég veit ekki einu sinni almennilega hvernig það lítur út. Stór viðargirðing, tveir metrar á hæð aðskilur húsið mitt frá garðinum þeirra og er u.þ.b hálfur metri á milli girðingar og hússins. Þegar haldin er fjölmenn gildi, sem standa yfir langt fram undir morgun, safnast reykingarfólkið saman úti. Svo skemmtilega vill til að það er þá staðsett við hliðina á baðherbergisglugganum mínum. Ég þarf því ekki annað en að opna gluggann meðan ég er að gera pú pú og þá heyri ég allt sem þar er skrafað. Með að hlusta, og veit ég ekki hvort þetta séu endilega þau sem búa þarna, þá hef ég lært eftirfarandi:

#1 – Það er mjög kvalarfullt að láta vaxa á sér rassaboruna.
#2 – Ef að maður er með gyllinæð, þá vill maður síður láta rimma sig.
#3 – Betra er að rimma, en vera rimmaður.

Og nokkrum dögum fyrr heyrði ég skemmtilegt samtal manns, við gifta konu. Í samtalinu kom fram að þau hefðu verið saman í bekk, hvort það var í grunnskóla, eða menntaskóla, fylgdi ekki með. Safaríkasti hlutinn var eitthvað á þessa leið:

Hann: Þú varst sætasta stelpan í bekknum!
Hún: Nú?
Hann: Já, þú varst sætust og við strákarnir vorum allir skotnir í þér!
Hún: Ehhh..
Hann: Þetta er satt. Við vorum vitlausir í þig. Ég líka!
Hún: Nú, nú, ehhh..
Hann: Já… og það skrýtna er – að að þú hefur ekkert breyst!

Ég hlustaði ekki mikið lengur á þetta samtal, enda búinn að gera pú pú, en ég sá hann fyrir mér standa þarna gleiður meðan hann þreytti fórnarlambið. Hvort hann hafi farið einsamall heim, er hverjum og einum frjálst að ímynda sér.

Fyrir norðan mig í aðalhúsinu búa kona og karl sem ég hef áður gert grein fyrir hér á vefsíðu minni. Karlinn kom í heimsókn síðasta vetur í þeim tilgangi einum að lækka niður í ofnunum mínum til að ofnarnir hans yljuðu honum betur. Ég vissi þá strax, að honum vildi ég kynnast betur.

Allt eru þetta íslendingar, en oft er gaman að bera þá saman við útlendinga þegar kemur að mannasiðum. Landar mínir virðast ekki eiga til stórt upplag af prúðmennsku og virðingu fyrir náunganum.

Hinum megin við götuna í stóru fallegu húsi búa Pólverjar. Eitt kvöldið héldu þau veislu og sátu úti í garði, drukku og borðuðu góðan mat. Undir dundi hræðilega leiðinleg diskótónlist. Á slaginu klukkan 10 um kvöldið, hætti tónlistin, og gestirnir hjálpuðust við að taka til eftir gleðina.

Og hér með líkur þessum ólundarpistli.

[media id=222 width=520 height=300]

7 thoughts on “Ólundarpistill”

  1. Svo er ég líka nokkuð viss um að Elvis Presley syngur: „There goes my reason for living“, í þessu lagi.

  2. Ekki skrýtið að þú skulir vera með ólund. Ég væri nú búinn að fara með kejusögina á þetta lið fyrir löngu. Satt…

  3. Á ég að koma með haglabyssuna mína og hjálpa þér að drepa þau ?

  4. Yfirleitt eru þetta lög á rólegu nótunum, svona eftirlætislög, en þau þurfa að vera búinn að drekka áfengi til að nenna að hlusta á tónlist. Tónlist hefur ekkert skemmtanagildi nema undir áhrifum. Ég hefði viljað taka upp þetta ógeðslega kantrílag sem þau eru að tengja svo vel við, en það vildi svo til að Elvis Presley var á fóninum þegar ég skrapp út með vélina.

  5. Hehe, ég skrifaði einmitt pínu svipaðan pistil, allavega um hljóðmengunina, fyrir nokkrum dögum, hér – nema ég minntist reyndar ekkert á kurteisu Litháana í bakhúsinu…

  6. Er ekki kominn tími til að stríma út næsta partíi svo við fáum að njóta líka?

  7. Og á daginn eru alltaf slátturvélavargar um allt. Ég þoli ekki þennan hávaða á sumrin. Allstaðar fólk að búa til hávaða. Hvar sem manni hugnast að slaka á. Meira að segja úti í sveit kemur einhver vargur með slátturvél þegar mar reynir að drekka kaffið sitt og slaka á.

    Af hverju ekki bara að nota orf og ljá?

Comments are closed.