að ibba blogg


Hér hef ég ibbað blogg síðustu sex árin og nú er svo fyrir mér komið að ég er búinn að missa sjónar af tilgangnum með þessum skrifum. Ég hef því ákveðið að breyta þessu vefsetri í átaksblogg, þar sem ég heyja dauðastríð við aukakíló og aðra annmarka í eigin fari; meðfædda og áunna.

Annmarkar?

Það kemur fólki undantekningalaust mjög á óvart þegar það verður þess áskynja að ég geng ekki alveg heill til skógar. Oft er þetta sama fólkið og les netpistla mína, sem geisla af andlegu heilbrigði sem Jesú Kristur hefði verið stoltur af. Ég er líka svo vandur að virðingu minni, enda vill ég vera tekinn alvarlega. Fátt skiptir mig jafnmiklu máli. Þá get ég dáið sæll og glaður, vitandi af yfirburðum mínum í þessum kjánalega heimi. En hversu heill sem ég nú er, þá þarf ég stöðugt að vera á verði, til að brjóta á bak aftur illa vætti og þrálátar kreddur. Til þess er nauðsynlegt að setja sjálfum sér ófrávíkjanlegar lífseglur. Róm var ekki byggð á einum degi, og einhver þarf að taka það að sér að halda henni við.

Átak í uppsiglingu.

Í júní mánuði hef ég í hyggju að gera tilraunir í heimilishaldi hér á Óðinsgötunni. Ég er einn í heimili og get gert nákvæmlega það sem mér sýnist án þess að eiga það á hættu að gera aðra manneskju fýlda. Það er dásamlegt.

30. maí, fer ég í bankann minn og tek út 25 þúsund krónur í peningum. Á þessari upphæð ætla ég að lifa af júní mánuð. Allur kostnaður, svosem innkaup á mat, kaffiþamb á kaffihúsum, út að borða með íslendingum osfrv. má ekki fara yfir þessu upphæð. Ef ég leyfi mér að borða á veitingastað, minnka ég lífslíkur mínar það sem eftir lifir mánaðarins. Ég er ekki mikil eyðslukló, en ég velti ekki nógu vel fyrir mér í hvað peningarnir mínir fara. Ég geri smáinnkaup, oftar en ekki í einhverjum okurbúllum, eins og 10/11 eða Nóatúni. Ég er þó einn af fáum íslendingum sem á ekki neitt og skulda ekki neitt, svo ástæðan fyrir því að ég geri þessa tilraun er ekki sú að ég sé búinn að gera í mig fjárhagslega.

Ég hef einnig, sett sjálfan mig í sékur og majonesstraff. Oft þegar ég verð dapur og einmana í sálinni minni, kaupi ég mér líters dollu af majonesi og skófla í mig. Þá líður mér strax betur. Ég er hinsvegar eins og Oprah með það, að ég má ekki víkja af leið, þá blæs ég út eins og 17. júní blaðra og langar í kjölfarið til að deyja.

Þannig að skrif mín á þessum vef, upp frá þessari stundu, koma öll til með að ganga út á betrun líkama og sálar.

10 thoughts on “að ibba blogg”

 1. Ég fer fram á það að þú ríportir vikulega hvað þú átt mikinn pening eftir.

  Erum við að tala um núúúúðlur?

  Það liggur við að ég fresti sumarfríinu mínu til að missa ekki af þessu.

 2. Þeir sem eitthvað vit hafa á samhengi fæðuvals og líkamlegra og andlegra kvilla sjá fram á aukning sjúkdóma sem hafa í för með sér þunglyndi, minnisglöp, þvagleka og skerta hreyfigetu þegar núðlukynslóðin kemst á fertugsaldurinn. Þá á ég við skyndirétti sem samansettir eru úr núðlum – sem eru tiltölulega saklausar einas og sér en breytast í hægvirk gereyðingarvopn þegar búið er að sulla saman við þær ,,öllu góða bragðinu´´ sem að megninu til er gerkraftur, MSG og/eða E-621 ásamt ýmsu öðru sem hefur þá eiginleika að láta heilann og magann halda að hann sé að innbyrða eitthvað lostæti sem ekki er til staðar í viðkomandi matvælum. Sbr. nautakjöt, sjávarrétti o.s.frv.

  Ást er að koma í veg fyrir að þeir sem eru manni kærir neyti þessarar fæðu!

 3. Af hverju ertu að standa í þessu? Þú þarft bara að taka þig taki í tíu, ellefu og tólf!

 4. Pjetur – ég hélt að ég væri þín tía, ellefa og tólfa.

 5. Já, ef ég væri í tíu ellefu og tólf, þá gæti ég verið jafn frábær og þið, og það er nú aldeilis eftir eftirsóknarvert.

  My dear sisilly. Yes, ballons and party on Óðinsgata 24/7.

Comments are closed.