Allt verður í lagi

Ég er staddur í gleðskap með lykilmanneskjum í íslenzku viðskiptalífi. Skálað er í freyðivíni og glatt er á hjalla. Að máli við mig kemur Ingibjörg Sólrún og mér til mikillar undrunar, þá leiðist henni hófið alveg skelfilega. Hún segir mér að enginn þarna búi yfir heilindum, -að allir gestir samkvæmisins séu misgóðir í að fela raunverulegan ásetning sinn.

“Komum okkur í burtu héðan,” segir hún og brosir blíðlega “…ég á tveggja manna fisflugvél út á Reykjavíkurflugvelli. Skreppum til Detroit, þar er fólk sem ég vill kynna þig fyrir.” Mér sem að leiðast samkundur af þessu tagi alveg óheyrilega, tek vel í boð Ingibjargar. Ég segi henni að ég þurfi að pissa, og að því búnu komi ég út á flugvöll.

Ekki er mér ljóst hvað gerist í millitíðinni, en það næsta sem ég veit, þá ligg ég fyrir í rellunni hennar Ingibjargar. Hún er oggulítil og minnir meira á kajak en fisflugvél. Það er kalt og í móðurlegum kærleik breiðir Ingibjörg yfir mig flísteppi frá KB banka. Hún setur upp gamaldags flughettu úr leðri. Vélin litla rétt svo hefur sig til flugs og áður en ég veit af erum við komin til Detroit.

Ingibjörg leiðir mig inn á skrifstofu í gömlu rauðbrúnleitu steinhúsi við eitthvað breiðstræti. Þar hitti ég mann sem líkist einum lækninum í Grey’s Anatomy. Ég heilsa honum kurteislega, en gef mig ekki frekar að honum út af því að ég kann ekki við hann.
Til okkar kemur undurfögur kona. Kona sem frá mínum bæjardyrum séð er ákaflega tíguleg og með töfrandi útgeislun. Hún brosir svo fallega til mín að ég er að því komin að bráðna. Ég svitna og mér verður órótt, en samt ekki þannig að mér líði illa.
Hún brosir og réttir út hendurnar, gengur að mér og áður en ég fæ rönd við reist er hún búin að fanga mig í faðm sér. Ég faðma hana á móti. Ég finn fyrir frið. Mér líður vel. Ég vill ekki vakna. Hún segir mér að allt verði í lagi.

4 thoughts on “Allt verður í lagi”

  1. Ó, það væri svo prýðilegt. Það tók mig tildæmis ekki nema nokkrar sekúndur að skreppa til Detroit. Ekki er það hægt í þessum raunveruleika.

  2. Það er kannski ekki stutt til Detroit, en það er samt frekar stutt til Akureyrar.

Comments are closed.