Andlegir yfirburðir

Það kemur fólki á óvart þegar það verður þess áskynja að ég er afskaplega andlega þenkjandi maður. Vegna áhuga míns á málefnum tengdum fallvaltleika lífsins var ég einu sinni staddur á ráðstefnu fólks sem lifir í andlegum vellystingum. Á ráðstefnunni var talað um Guð og hvernig hann hefði lagt hönd á plóg við að hjálpa þeim sem þarna voru samankomnir.

Eins og oft, þar sem nærvera Guðs er sterk, kostar fólk öllu sínu í að sýna fram á yfirburði sína í andans heimi. Er það þá yfirleitt búið að finna út hvar það er statt í hinni andlegu goggunarröð og því hærra sem það telur sig trjóna nærri toppnum þeim mun meira er því uppálagt að ráðast til atlögu gegn þeim sem eiga lengra í land.

Innan veggja þessa samfélags, gerði ég mér grein fyrir að ég var ekki svo mikið sem hálfdrættingur á við marga af þeim andlegu risum sem heiðruðu mig og meðbræður mína með dásamlegri nærveru sinni. Ég átti bágt með mig, því ég vissi aldrei í hvorn fótinn ég átti að stíga, hvernig ég ætti að haga mér, hvað ég mætti segja, hvað ég mætti ekki segja, osfrv.

Ráðstefnan var þéttsetin og í hvert skipti sem einhver í hinni andlegu elítu sagði eitthvað smellið, gelti fólk af hrifningu: Voff! Voff! Þegar herlegheitunum lauk, skimaði ég eftir útgönguleið. Ég fann að ég þurfti að komast á brott hið snarasta áður en einhver gæfi sig að mér og segði mér til syndanna.

Ekki horfa í augun á neinum, brýndi ég fyrir sjálfum mér. Flóttalegur hóf ég að fóta leiðina í átt að dyrunum. Ég gerði mér grein fyrir að því örvæntingafyllri sem ég kom mannmergðinni fyrir sjónir, þeim mun auðveldara skotmark yrði ég fyrir hina svokölluðu postula, sem þráðu ekkert heitar en að læsa skoltum sínum í berskjaldaða sálu mína. Vitneskja mín, gerði einungis illt verra og taugaveiklun mín sótti í sig veður og vind. Sviti spratt fram. Ekki gefa neinum gaum! Ekki gefa neinum gaum!

Skelfing og óhamingja. Andspænis mér stóð maður sem gerði sig líklegan til að umvefja mig guðlegum kærleik. Ég reyndi að leiða hann hjá mér, en allt kom fyrir ekki, hann tók mig sér í faðm. Mér leið eins og óknytta barni í örmum þessa manns, sem ég vissi að hefði hlotið ótal viðurkenningar fyrir andlegt ríkidæmi sitt. Ó mig auman, sagði ég við sjálfan mig. Maðurinn sleppti af mér tökunum og neyddi mig til að horfa beint í augun sér. Ég skalf örlítið. Ætli hann verði þess var?

“Ég var einu sinni eins og þú,” segir hann við mig. Hvað á hann við, hugsaði ég með sjálfum mér. Hvernig þá? Var hann einu sinni fáviti? Mér verður svarafátt. Þessi samskipti eru hans. Hann er herra Mónólókur. Ekkert sem ég get sagt, vegur þyngra en það sem þessi maður hefur fram að færa. “Ég var einu sinni eins og þú,” endurtekur hann, “það var illa fyrir mér komið.” Nú já, ég er sumsé ömurlegur, sagði ég við mig sjálfan.
“Mér var farið að líða það illa að ég var farinn að berja konuna mína,” segir hann mér hróðugur. Já, einmitt það já. Ef það er eitthvað sem ég get samhæft með þá er það með manni sem lemur konuna sína. Ég er hólpinn, ég er kominn í höfn. Guði sé lof.
“En svo tók ég Guð almáttugan inn í mitt líf,” segir hann og það lifnar yfir honum.

Ég er upphrifinn. Ef ég bara gæti sjálfur hætt að berja konuna mína, hugsa ég. En bíddu nú við. Haltu hestum þínum innan girðingar. Það skyndilega rennur upp fyrir mér ljós: Ég á enga konu! Ekki bara það að ég eigi enga konu, heldur hef ég aldrei lamið einn né neinn þá daga sem ég hef lifað. Meðan ég íhuga stöðu mína, heyri ég að hann er að tala um Guð og hvernig Guð hefði gripið inn í og hjálpað honum til að hætta að berja á konunni sinni. Ég, sem í sífellu efast um mitt eigið ágæti, tel fullvíst að þessi maður sé mér samt sem áður skör ofar í lífsins leikni. Ég álykta því með sjálfum mér að ef ég ætti konu, þá væri ég líklega alltaf að berja hana, og þá væri aðeins eitt fyrir mig að gera og það væri að finna Guð og það ekki seinna en strax, svona rétt áður en allt færi til andskotans.

Með þennan nýja sannleik, kemst ég loks út úr húsi. Ég er svo andlega impóneraður að mér finnst eins og fætur mínir snerti ekki almennilega jörðina. Fyrir utan húsið standa fleiri andlegar fyrirmyndir og keðjureykja sígarettur. Ég hefði slegið til og fengið mér reyk, hefði ég ekki verið hættur að reykja.

Nokkrum mánuðum síðar tók ég mér tak vegna offitu og hóf að æfa skanka og bæseppa í flottustu líkamsræktarstöð landsins. Þar hitti ég marga andlega forkólfa, þar á meðal þennan mann, sem lagði stund á kraftlyftingar. Stundum sá ég konuna hans með honum.

18 thoughts on “Andlegir yfirburðir”

 1. Ja, andlegir yfirburðir, það er skemmtileg pæling, þú ert nú einn af þeim andlegri sem ég þekki, skemmtilega klikkaður með vott af ást og kærleik allt í kringum þig,
  blandað saman með þunglyndi, sjálfsvorkunn og sæmilegum skammti af svartsýni og kaldhæðni. Betri mannkosti er nú varla hægt að hafa, nema þá að hafa með þessu góðar hægðir, mjög áríðandi. Eins er að minnast á hvað þú ert orðinn heilbrigður, það er alveg ógeðslegt, hættur að reykja, farinn að borða hollt, hreyfir þig reglulega, þetta er alveg skelfilegt ástand.

  En ég mæli með því að þú hættir að umgangast svona pakk sem að fer svona illa með þig og skellir þér á AA fund, jafnvel á karlafund á mánudegi, og takist á við þetta verkefni sem breytt viðhorf eru.

  Það er til lausn.

 2. G.org: Á mánudagskvöldum er ég upptekinn við að hella rafgeymasýru í augun á mér. Öll önnur kvöld er ég laus.

 3. Þú ert hólpinn Siggi! Það eru karlafundir á fleiri dögum í vikunni.ni.ni.

 4. Þú snertir streng í brjósti mínu(36DD)í þessari umfjöllun þinni um faríseaelítuna.
  Mér hefur skilist að það sé þessum prívatguði fárra útvaldra þóknanlegast að mæta með eintak af “The Amplified Bible” uppá vasann að ógleymdum reglulegum mætingum á. AA-fundum fyrir enskumælandi.

  Svona fólk þarf sárlega á saltstólpaþerapíu að halda…

 5. Siggi, getur alltaf tekið svo til við að hella maurasýru í augun á þér aðra daga. Þá ertu alveg hólpinn, já svei mér þá. Hreinlega alveg hólpinn.

 6. Já, og það er ekkert smá sem ég elska Jésum tilbaka. Var það ekki hann sem lék þarna í myndinni með krossinum og öllu veseninu?

 7. Sigurður þú bjargar geðheilsu minni hvað eftir annað með skrifum þínum.
  Þú hefur tólftað mig meir en flestir.

 8. Þetta er eins og stólpípufíklarnir, alltaf upp í rassgatinu á sjálfum sér.

  Siggi, Þekkir þú Loðbjörn? Hann er mjög loðinn.

 9. Stundum verð ég voðalega fegin því að vera ekki karlmaður. Hvað þá heimskur karlmaður… heimskur karlmaður í hópi misheimskra karla sem keppast á sinn karlalega hátt við að vera sem karlalegastir. Ropa og kúka og berja. ÉG ER KARL, ÉG ER KARL. ÉG skal aðstoða þig við sýruhellingar á mánudögum, þó ekki nema bara til að forða þér frá því að hanga með níðingum sem almættið hefur sett í sóttkví.

  Einmitt… ef maður lemur einu sinni konuna sína þá er það vegna þess að maður er bilaður.
  Ef maður rekur hóruhús þá er ástæðan ekki of mikil bjórdrykkja heldur einfaldlega siðblinda og hún hverfur ekki svo glatt.

 10. ef það er til almætti þá hef ég enga trú á því að það standi fyrir þessari sóttkví sem bestarinn tíundar…..

Comments are closed.