Arnheiður

Um daginn sagði ég dóttur minni sögu af mér þegar ég var nemandi í viðurstyggilegum Kópavogsskólanum. Ég hef verið u.þ.b tíu ára gamall, alveg fyrirtaks nemandi sem skaraði mjög svo fram úr bekkjarfélögum mínum. Krakkarnir sem voru með mér í bekk voru nefnilega langflestir jaðarfábjánar. Þannig að vera gáfum gæddur, gerði það óumflýjanlega að verkum að ég skar mig talsvert úr; má jafnvel segja að ég hafi uppskorið óskipta aðdáun samnemenda minna. Sú aðdáun tók á sig hinar ýmsustu birtingarmyndir, flestar höfðu eitthvað með ofbeldi að gera.

Sagan sem ég sagði litlu dóttur minni var á þá leið að ég var staddur í stafsetningarprófi hjá henni Arnheiði umsjónarkennara. Ég var langbestur í stafsetningu í öllum bekknum, einhver sótti þó fast á hæla mér, en mér brestur minni hver það var. Gott ef það var ekki stúlka sem hét Berghildur, kölluð Begga. Alveg prýðileg stúlka, sem einnig virtist koma frá heimili þar sem báðir foreldrar voru læsir. Undantekningalaust fékk ég 10 í einkunn á stafsetningarprófi, nema í þetta eina skipti, þá fékk ég 9.5 og hafði ég þá gert eina móður-ríðandi skyssu. Sú skyssa varð mér og kennaranum dýrkeypt, þar sem ég reif upp úr skólatösku minni haglaby…. Nei, nei, nei, nei. Haltu hestum þínum innan girðingar: Ég var ekki farinn að dreyma vota drauma um blóðsúthellingar með haglabyssu að vopni; ekki á þessum aldri.

Ég hinsvegar hrifsaði stafsetningarprófið mitt úr greipum hennar Arnheiðar og reif það í tætlur. Arnheiður sem var hin virðulegasta kona, vissi ekkert hvernig hún átti að bregðast við þessu uppátæki mínu, svo hún gapti bara. Ég fór heim til föðurhúsa með nístandi samviskubit. Það kom mér á óvart hversu illa ég réð við skapið í mér. Ég skildi engan veginn hvernig ég – sem var ósköp indæll lítill drengur – gat verið fær um að sýna vanþóknun mína á jafn afdrifaríkan hátt og raun bar vitni.

Um nóttina gat ég varla sofið, svo mikið kveið mér að þurfa að takast á við næsta skóladag. Þegar ég svo settist við borðið mitt í skólastofunni – ægilega niðurlútur – hélt Arnheiður ræðu yfir bekknum. Ég man ekkert hvað hún sagði í þessari ræðu, en ég veit innst í hjarta mínu að þessi ræða gerði mig að þeim manni sem ég er í dag: Útúrtaugaður, dramatískur í tilfinningalegu ójafnvægi sem kemur fyrir eins og samkynhneigður maður með átröskun.

11 thoughts on “Arnheiður”

  1. Ég var settur í Kópavogsskóla til að afplána 6 ára bekkinn. Ég man ekkert eftir neinum í skólanum eða eftir skólanum sjálfum. Það eina sem ég man er að “vinur minn” átti heima á álfhólsveginum og hann átti þennnan risastóra forláta krana (sem hefur þó líklega verið innan við metri á hæð) og lékum við okkur með hann saman.

    Síðan hefur móðir mín sagt mér að þegar hún fór með mig í skólann fyrsta skóladaginn hafi ég bókstaflega farið á límingunum; misst vitið af ótta við hið óþekkta. Ég man auðvitað ekkert eftir þessum degi, þess í stað hefur hugur minn ákveðið að geyma hina mjög svo merkilegu minningu um kranann..

  2. Já en Sigurður þá þakka ég Arnheiði fyrir ræðuna góðu. Því það er svo gaman að rabba við útúrtaugaða manninn sem minnir á homma með átröskun. Hann er svo skemmtilega öðruvísi. Ekki bolur, ekki hnakki, ekki jakki. Hvað er hann? Hver er hann? Mar veit aldrei á hverju maður á von frá honum.

  3. Nú er ég ekki með átröskun, en til mig samt hafa komizt að því hvað það er sem við Sigörður eigum sameiginlegt…

  4. En dýrlega að orði komist! Mikið eruð þið prýðileg. Það er leitin af öðru eins fyrirtaki.

  5. Já, saga þín um þennan forláta Kópavogsskóla minnir mig mikið á viðbjóðslega tíma mína í Austurbæjarskóla 9.og fokkin 10.bekk..Nema það að krakkarnir sem áttu við einhver vandamál að stríða þar voru krakkar sem þjáðust af þeirri blekkingu að þau væru töff..Þau voru öll mjög mikið meðalfólk og engin af þeim bar neitt sérstaklega af..

    Þannig var það nú bara…But I showed them…Haahaahaaa!

    I was an angry teenager..

    En alla mína samúð færðu Siggi minn..Og ég var líka eiginlega best í stafsetningu í mínum bekk lengi vel..I feel your pain man..

  6. ég var vandræðagaurinn sem var sífellt til ama og leiðinda í mínum barnaskóla, en samt vann ég til verðlauna fyrir framúrskarandi árangur í íslensku. það fannst mér aftur á móti ekki nógu kúl.
    Ég meina veit einhver til þess að Sid Vicious hafi unnið til verðlauna fyrir árangur í skóla?

  7. Mér finnst hrikalega töff að vera lunkinn í stafsetningu – tek út fyrir að lesa texta eftir fólk sem ekki kann -n/-nn regluna. Já, svo er mér virkilega illa við fólk sem kann ekki að beygja læknir rétt (Þetta er fyrir þig Allý).

  8. Það er gott að sjá hve vel hefur ræst úr þér Sigurður minn og stafsetningin til fyrirmyndar eins og áður.

  9. “They hurt you at home and they hit you at school,
    They hate you if you’re clever and they despise a fool,
    Till you’re so fucking crazy you can’t follow their rules”

    (lennon)

Comments are closed.