Bless Óðinsgata

Fyrir viku síðan fékk ég mig fullsaddan af Óðinsgötunni og ungu áfengissvolgrandi ríðurunum sem deildu með mér húsi.

Hvað gerði útslagið?

Í góðærinu sem leið komst það í tísku að vera með heitan pott í miðju íbúðarhverfi. Eftir erfiðan dag í Kauphöllinni þótti gott að koma heim, skella sér í pottinn, drekka kampavín og stunda fjölbreytilega kynlífsleiki af þeirri tegund sem gaman er að taka upp á símann sinn og senda tengdó upp í Breiðholti. Fyrir einhverjum árum síðan, löngu áður en ég fluttist á Óðinsgötuna, steypti eigandi efri hæðarinnar meðfram húsinu heitan pott. Gallinn á þeim potti var sá að hann var staðsettur beint fyrir utan eldhúsgluggann á íbúðinni minni.

Til þessa höfðu nágrannar mínir sýnt mér þá tillitsemi að lauga sig ekki í pottinum. En tillitsemi er fyrir kattelskandi aumingja. Að sýna tillitsemi eyðileggur alla þá skemmtun sem hafa má út úr að runka sjálfum sér á kostnað annarra. Það var svo fyrir viku síðan, þegar ég kom heim eftir annasaman dag, að ég sá þau vera að skrúbba og sjæna pottinn fyrir gillerí sem til stóð að halda um helgina.

Hefði þarna verið um sómakært fólk að ræða, hefði því í það minnsta fundist svolítið einkennilegt að bera á sér rassaboruna einungis hálfan metra frá glugga nágrannans. En ekki þessu fólki. Þau eru frjáls fyrir eigin líkama og vilja fyrir alla muni leyfa nágrenninu að njóta þess að horfa upp á öll aukakílóin sem þau hafa svo ötullega safnað utan á sig. Þeim hefur ugglaust fundist ég lukkunnar pamfíll að fá að glápa á þau, meðan ég hlustaði á Víðsjá og gæddi mér á speltbrauði og hummus.

Eftir að mér varð ljóst í hvað stefndi, brjálaðist ég innra með mér. Gremja og óþverri sem ég hélt ég hefði losað mig við með Zen hugleiðslu og úberjóga bullsauð á mér. Eftir að hafa gengið fram og aftur um íbúðina, tautandi fyrir munni mér: Drepa, drepa, drepa, – settist ég niður og skoðaði nokkrar húsnæðisauglýsingar. Leigumarkaðurinn er óþverri og saup ég hveljur yfir okrinu og hryllingnum.

En bíðið nú við: hvað er þetta? Lítið sumarhús í stórum bakgarði í litla Skerjarfirði, á sama verði og kjallarinn á Óðinsgötu. Jeminn einasti og guð í himinhæðum. Ég hringdi í leigusalann og mælti mér mót við hann. Þegar ég sá húsið, ákvað ég með sjálfum mér að hér ætlaði ég að eiga heima. En sætt lítið rómantískt hús. Sá sem sýndi mér það, tjáði mér að eitthvað í kringum 30 manns hefðu sýnt því áhuga. Hann bað mig um að senda sér stutta útlistun á eigin ágæti með rafskeyti, sem ég og gerði. Sama dag, ákveðinn í að ég væri að fá þetta hús, hóf ég að pakka saman. Á sunnudaginn hringdi þessi prýðismaður í mig og bauð mér húsið til leigu. Ég var fluttur á mánudeginum með hjálp góðra manna.

Ég er ægilega lukkulegur, eins og má sjá á þessari mynd. Og ekki er Avraham fúli kötturinn í þessu sérkennilega máli. Hann hefur núna, frá og með deginum í dag, í fyrsta skipti fengið að hlaupa um frjáls og hamingjusamur veiðandi flugur í fallegu sumarveðri í 101 Reykjavík. Já, ég er auðvitað ennþá í 101 sko.

15 thoughts on “Bless Óðinsgata”

  1. já eða þau hafa bara hugsað að þau vilji ekki láta þennan fúla kall í kjallaranum sem er með holdarfar annarra á heilnum, skemma það fyrir sér að langa að fara í pott!

    grín

    mér finnst samt ekki fallegt þetta viðhorf hjá þér og vinkonu þinni að feitt fólk eigi bara að skammast sín og loka sig inni, alls ekki sjást fyrir augum grannra, ekki furða að feitt fólk þori oft ekki í líkamsræktarstöðvar þegar þeirra bíður augngotur frá fordómafullum mjóslum

    til hamingju með flutninginn

  2. Þó það væru ekkert nema tvítugar gellur með óaðfinnanlegan líkama að baða sig fyrir utan eldhúsgluggann minn, þætti mér nóg um. Mér þykir hinsvegar ekki tiltökumál að sjá fólk á sundskýlu í sundi.

    Mér er sama um aukakíló annarra, svo fremi sem það er ekki einhver sem mér þykir vænt um og er að stofna sjálfum sér í hættu vegna offitu. Ég hef síðan ég man eftir mér haft mikla þráhyggju um eigið holdarfar og um það er ég að skrifa.

    Jæja, þá er ég búinn að útskýra sjálfan mig. Afhverju var ég nú að því?

  3. Ég hefði getað útvegað þér fallegt hús í breiðholtinu með eigin potti á litlar 90 milljónir, skil ekkert í þér!

  4. ok ég hélt bara þú værir með einhverja fordóma af því þú talar alltaf um holdarfar þeirra til að leggja áherslu á hversu ógeðsleg þau eru þegar þú nefnir þau:)

    og mér fannst það einhvern vegin pinku eins og mér þætti allir sem fara í AA til að ná tökum á lífi sínu algjörir aumingjar og ógeð… (þar sem ég hef aldrei drukkið eða notað önnur vímuefni)

  5. Já hvað er með þessa fitufóbíu Siggi. Önnur hver færsla fjallar um að einhver sé of feit/feitur. Geturu ekki fengið eitthvað við þessu?

  6. Ég hef þróast úr partíhaldaranum á efri hæðinni í fúla kallinn á neðri hæðinni. Hvar hafa dagar lífs míns lit sínum glatað?

  7. Í kakkþæfðri blekkingu Ariel Color eftir stefnulaust volk í heimsins hitapottum…so it goes!

  8. ætla ekki aö tjá mig um holdafar enda frekar óspennandi umræða (enda alltof þungur sjálfur og forðast efnið)

    það er eitthvað spúki við þetta hús, eitthvað eins og úr Grimms brothers. Sem gæti eftir alltsaman tengst fitun á einhvern hátt

  9. Hmmm Grimms ævintýri. Kannski er efri hæðin búin til úr sætabrauði og brjóstsykri og neðri hæðin búin til úr speltbrauði og hummus.

  10. Vinnufélagi minn leigði þennan skúr á undan þér, það blæs í gegn á veturna, ég hélt að það væri ekki neitt internet þarna, var það lygi í honum? Jæja, til hamingju með þetta 🙂

  11. Mér skilst að fleiri vinnufélagar þínir séu í aðalhúsinu. Þú ættir kannski að lauma að mér WPA lyklinum sem þeir eru að nota. Annars dugar 3G frá Nova. Ég fer upp í akademíu ef ég þarf að kúka stórt. Svo á ég rafmagnsteppi til að hlýja mér á köldum vetrarnóttum.

Comments are closed.