Byrði fullorðna fólksins, eða “úr einu í annað” þvaður fullvaxta karlmanns á breytingarskeiðinu.

En sú kvöð að vera orðinn fullorðinn. Það er gert ráð fyrir því að maður kominn á fertugsaldur hafi áhuga á allskyns leiðindum. Þvílík mæða. Ég neita að taka þátt í þessum sirkus mannskepnunnar. Ég nenni ekki að hafa fyrir því að gera sjálfan mig gáfulegan í framan meðan ég reyni af sérstakri fákunnáttu að tjá mig um hitamál líðandi stunda. Sú krafa er þó gerð á mann á mínu reki að hann beri eitthvað skynbragð á pólitík og önnur ámóta leiðindi. Það er svo langur vegur frá því. Ég meira að segja vinn markvisst gegn því að mynda mér skoðun á þeim málefnum sem bera hæst.

Einnig er gert ráð fyrir að ég sem fullorðinn karlmaður, hafi einhvern sérstakan áhuga á þartilgerðum male bonding ritúal. Því fer víðsfjarri. Ég ræði ekki við karlmenn sem ég þekki lítið sem ekki neitt um karlamálefni. Á siglingu minni um lífsins ólgusjó hef ég fyrirhitt fulltíða karlmenn sem vilja ræða við mig um neðri byggðir kvenna. Hvernig stendur á því að þeir draga þá ályktun að ég hafi einhvern áhuga á að ræða þennan sívinsæla hluta konulíkamans? Jú, þeir ganga út frá því vísu að við sem kynbræður, bindumst leyndardómsfullum böndum í gegnum dindilinn á okkur.

Hér missi ég svo þráðinn og byrja að röfla.
image021.jpegÉg man svo sérstaklega eftir, þegar ég var presenteraður fyrir fyrrum orthodox gyðingi sem nýbúið var að höggva lokkana af. Við vorum fjegur, tvær konur og tveir karlar. Við gengum um fjölfarna götu í Brandararíkjunum, konurnar gengu á undan og ræddu fatnað og hvað væri kosher og hvað væri ekki kosher og mér og þessum fyrrum “Baruch attah” var uppálagt að leggja ástund á einhverja tegund af male bonding þar sem við lúpuðumst á eftir þeim. Hann, sem var töluvert betur að sér í mannlegum samskiptum, upphóf klámfengið tal við mig, þess viss að það væri örugg leið til að kynnast mér. Ég varð eins og helvítis asni, og vissi ekki hvernig ég átti að bregðast við. Hann hefur líklega þarna á fyrstu mínútunum talið mig þrælsamkynhneigðan. Talið barst að gyðingdóm og poppbókmenntum. Þegar líða fór á kvöldið, kom í ljós að hann var sá eini af okkur sem var reglulega heilsteyptur. Hann hafði hlotið þjálfun í mannlegum samskiptum og þar á meðal male bonding, svo vitanlega tjaldaði hann því sem hann þekkti í þeirri hugsun að koma vel fyrir. Eitthvað annað en ég, sem alltaf hef átt félag við bölvaðar teprur og kann þar af leiðandi ekki gefandi samskipti fullvaxta karlmanna. Þessi veflókur ætti að heita, úr einu í annað. Eða tilgangslaust þvaður manns á breytingarskeiðinu. Ég held ég kalli hann: Byrði fullorðna fólksins, eða “úr einu í annað” þvaður fullvaxta karlmanns á breytingarskeiðinu.

2 thoughts on “Byrði fullorðna fólksins, eða “úr einu í annað” þvaður fullvaxta karlmanns á breytingarskeiðinu.”

  1. Check your gmail!
    …í dag ætla ég að bonda við þokkadísina í sjálfri mér(les.stunda fornleifauppgröft) og fara að hitta tálakkarann. Það er ekkert sem hreinsar sálina eins og fótsnyrting.

  2. Ó Sigurður!! Þú VEIST ekki hverju þú ert að MISSA AF!!! Male bondage er einn af HORNSTEINUM TILVISTAR MINNAR!

    ég hreinlega ÆPI ef ég fæ ekki MALE BONDAGEIÐ mitt REGLULEGA!!!

Comments are closed.