SiggiSiggiBangBang

Bölvað píp

Sep
15

Mikið ósköp leiðist mér blogg þessa daganna, og þá alveg sérstaklega mitt eigið. Ég hef af þessu tilefni tekið mig til og sett stopp á að blogg.gattin.net geti birt nýjustu færslurnar mínar. Ég hef engan áhuga á að vera hluti af íslensku bloggsamfélagi.

Vertu vinur minn á facebook eða ég drep mig!

Sep
13

Í hádeginu í dag hitti ég fyrir mann, sem ég bað um að verða svokallaður vinur minn í netsamfélaginu facebook. Ég sagði honum að hefði hann ekki samþykkt að verða vinur minn á facebook, hefði ég og ekki átt annarra kosta völ en að drepa mig. Ég hefð tekið þeirri höfnun sem óyggjandi sönnun þess að ég er ömurlegur, og við það uni ég ekki. Ég hef ekkert við það að athuga þó annað fólk sé ömurlegt, en ég get ekki undir nokkrum kringumstæðum orðið uppvís af því sjálfur.

Svo varð úr að ég fór að íhuga það með sjálfum mér hvort til sé fólk sem tekur því illa ef einhver vill ekki vera vinur viðkomandi í netsamfélagi af þessu tagi. Ég tel líklegt að sumir láti það stjórna lífi sínu og líðan, hver hafi samþykkt að gerast bloggvinur þeirra. Allavega þegar ég skoða viðurstyggilega veflóka morgunblaðsins, sé ég ekki betur en að mörgum þyki afskaplega elegant að raða upp í dálk bloggvinum sem eru: “nafntogaðir.” Ég leyfi mér að setja orðið nafntogaðir inn í eldhressar gæsalappir, rétt til að ýja að því: að sitt sýnist hverjum um frægð manna í fjölmiðlum hérlendis. Ég hef setið til borðs með fólki sem talar um að þessi og hinn sé vinur þeirra á myspace. Ég hinsvegar spyr: hvað þýðir það nákvæmlega? Þýðir það að ef einhver sem manni sjálfum þykir hipp og kúl vill vera yfirlýstur vinur manns í netsamfélagi, að maður sjálfur sé þar með orðinn hipp og kúl? Eða hvað tilgangi þjónar þetta?

me_and_a_turtle_small.jpgHvað er ég að gera á facebook? Ég er ekki á facebook að leita af ástinni, það eitt er klárt. Ástæðan fyrir að ég skráði mig þarna fyrir nokkrum mánuðum síðan er sú að árið 1995 var ég staddur út í Ísrael á samyrkjubúi, með fjöldanum öllum af fólki víðs vegar að úr heiminum. Þetta var áhrifamikill tími í mínu lífi og hef ég oft og mörgum sinnum velt því fyrir mér hvað hafi orðið af þeim sem mér þótti einna vænst um. Rétt upp úr páskum setti maður sig í samband við mig, sem ég hafði kynnst á þessum tíma. Hann var orðinn auðugur lögfræðingur, eins og oft er með gyðinga. Hann sagði mér að á facebook, væru meira og minna allir þeir sem ég hafði kynnst á samyrkjubúinu skráðir notendur. Hann stakk upp á að ég skráði mig, svo ég gæti tíundað hvað á daga mína hefði drifið.

Ég tel mig vera búinn að gera grein fyrir hvers vegna ég er þarna staddur. Ég hef þó gaman af því endrum og eins að skoða hverja er þarna að finna. Stundum þegar vel liggur á mér, bið ég meira segja fólk sem ég hef kynnst á lífsleiðinni um að gerast vinir mínir, svo ég geti montað mig af því eins og um frímerkjasafn sé að ræða.

Rúmfatahyskislagerinn

Sep
11

Mér finnst fátt fyndnara en fólk sem lifir í þeirri trú að það sé alltaf verið að hlunnfara það. Ég var einmitt staddur í Rúmfatahyskislagernum um helgina, þegar ég varð var við óánægjuhljóð í ungu pari sem var þarna í rómantískri laugardagsgöngu. “Það er ekki hægt að fá neina þjónustu hérna,” hnussaði feitlagin stúlkan, þess fullviss að þetta væri samsæri gegn henni og opinmynntum kærasta hennar. Hann stóð við þétt við hlið hennar og tók heilshugar undir ummælin: “Hverskonar verslun er þetta eiginlega.”

Ég reyndar man ekki hvort hún hafi verið feitlagin, eða hvort hún hafi bætt á sig 30 kílóum í hausnum á mér síðan þau fönguðu athygli mína. Í minningunni er ég líka búinn að setja á hann svona hvíta hnakkahúfu, eins og þykir móðins meðal vaxtarræktarhnakka. Og þarna stóðu þau, með mig sem vitni. Hann opinmynntur og hún svínalin á McDonald’s. Allt þeirra líf hafði einhver með beinum eða óbeinum hætti svindlað á þeim, eða ekki sinnt þeim, þegar þau höfðu svo rækilega unnið sér inn viðurkenningu meðbræðra sinna.

Ég sat með Obi Wan Kenobi fyrr í dag. Hann hafði orð á að engu væri líkara en ég væri orðinn fordómalaus með öllu. Já, eins og um töfrabrögð væri að ræða, sagði hann. Ég vildi ómögulega eyðileggja mómentið með að segja þessum andlega leiðtoga mínum frá því þegar ég brá mér af bæ til að kaupa mér tvo sófapúða í Rúmfatahyskislagernum.

Pikkfast í hausnum á mér

Sep
08
[MEDIA=139]

Hljómar vel á klarinett líka.

The One That Got Away

Sep
07

Mér núna á þessari stundu er hugleikið lagið hans Tom Waits: The one that got away. Hvers vegna, veit ég ekki.

Veflókar Comments Off on The One That Got Away

Minnismiði til sjálfs míns

Sep
06

[MEDIA=16]

Lífið er alltof stutt til að standa í leiðindum.

Hvar verð ég staddur þegar dauðinn vitjar mín?

Sep
04

deathbed.jpgEn skelfilegt að hugsa svona, gæti einhverjum komið til hugar. Mér finnst hinsvegar fátt eðlilegra en að spyrja sig þessarar spurningar. Að velta því fyrir sér hvar maður verður staddur á þessari ögurstundu, hefur ekkert með þunglyndi eða lífsleiða að gera. Ég persónulega hef tildæmis ákveðið að ég ætla að deyja heima hjá mér og þegar ég tala um heima hjá mér, þá ég ekki við kytru í þjónustuíbúðum aldraðra. Nei, ég er að tala um húsið mitt, þar sem ég ætla að eyða síðustu tuttugu árunum mínum í. Þar ætla ég að liggja fyrir dauðanum í svefnherbergi með risastórum gluggum og hvítum smekklegum gluggatjöldum. Þegar vindar blása, flaksa gluggatjöldin til og frá. Ef mér vegnar sæmilega á næstu árum, ætla ég að ráða mann í að spila á píanó tónlist eftir Eric Satie og Chopin; allavega rétt á meðan ég brenni síðustu dropunum.

Meðan ég bíð þolinmóður eftir dauðanum, ætla ég að reyna eftir fremsta megni að vera snyrtilegur til fara. Það hefur tíðkast, að vera uppábúinn við hátíðleg tilefni. Að deyja, er í mínum huga alveg jafn hátíðleg uppákoma og gifting og skilnaður. Ég verð því prúðbúinn á banalegunni.

Þegar ég hugsa um aðstæður, þá þykir mér ekki svo mikilvægt að ég sé umkringdur fólki. Mér finnst þó mikilvægt að ég eigi ennþá minningar mínar um ævintýralega ævi. Ég veit að á þessari stundu, verð ég ánægður og sáttur í hjarta mínu. Ég kem til með að horfa um farinn veg, með ekki svo mikið sem snefil af eftirsjá.
Þegar í mér hryglir, skipta þessir litlu hallærislegu hlutir – sem ég að öllu jöfnu gef vægi – ekki neinu rassgatsmáli. Hvort einhver hafi þrifið helvítis sameignina vel eða illa, er ekki eitthvað sem ég kem til með að eyða mínum síðustu stundum í. Mér verður slétt sama um allt prjál mannanna.

Já, það verður líf og fjör, þegar ég geyspa golunni. Öllum er frjálst að mæta. Boðið verður upp á grænt þvaglosandi te.

Ísland, Ísland über alles

Aug
28

fasteignasalar.jpg Ég veit ekki alveg hverju sætir, en ég hef aldrei verið jafn sáttur við að eiga heima á þessu bannsetta landi. Froðufellandi syng ég og spila á klarinett íslenzk dægurlög. Bjúgu, tólg og harðfiskur eru hér á borðum í hvert mál. Ísland, Ísland über alles. Þessi nýtilkomna ættjarðarást, hefur orðið þess valdandi að í sumar hef ég fylgst náið með fasteignamarkaðnum. Það eru töluverð umskipti frá því í vetur, þegar ég lét mig dreyma um sveitahús á Ítalíu.

Tilfellið er þó, að ég er orðinn þreyttur á að leigja, og langar gjarnan til að koma mér fyrir í mínu eigin húsnæði. Í draumum mínum sé ég sjálfan mig koma heim eftir erfiðan dag á skrifstofunni, ég andvarpa léttilega er ég geng inn, ég set ketilinn yfir hlóðir, kveiki upp í arninum, stilli á rás 1 og hlusta þreyttur og sáttur á Víðsjá, meðan ég sýp teprulega á tebolla. Ó guð, hvað hefur orðið um mig?

En þessi vefpistill er ekki um hversu vel ég er að tengjast mínum innri íslendingi, þjóðarrembu, eða neitt í þá veruna, heldur er hann um fasteignasala, sem er að mér sýnist samansafn af legátum og drulluháleistum. Nema náttúrulega engillinn okkar hann Bytta Bytta Johnson, sem alltaf hefur virkað á mig eins og klettur í lífssins ólgusjó. Allir aðrir en hann, eru kúkakallar.

Myndin sem prýðir veflók þennan, er af fasteign einni, sem ekki hefur farið framhjá neinum sem hefur fylgst með fasteignamarkaðnum. Þessi blessaða húseign hefur dúkkað upp endurtekið, undir nýjar eignir á vinsælum fasteignavef morgunblaðsins. Þegar ég tók fyrst eftir þessu húsi, ímyndaði ég mér að líklega væri töluvert fyrir því haft að selja það. Það eitt að eignin er staðsett við Hringbraut – sem er ein af meiri umferðargötum borgarinnar – er nóg til að ég allavega hleyp ekki til og sel bankanum sálu mína til að geta búið þar. Nei, ég vill ekki þurfa að hlusta á bíla bruna framhjá og anda að mér koltvísýrung, meðan ég slaka á og drekk kamómílute eftir amstur dagsins; það er einfaldlega ekki nógu fínt fyrir mig. Nóg þótti mér að búa við Laugarveg í fjögur ár og hlusta á óargadýrin skíta, pissa og gubba, helgi eftir helgi.

Síðan ég fór að taka eftir þessari húseign, hefur hún í auglýsingum verið staðsett við Hringbraut og ef ég man rétt, þá hefur hún til þessa kostað í kringum 24 milljónir. Í síðasta skiptið sem hún fór að birtast aftur sem ný eign, er hún hinsvegar auglýst sem hús við Tjarnargötu, og ekki nóg um það, heldur er hún orðin 5 milljónum dýrari en hún var þegar hún var skráð við Hringbrautina. Jú, hún stendur á horni Hringbrautar og Tjarnargötu, en hún er skráð sem eign við Hringbrautina. Hún er ekki bæði húsnúmer á Tjarnargötunni og Hringbrautinni.

Það að ég hafi veitt þessu athygli, verður til þess að ég set í vænisýkisgírinn, sem hefur virkað svo vel fyrir mig í ástarlífinu, svo ekki sé talað um í viðskiptum.

out of the races

Aug
27

Lagið sem ég hefði gjarnan viljað dansa við, hefði ég farið á dansiball um síðustu helgi. Illir og forpokraðir vættir komu í veg fyrir að ég léti loks verða af því að fara á Nasa og dansa sokkana af mér. Ekki að þetta lag sé spilað á Nasa, né nokkrum öðrum dansifyllerísgubbustöðum hér á Íslandinu góða.
Out of the races með The Rapture er eitt af mörgum væni- og geðhvarfasýkis lögum sem prýða títtumrædda Rules of Attraction. Atriðið sem er afskaplega eftirminnilegt, sýnir Paul hinn samkynhneigða ögra hómófóbíupabbastráknum Mitchell Allen, með ágengum dansi.

[MEDIA=140]

Hin glæsilega Mia Farrow

Aug
27
26.jpg

You are what you like.

Veflókar Comments Off on Hin glæsilega Mia Farrow

celebbus grand fortimuss di islandia

Aug
27

Ég fór einu sinni á ægilega fínan bar á Laugavegi. Allir sem eitthvað vega í þjóðfélaginu voru þarna. Ég var svo upp með mér. Þarna voru Nonni(26), Gunna(41), Óli(38), Elín(33), Gummi(24), Berglind(28), Súsanna(39), Auðbjörg(27) og Gunnlaugur(35). Ég sá ekki betur en að Berglind(28) og Nonni(26) væru í hörkusleik; hver hefði trúað því – ekki nema vika síðan hún og Ingi(34) hættu saman.

My name is Dick

Aug
26

Kúnstin er að leika þetta eftir bláedrú, og ef það flokkast ekki undir það að vera hamingjusamur, glaður og frjáls, þá er ég gersamlega á villigötum.

[MEDIA=141]

Myndin er Rules of attraction, sem hefur verið í uppáhaldi frá því ég sá hana fyrir 5 árum síðan; í henni gefur meðal annars að líta eitt af flottustu sjálfsmorðsatriðum bíósögunnar. Undirritaður hefur mikið dálæti á sjálfsmorðum og sjálfsmorðsatriðum.

Kvikmyndir, Veflókar Comments Off on My name is Dick