Ég veit ekki alveg hverju sætir, en ég hef aldrei verið jafn sáttur við að eiga heima á þessu bannsetta landi. Froðufellandi syng ég og spila á klarinett íslenzk dægurlög. Bjúgu, tólg og harðfiskur eru hér á borðum í hvert mál. Ísland, Ísland über alles. Þessi nýtilkomna ættjarðarást, hefur orðið þess valdandi að í sumar hef ég fylgst náið með fasteignamarkaðnum. Það eru töluverð umskipti frá því í vetur, þegar ég lét mig dreyma um sveitahús á Ítalíu.
Tilfellið er þó, að ég er orðinn þreyttur á að leigja, og langar gjarnan til að koma mér fyrir í mínu eigin húsnæði. Í draumum mínum sé ég sjálfan mig koma heim eftir erfiðan dag á skrifstofunni, ég andvarpa léttilega er ég geng inn, ég set ketilinn yfir hlóðir, kveiki upp í arninum, stilli á rás 1 og hlusta þreyttur og sáttur á Víðsjá, meðan ég sýp teprulega á tebolla. Ó guð, hvað hefur orðið um mig?
En þessi vefpistill er ekki um hversu vel ég er að tengjast mínum innri íslendingi, þjóðarrembu, eða neitt í þá veruna, heldur er hann um fasteignasala, sem er að mér sýnist samansafn af legátum og drulluháleistum. Nema náttúrulega engillinn okkar hann Bytta Bytta Johnson, sem alltaf hefur virkað á mig eins og klettur í lífssins ólgusjó. Allir aðrir en hann, eru kúkakallar.
Myndin sem prýðir veflók þennan, er af fasteign einni, sem ekki hefur farið framhjá neinum sem hefur fylgst með fasteignamarkaðnum. Þessi blessaða húseign hefur dúkkað upp endurtekið, undir nýjar eignir á vinsælum fasteignavef morgunblaðsins. Þegar ég tók fyrst eftir þessu húsi, ímyndaði ég mér að líklega væri töluvert fyrir því haft að selja það. Það eitt að eignin er staðsett við Hringbraut – sem er ein af meiri umferðargötum borgarinnar – er nóg til að ég allavega hleyp ekki til og sel bankanum sálu mína til að geta búið þar. Nei, ég vill ekki þurfa að hlusta á bíla bruna framhjá og anda að mér koltvísýrung, meðan ég slaka á og drekk kamómílute eftir amstur dagsins; það er einfaldlega ekki nógu fínt fyrir mig. Nóg þótti mér að búa við Laugarveg í fjögur ár og hlusta á óargadýrin skíta, pissa og gubba, helgi eftir helgi.
Síðan ég fór að taka eftir þessari húseign, hefur hún í auglýsingum verið staðsett við Hringbraut og ef ég man rétt, þá hefur hún til þessa kostað í kringum 24 milljónir. Í síðasta skiptið sem hún fór að birtast aftur sem ný eign, er hún hinsvegar auglýst sem hús við Tjarnargötu, og ekki nóg um það, heldur er hún orðin 5 milljónum dýrari en hún var þegar hún var skráð við Hringbrautina. Jú, hún stendur á horni Hringbrautar og Tjarnargötu, en hún er skráð sem eign við Hringbrautina. Hún er ekki bæði húsnúmer á Tjarnargötunni og Hringbrautinni.
Það að ég hafi veitt þessu athygli, verður til þess að ég set í vænisýkisgírinn, sem hefur virkað svo vel fyrir mig í ástarlífinu, svo ekki sé talað um í viðskiptum.