Ísland, Ísland über alles

fasteignasalar.jpg Ég veit ekki alveg hverju sætir, en ég hef aldrei verið jafn sáttur við að eiga heima á þessu bannsetta landi. Froðufellandi syng ég og spila á klarinett íslenzk dægurlög. Bjúgu, tólg og harðfiskur eru hér á borðum í hvert mál. Ísland, Ísland über alles. Þessi nýtilkomna ættjarðarást, hefur orðið þess valdandi að í sumar hef ég fylgst náið með fasteignamarkaðnum. Það eru töluverð umskipti frá því í vetur, þegar ég lét mig dreyma um sveitahús á Ítalíu.

Tilfellið er þó, að ég er orðinn þreyttur á að leigja, og langar gjarnan til að koma mér fyrir í mínu eigin húsnæði. Í draumum mínum sé ég sjálfan mig koma heim eftir erfiðan dag á skrifstofunni, ég andvarpa léttilega er ég geng inn, ég set ketilinn yfir hlóðir, kveiki upp í arninum, stilli á rás 1 og hlusta þreyttur og sáttur á Víðsjá, meðan ég sýp teprulega á tebolla. Ó guð, hvað hefur orðið um mig?

En þessi vefpistill er ekki um hversu vel ég er að tengjast mínum innri íslendingi, þjóðarrembu, eða neitt í þá veruna, heldur er hann um fasteignasala, sem er að mér sýnist samansafn af legátum og drulluháleistum. Nema náttúrulega engillinn okkar hann Bytta Bytta Johnson, sem alltaf hefur virkað á mig eins og klettur í lífssins ólgusjó. Allir aðrir en hann, eru kúkakallar.

Myndin sem prýðir veflók þennan, er af fasteign einni, sem ekki hefur farið framhjá neinum sem hefur fylgst með fasteignamarkaðnum. Þessi blessaða húseign hefur dúkkað upp endurtekið, undir nýjar eignir á vinsælum fasteignavef morgunblaðsins. Þegar ég tók fyrst eftir þessu húsi, ímyndaði ég mér að líklega væri töluvert fyrir því haft að selja það. Það eitt að eignin er staðsett við Hringbraut – sem er ein af meiri umferðargötum borgarinnar – er nóg til að ég allavega hleyp ekki til og sel bankanum sálu mína til að geta búið þar. Nei, ég vill ekki þurfa að hlusta á bíla bruna framhjá og anda að mér koltvísýrung, meðan ég slaka á og drekk kamómílute eftir amstur dagsins; það er einfaldlega ekki nógu fínt fyrir mig. Nóg þótti mér að búa við Laugarveg í fjögur ár og hlusta á óargadýrin skíta, pissa og gubba, helgi eftir helgi.

Síðan ég fór að taka eftir þessari húseign, hefur hún í auglýsingum verið staðsett við Hringbraut og ef ég man rétt, þá hefur hún til þessa kostað í kringum 24 milljónir. Í síðasta skiptið sem hún fór að birtast aftur sem ný eign, er hún hinsvegar auglýst sem hús við Tjarnargötu, og ekki nóg um það, heldur er hún orðin 5 milljónum dýrari en hún var þegar hún var skráð við Hringbrautina. Jú, hún stendur á horni Hringbrautar og Tjarnargötu, en hún er skráð sem eign við Hringbrautina. Hún er ekki bæði húsnúmer á Tjarnargötunni og Hringbrautinni.

Það að ég hafi veitt þessu athygli, verður til þess að ég set í vænisýkisgírinn, sem hefur virkað svo vel fyrir mig í ástarlífinu, svo ekki sé talað um í viðskiptum.

19 thoughts on “Ísland, Ísland über alles”

  1. Svo einkennilega vill til að ég get sagt þér allt um þetta hús – fædd og uppalin í Tjarnargötunni – skáhallt á móti bakgarðinum á Hringbraut 30 og 32 – sem eru samvaxin og deila með sér garði – sem var aldrei kallaður annað en portið af íbúum hússins.
    Enda alger grasleysa á helmingnum sem fylgdi nr. 30 en íbúarnir á 32 gátu státað af stórum hlyn sem stóð á grasbala upp við bílskúrsvegg sem tilheyrir Hringbraut 34.

    Ég hef ekki komið inn í garðinn í áratug og það gæti sossum verið að það væri grösugra þar nú – en einhvern veginn finnst mér það ólíklegt – enda skuggsælt þar nema fyrripartinn.

    Húsin voru byggð af Kristjáni sem var alltaf kenndur við Kassagerðina – sem hann stofnaði og rak til dauðadags. Hann dó í sumarleyfi í Bandaríkjunum í lok sjöunda áratugarins. Og af því að það má ekki flytja lík á milli landa öðruvísi en í sérstökum innsigluðum kistum – var haldin “wake” í U.S. of A og sonar dóttir hans, æskuvinkona mín sýndi mér ljósmyndir sem teknar voru við það tækifæri.
    Ég man hvað mér fannst skrítið að sjá hvað gamli maðurinn hafði yngst og fríkkað við að deyja – enda líksnyrtar mér algerlega framandi…

    En aftur að húsinu: Kristján og fjölskylda hans bjó á nr.32 en Framsóknarflokkurinn var með skrifstofu í kjallaranum á 30. Enda við hæfi að flokkurinn gæti sagst tilheyra hvorri götunni sem var. Efri hæðirnar voru leigðar út, til lþess er þá var kallað ,,barnafólk´´.

    Ég veit að neðri hæðin á 32 hefur verið í sölu – en sú íbúð var sýnd í “Innlit/útlit” fyrir u.þ.b. 2 árum. Þá hafði Elma Lísa leikkona ásamt manni sínum, keypt hana af dánarbúi frú Unnar Símonar,fyrrverandi tengdadóttur Kristjáns í Kassagerðinni – sem varð eftir í húsi tengdaforeldra sinna þegar hún og sonur þeirra skyldu um 1960. Innréttingarnar í því húsi eru afar vandaðar, en nr.30 var afar óspennandi og enginn íburður þar.
    Ég skal segja þér sögur af “eyjunni” eins og þetta hverfi er í mínum huga – því þetta svæði sem afmarkast af Bjarkargötu,Hringbraut,Suðurgötu og Skothúsvegi var eyland sem varla átti i stjórnmálasamskiptum við umheiminn. Yndislegur staður að alast upp á – og Vatnsmýrin nánast óbyggð. Þjóðminjasafnið staður þar sem þægir krakkar fengu að skoða beinagrindur og gamla peninga, málverk af ævafornum embættismönnum, vaxmyndasafn, sexæring (eða var það 8) ásamt skorpnuðum sjóklæðum sem gáfu frá sér þef sem aldrei hverfur úr minni mínu. En svo ég verði ekki vænd um “hostile take-over”, á þínu prívat bloggi, læt ég hér staðar numið.

  2. Þessi dularfulli sólgleraugnafýr tróð sér þarna á fölskum forsendum – þarna á að standa eða var það átta ( as in áttæringur).

    En varðandi ættjarðarástina, þjóðerniskenndina og búfestuþrána: Þetta eru ellimörk – nú viltu gera þér hreiður. Og klarinettuspilið kemur í stað mökunarkallsins.

  3. Þessi borubratti sólgleraugnafýr er sjálfumglaður fasteignasali, sem flytur inn eftirlíkingar á Rolex úrum í hjáverkum. Hann heldur til á Rex um helgar, þar sem hann segir hverjum þeim sem slysast til að eiga samskipti við hann – drepleiðinlegar fasteignasölusögur. Hann neytir steralyfja og á spánýjan Porche. Hvernig honum tókst að smygla sér inn í athugasemdakerfið á vefsetri mínu, vefst fyrir mér.

  4. Að alast upp á Tjarnargötunni er ekkert nema töff í mínum huga, enda eruð þér töffari Linda María.

  5. Úff, Siggi yndið mitt. Þarf maður nú að byrja allar athugasemdir á þig á því að reikna?? Jæja, það dregur þá amk úr ástríðunni í fullyrðingunum hjá manni. Það er gott.

    En að aðalefninu (fyrir utan miklar þakkir fyrir hlý orð), það eru 2 ágætar íbúðir til sölu í húsinu mínu við Hagamel. Af hverju ekki að skella sér í Vesturbæinn? Mig vantar so einhvern til að sitja með mér á svölunum og drulla yfir KR á fallegum sumarkvöldum.

  6. Það væri gamana að hafa ykkur í sömu blokkinu. Svo förum við í Melabúðina og kaupum lifrarpylsu og speltbrauð og hlægjum yfir rekkana.

  7. Er ég sá eini sem er að fíla þessa samlagningarsíu hjá Sigga?

    Slátur og spelt partí Jíííhaaaa
    Hljómar sérlega skemmtilegt, en Siggi þú verður þá að mæta með eina dísæta og sexí hnallþóru

  8. Falleg skreytingin efst á síðunni, það gleður mitt hjarta óumræðanlega mikið að sjá allan þennan fjölda eyðieyja. Til lukku með eyjaklasann.

    Við flytjum bara öll í blokkina til Byttu Byttu Johnson. Þá er það mál útrætt.

    E.s. ég þurfti þrjár tilraunir til að koma þessu merki -> @ inn.

  9. Ég vil bara benda hæstvirtum fasteignasalanum Johnson á að hann er með nákvæmlega sömu samlagningar síu á síðunni sinni. Sérstaklega skemmtilegt, ekki hægt að neita því. En Siggi skelltu þér í Vesturbæinn, því fleiri Anti-KRista sem hægt er að raða í það hverfi því betra, ef ég flyt aftur heim þá verður það í Westurbæinn (að sjálfsögðu) þar bjó ég lengi vel og átti góðar (og slæmar) stundir.

    summan var 12 hjá mér

    snorri

  10. Og b.b. johnson…… ég nenni ekki að kommenta hjá þér útaf þessu e-meil staðfestingar rugli sem er bara óþolandi þegar manni liggur mikið á hjarta…. og þarf að kommenta FLJÓTT!

Comments are closed.