SiggiSiggiBangBang

Hún Sirrý mín.

Feb
09

Ég er guðs lifandi feginn því að hún Sirrý mín er komin með vinnu. Ég satt best að segja hafði af henni stórar áhyggjur. Og hvar annars staðar fékk þessi gjöf guðs til heimsins vinnu en á NFStuð stöðinni hressu og mikilvægu. Hún kemur til með að vera með Heimi Karlssyni í hinum sívinsæla þætti Ísland útskitið. Það er þó heppilegt að yfirleitt á þeim tíma sem þessi þáttur er á dagskrá, er ég að leggja allan minn metnað í að sofa yfir mig.

Jobbi Höttur

Feb
08

Ég sá fyrir nokkrum dögum viðtal við mann í Mexíkó að mig minnir sem átti við offituvandamál að stríða. Maðurinn var frægur fyrir að vera sá feitasti í öllum heimunum. Hann að mér virtist þar sem hann lá fyrir, þakti flöt upp á 4-5 fermetra og minnti óneitanlega á Jobba Hött, sem hafði mikið sex appeal þegar ég var að drattast yfir á kynþroskaaldurinn. Þessi hryllilega feiti Mexíkani var hinn hressasti. Hann sagði að nú hyggðust læknar gera á honum uppskurð sem gæti hugsanlega hjálpað honum til að borða minna. Hann tjáði fréttamönnum það af miklum þrótti að honum þætti það svosem ekkert tiltökumál ef hann dræpist, því einhvern tímann yrði það nú að gerast. En þætti það miður ef hann dræpist án þess að reyna að gera eitthvað í málunum. Útgeislun þessa manns í þessu viðtali var svo mögnuð að hann situr pikkfastur í hausnum á mér, öll 600 kílóin.

The human condition

Feb
05

“Well maybe you should just drink a lot less coffee, And never ever watch the ten o’clock news.
Blessunin hún Regina Spektor.
Ég hef reyndar minnkað kaffidrykkju mína umtalsvert, en ég verð að viðurkenna að ég er enn fréttafíkill. Í ljósi þess sem er að gerast í heiminum er ég farinn að álíta sem svo að fréttir séu heilsuspillandi. Það er þykir yfir höfuð fréttnæmt er hvernig mannófétisskepnan hagar sér þegar að honum er vegið með einum eða öðrum hætti. Til umfjöllunar eru menn með sært egó, sem verða á einhvern hátt að bæta upp egó-ið með allskyns andstyggilegum uppátækjum. Uppátækin eru svo réttlætt með háleitum markmiðum. Þetta fíaskó í kringum spámannslufsuna hann Múhammed er eitthvað sem ég verð að viðurkenna að ég óttast. Ég óttast að fólk eigi ekki mikið eftir af heilbrigðri skynsemi og setji fókus sinn þá frekar á persónulega gremju og reiði gagnvart þeim sem ekki eru sammála. Ég er af mikilli alvöru að hugsa um að hætta að horfa á fréttir. Ég tel að það sé mikilsvert að vera meðvitaður um hvað er að gerast í heiminum, en það að lepja upp alla þessa drullu frá hinum og þessum fréttamiðlum er einfaldlega ekki hollt. Ég er tildæmis ákveðinn í því að hætta að horfa á NFS fréttastöðina. Takið sérstaklega eftir fréttaþulum NFS hvernig þeir með leikrænum tilbrigðum magna upp aumustu fréttir þannig að maður hefur það á tilfinningunni að frétt um kartöfluppskeru á Blöndósi sé í raun og veru frétt um raðmorðingja sem gengur þar lausum hala. Eða djöfulsins svindlið og svínaríið sem NFS grafa upp hvar svo sem þeir á land fara, ásamt öllum þeim miðlum sem heyra undir hlutafélagið Dagsbrún. Hvar eru blómin og fuglasöngurinn? Hvað eru börnin að gera sér til skemmtunar? Er þessum miðlum um megn að fjalla um eitthvað sem hlýjar manni um hjartaræturnar, eða er lífið bara eintómur viðbjóður?

Úr einu í annað blog

Feb
02

Konur í stjórnunarstöðum eiga það til að tala mjög hátt og skýrt. Þetta þykir mér svo gott, vegna þess að ég er bæði með slæma heyrn og svo á ég í sérstökum erfiðleikum með að skilja talað mál. Konur í stjórnunarstöðum hafa líka sérstakt lag á því að láta eitthvað sem er sérstaklega óspennandi, hljóma eins og það sé mál málanna. Það fer ekki mikið fyrir mónótón í þessum blessuðu konum. Ég vann einu sinni á spítala, með eingöngu konum. Það þótti mér fyrirtak. Það var mér talsverð lífsreynsla get ég sagt með sanni. Það varð mér ljóst að vinnusamfélag að stórum hluta skipað konum getur verið magnþrungnara vinnuumhverfi en dæmigerður bílaverkstæðis Badda runk vinnustaður. Þetta var einnig á þeim tíma sem að ég hélt að allir vissu allt og gætu allt miklu betur en undirritaður. Ég hef með tíð og tíma síðan ég rankaði við mér úr 15 ára rotinu orðið þess var að fólk sem jafnvel gefur mannalegar yfirlýsingar um menn og málefni eru ekkert betur með á nótunum en ég. Mér finnst þessi uppgögvun mín vera svo mikil uppljómun fyrir mig og alla hluthafa að ég ræð mér varla fyrir áður óþekktri kátínu sem umlykur mig allan.

Year of the hummus.

Jan
25

Á sama tíma og ég geri mér grein fyrir að utanaðkomandi aðstæður mínar stjórni ekki því hversu lukkulegur ég er í þessu lífi, keypti ég mér 2 matvinnsluvélar nýjum lífsstíl mínum til stuðnings. Nýja árið brosir við mér, ég hleyp, borða grjón, gras og baunir og les uppbyggjandi bókmenntir. Ef ég færi u.þ.b 6 ár aftur í tímann og hitti sjálfan mig, þá er ég hræddur um að hinn 29 ára gamli Siggi, hefði fengið óþverratilfinningu yfir þeim manni sem ég er í dag. Reyndar á þeim tíma hefði ég aldrei séð framtíð mína fyrir, ekki einu sinni í mínum villtustu órum. Í mínum augum var eitthvað að fólki sem að stundaði heilbrigt líferni. Það var þó ekki að ég hefði ekki viljað verða heilbrigður á líkama og sál, ég bara einfaldlega hefði aldrei trúað því að ég ætti eftir að verða að ósköp venulegum vísitölukrypplingi. En hvað er það svo sem gerir manneskju heilbrigða. Ef að manneskjur eru heilbrigðar afhverju gera manneskjur þá það sem manneskjur gera. Hvar er nemendaráð spyr ég? Hver á að þrífa sameignina þessa vikuna? Þegar ég á sameignina þá er allt þrifið á þann hátt að ekki er hægt að finna að því. Það er tví, þrí þurrkað úr öllum gluggakistum. Hver stendur eiginlega skil á þessu?

ET

Jan
20

Þess ber að geta að Eckhart Tolle er kallaður ET í enlightenment heiminum. Við hinsvegar sem sækjum sömu fundi höfum þann háttinn á að bæta við greini fyrir aftan nafn þess sem okkur líkar að öllu jöfnu (en þó ekki alltaf) vel við. Títt umræddur yrði þá kallaður héðan í frá Tolle-rinn.

Falleg tilvera.

Jan
19

Ég sýni honum Eckhart mínum elskulega Tolle mikla ósanngirni með að rífa úr samhengi þessa málsgrein sem mér fannst ein og sér sérstaklega viðeigandi. Heilindi mín endurspeglast ekki í þessum hræðilega verknaði. Ég bið þá sem eiga um sárt að binda vegna þessa um fyrirgefningu synda minna. Ég dreg hinsvegar ekki dul á að ég efa það svo stórlega að ég eigi eftir að lifa hefðbundnu lífi úr því sem komið er. Ég fæ ekki séð að mín bíði glæst jepparennireið, lítið sætt hús, óhamingjusöm kona(sem stundar umræðuþræðina barnaland.is af sérstökum metnaði) og krakkaskrípi með atferlistruflanir, sem eiga engra kosta völ en að éta spítt til að ná sér niður í vitfirrtu íslensku samfélagi. Ég sé það svo glöggt í hendi mér að ég hef bara engan áhuga á því að lifa þessháttar lífi. Ég hef orðið fyrir talsverðum hughrifum eftir lestur minn á bókinni The Power Of Now. Ég hef í kjölfarið ákveðið að afsala öllu því sem ég hélt að einkenndi mig og mína tilveru. Ekki ber þó að skilja það svo að Eckhart-inn sé mótfallinn því að verða ástfanginn, því fer fjarri.
Eckhart Tolle er mitt gúru um þessar mundir. Það eitt og sér markar tímamót í mína fallegu tilveru.

LastFm

Jan
15

Ég bendi þeim sem hafa sérstakan áhuga á tónlist á nýjustu snéðugheit alnetsins fína og flottta http://www.last.fm. Þess ber að geta að ég kalla mig þarna ssiggi, sökum þess að siggi var frátekin. Prófíl minn er þá að finna á vefslóðinni http://www.last.fm/user/ssiggi/
Þetta er snjöll leið til að kynna sér nýja tónlist.

The Power Of Now

Jan
07

The very thing that gives you pleasure today, will give you pain tomorrow, or it will leave you, so its absence will give you pain. And what is often referred to as love may be pleasurable and exciting for a while, but it is an addictive clinging, an extremely needy condition that can turn into its opposite at the flick of a switch. Many “love” relationships, after the initial euphoria has passed, actually oscillate between “love” and hate, attraction and attack.

Þetta tel ég hina mestu snilld. Eckhart Tolle er með þeim magnaðri.

Milano

Jan
02

Ferðalagi mínu til Milano fer senn að ljúka. Hér er mynd sem ég tók í miðborginni rétt fyrir blessuð áramótin. Það fer minna fyrir jólunum hérna en heima á Íslandi. Ég er ekki mikið jólabarn og kann því þessvegna afar vel.

Goodbye 2005

Dec
31

Þá er þetta blessaða ár að renna skeið sitt á enda. Svona byrja öll góð áramótablogg. Ég persónulega sé ekkert eftir þessu ári, ég hef vart upplifað aðra eins andstyggð. Ég hef ferðast töluvert á þessu ári í hinum og þessum tilgangi. Örlagarík ferð mín vestur um haf til hennar Ameríku er mér í fersku minni. Þar brenndi ég nokkrar þrálátar brýr að baki mér. Ég hef dundað mér talsvert við það að brenna brýr á lífsleið minni. Hér á árum áður stundaði ég þá iðju nánast án þess að vera með meðvitund. Það er því frískandi að geta haldið þessum áhugamálum lifandi og ómetanlegt að geta stundað þau alveg glaðvakandi. Ég hef sérstakan hug á að gera árið 2006 alveg sérstaklega gott. Ég hef ákveðið að missa 30 kíló, hætta að drekka pepsi og læra stærðfræði alveg upp á nýtt.

Þrálát hegðun

Dec
20

Allt það súkkulaði sem ég tek til við að hesthúsa þessa daganna, endar undantekningalaust uppi á lærunum á mér. Þetta er að mínu mati svindl og brýtur í bága við almenna lífsgleði af þeirri tegund sem ég aðhyllist. Ég er orðinn í seinni tíð sjúkur í sykur. Ef eitthvað kemur upp á eða ég er eitthvað hnugginn þá veit ég fátt betra en að troða af áfergju í skolt mér súkkulaði og sætindi. Þar er efst á blaði súkkulaði eða “laði” eins og við fagmennirnir köllum það. Ég og grákuntan hún fröken Sigríður. Það er svipað og þegar menn sem þykjast eða hafa talsverðan pening á milli handanna segja “100 kall” í stað þess að segja “100 þúsund kall”. Vegna þess að þegar auðmenn eru annars vegar þá er aldrei talað í hundrað köllum, og þykir ekki nein ástæða til að nefna “þúsund”.