Dauðinn

Fólki finnst ég stundum eitthvað lítið jákvæður í skrifum mínum og hefur óskað eftir að ég skrifi eitthvað um fegurð lífsins. Ég hef því ákveðið að skrifa fáeinar línur um dauðann og hvernig sé best að haga málum eftir að dauðann ber að garði.

Ég persónulega kvíði ekki dauðanum, kannski vegna þess að mig grunar að ég verði miklu eldri en ég kæri mig um að verða og því töluvert í að ég segi bæ bæ. Ég horfi þó til þess með hryllingi, allt umstangið sem kann að verða í kringum skrokkinn á mér eftir að ég hverf á vit feðra minna.

Ég hef því lagt höfuðið í bleyti, ekki til að drekkja mér heldur til að finna lausn á þessu áhyggjuefni mínu. Lausnin er lítið snjallt júnit, eða infrastrúktúr, sem komið er fyrir á heppilegum stað í líkamanum. Þegar svo litla snjalla júnitið verður þess áskynja að hjartað hefir ekki starfað sem nemur fjórum mínútum, þá setur það af stað mjög svo snyrtilega sprengju þannig að líkamlegar leifar hins nýdauða fuðra upp í örlítilli flugeldasýningu.

Júnitið er ekki fulluppfundið í mínum huga, því hægt væri að bæta við fleiri skemmtilegum eiginleikum. Tildæmis gæti júnitið spilað mp3 sem innihalda nokkur vel valin orð um ágæti þess sem er verið að stimpla út, sent sms til aðstandenda, og að því búnu leyst viðkomandi upp í öreindir.

Með tilkomu svona uppfinningar, er engin ástæða til að hafa áhyggjur af því í lifanda lífi, hvort manni verður holað niður í kristilegum garði, líkið notað í listaverk, að maður verði fórnarlamb Dr. NecroPhil, hvaða tegund af kistu verði keypt, hvort margir mæti í útförina, osfrv, og þar fyrir utan yrði ég vellauðugur á þessari uppfinningu og gæti keypt mér Range Rover, sem er eins og allir Íslendingar vita farartæki hamingjunnar.

Hafa skal í huga að þessi bloggpistill var skrifaður á öðrum degi í gubbulaði.

5 thoughts on “Dauðinn”

  1. Frábær humynd, en hvað ef tækið bilaði í miðri Kringlunni og sendi þig héðan, ég reyndar sé fyrir mér ISS liða mynda líkfylgd með moppurnar reistar og ganga hægum skrefum í átta að miðju þinni með álútin höfuð, standa andartak kjurrir láta svo moppurnar síga og byrja svo að hamast við að skúra þér upp. Ha ha láttu mig vita þegar þú ferð í gang með þetta, mig hefur altaf langað svo til að verða kjölfjárfestir svo ég geti keypt mér bíl hamingjunnar.

  2. Ég sá þig nú strax fyrir mér við hlið þinna nánustu þegar flugeldasýningin hæfist skyndilega. Viltu verða svo samrunninn þeim að ætla að loða við þá það sem eftir er af þeirra eigin lífi? Neh,bara smá pæling..

  3. Með aukinni eftirspurn eftir nýjum og betri sprengjum til að drepa fólk, verða sprengjur orðnar það fullkomnar í framtíðinni að þó svo júnitið mitt snjalla sinni sínu síðasta hlutverki, þá verða nærstaddir þess nánast ekkert varir. Rakastig kannski aðeins eykst í andrúmsloftinu, en þar fyrir utan tekur enginn eftir því þó einu fíflinu sé færra.

    Já, takk fyrir Yoda myndbandið elskulegur Ofurnemi. Eftir að einhver mætur maður, kallaði minningargreinar í Morgunblaðinu tilfinningaklám, hefur mig ekki dreymt neina minningargreinadrauma. Svona er ég nú áhrifagjarn. En minningarblogg, þar sem einhver tekur að sér að blogga fyrir þá látnu? Þetta er nú hugmynd sem moggamenn gætu notað til að auka umsvif sín.

  4. Einu sinni reyndum við Katrín Ólafsdóttir að sprengja dauða rottu. Það gekk ekki mjög vel. Við festum kínverja á hana og lítið gerðist annað en nokkur sviðin hár. Það var ekki fyrr en hún keyrði með Edda sprengju út fyrir borgarmörkin að þetta tókst. Svo vel að rottan gersamlega hvarf af yfirborði jarðar og ekki einu sinni augntönn hefur sést af henni síðan.

Comments are closed.