Draumar – Fyrir lengra komna

[MEDIA=111]

 

Ég hef setið síðustu tvær vikur við eftirvinnslu á þessu glæsilega tónlistarmyndbandi, sem er við lagið Draumar af frumraun Sævars/Poetrix: Fyrir lengra komna.

Á einhverjum punkti eftirvinnslunnar tóku á mér hús, tónlistarmaðurinn, myndatökumaðurinn og framleiðandinn. Ég bauð upp á sékursnúða, espressó, tei og gamanmál. Klukkan hefur verið rétt rúmlega níu að kveldi til, þegar við sátum fyrir framan tölvutæknina sem skartar rómantískt heimili mitt. Allt í einu upphefjast ægileg læti á efri hæðinni. Góðborgarnir sem að tónlistarmyndbandinu stóðu, hver öðrum hrekklausari, horfðu spyrjandi augum á hvorn annan.

Ég andvarpaði, yfirbugaður af harmi. Hvað í ósköpunum er þetta, spurði framleiðandinn, sem er kristilega þenkjandi biblíumyndasafnari. Ég kom ekki upp einu orði, fátækur af bæði þolinmæði og náungakærleik. Er ekki verið að fífla okkur, spyr tónlistarmaðurinn.

Eins og reglulegir lesendur þessarar síðu fara nærri um, tilheyrðu óhljóðin spikfeitum nágranna mínum sem hafði ekkert þarfara að gera, þegar ég var með mikilvæga gesti úr bransanum, en að upphefja sóðaskak ásamt vinkonu sinni í veðruðu IKEA rúminu sínu.

Ekki fannst þó gestum mínum skakið tilkomumikið. Afhverju heyrist ekkert í henni, spurði myndatökumaðurinn. Þetta er engin frammistaða, sagði tónlistarmaðurinn. Liðlega þrjár mínútur liðu þangað til óhljóðin gengu niður. Þegar við höfðum náð mesta hrollinum úr okkur, héldum við áfram að spá í tónlistarmyndbandinu.

Ég hef ekki lengi verið að fikta í videogerð, svo ég er mjög hamingjusamur með að hafa fengið tækifæri til að vinna með fagfólki á því sviði. Ég held að nokkuð vel hafi tekist til. Hráefnið er allt skotið á hálfónýta 8mm vél, sem hélt hvorki stöðugum ramma, né sama hraða. Það var því talsverð vinna að láta mynd passa saman við hljóð. Það eitt og sér held ég að hafi tekið mestan tíma. Athugið að sorgarendur í ramma, eru þar af ásettu ráði.

Ég hef til þessa ekki verið neitt sérstaklega hrifinn af rappi, en ég kunni að meta þetta lag strax við fyrstu áhlustun, sem jók töluvert á ánægjuna. Sævar er mikill snillingur og alveg sérstakt prúðmenni, og söngkonan, sem syngur með honum, er frá mínum bæjardyrum séð, alger gersemi.

Ég þarf að flytja!

14 thoughts on “Draumar – Fyrir lengra komna”

 1. Til hamingju, þetta er stórvirki og eitt skemmtilegasta tónlistarmyndband sem ég hef séð lengi ….. þrátt fyrir að mér leiðist tónlistin.

 2. Rosalega fynnst mér þetta flott hjá þér. Ótrúlegur fílíngur og 8mm fílíngurinn gerir alveg ótrúlega mikið fyrir þetta.

  Bara með því betra íslenska sem ég hef séð og heyrt í lengri tíma. Takk kærlega fyrir að deila þessu með manni!

 3. Ég sá nú bara um eftirvinnslu, svo áferðin og performance er ekki mér að þakka.

 4. Algjör snilld, bara flott. Passar svo vel við lagið, maður verður bara eitthvað svo hress 😀

 5. Til lukku með allt, kæri herra, nema nágrannana sem eru afleitir.

 6. Fannst lagið GEÐveikt. Flott video. Er að hlusta á þetta oft í röð. Editing er ekkert “bara”.

 7. Þetta “bara” er yfirdrifið lítillæti af minni hálfu. Svokallað lítillátus maximum.

 8. Hafi þér einhvern tíma dottið í hug að skilgreina þig sem litla lirfu þá tilkynnist það hér með að það er alger firra. Þú ert eitt það litskrúðugusta og fegursta fiðrildi sem ég hef haft spurnir af. Í hvert sinn sem þú blakar vængjunum þínum kætirðu okkur maðkaflugurnar og við hættum að kjammsa augnablik og segjum við okkur sjállfar: Assgoti er hann fjölhæfur hann Siggi okkar.

 9. Æði, pæði og ekkert næði…
  þú veist hvað ég meina …Eina
  …rssssson.
  Kom’d a rappa – sveitti punghaus a-‘ðarna…

  Tjah – liggur ekki alveg við mér að rappa 🙂

  Flott vídeó!

  PS – erum á leiðinni til Englands, minn kæri – jessör – nú er næsta stopp Middlesbrough, takk fyrir.
  Munum yfirgefa Hollandið í maí…

 10. Til lukku með myndbandið, það er hið glæsilegasta. keep up the good work.

Comments are closed.